10.03.1931
Neðri deild: 20. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Einar Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en ég fann mig neyddan til þess, er ég heyrði svo digurbarkalega talað af munni guðfræðinganna hér í þessari hv. deild eins og raun varð á.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að prestar væru nauðsynlegastir allra embættismanna og þyrftu því meiri bókakost en aðrir. (MJ: Það hefi ég aldrei sagt). Jú, ég heyrði glöggt, að hv. þm. sagði þetta, og hefi það því rétt eftir. En ég spyr: Hvers vegna þurfa prestar meiri fræðslu en aðrir embættismenn? Er það af því, að þeir hafa verið meiri trassar á námsárum sínum en aðrir og numið lítið, eða af hinu, að þeir séu minnissljórri en aðrir embættismenn og þurfi því frekar en aðrir bækur til fræðslu og viðhalds sæmil. embættisskyldu?

Ég get ekki betur séð en að það séu prestarnir, sem minnst hafa að gera allra embættismanna, og séu þeir sú embættismannastétt, sem minnst skaðaði þjóðina, þó hyrfi úr sögu. Aðalstarf þeirra er fólgið í því að fara til kirkju á sunnudögum og messa, ýmist í hálftómum kirkjum eða yfir meðhjálpara og sjálfum sér, og ekki fleirum. Jú, svo hafa þeir ýms aukastörf að vísu, skíra börn, gifta þá, sem trúlofa sig, og jarða framliðna, ferma börn o. s. frv.; en fyrir öll þau störf fá þeir aukaborgun, þó lítil sé. — En safnast þegar saman kemur — og litlu verður Vöggur feginn. En ef á að fara að eyða fé úr ríkissjóði til þess að hlaða undir þá, frekar en aðra embættismenn, þá vildi ég helzt strika yfir hvorttveggja, bókasöfnin og prestana, en styðja fremur að fræðum lögfræðinga og lækna.

Hv. þm. V.-Ísf. bar fram skrifaða brtt. þess efnis, að ef fleiri en einn prestur væru í prestakalli, skyldi elzti presturinn hafa umsjá bókasafnsins. En ég vil geta þess, að það er ekki nema Reykjavík ein, sem hefir fleiri en einn prest, svo að brtt. þyrfti að vera greinilegar orðuð og hljóða til Reykjavíkur aðeins. En þetta verð ég að fyrirgefa hv. þm. V.-Ísf., þar sem hann hefir aldrei verið þjónandi prestur, þótt hann sé guðfræðingur, og er því eigi að tala fyrir fé á sína eigin hönd í þessari grein. — Hann hefir farið aðra leið hentugri þar — og tekizt vel. — Allt fer honum vel úr hendi — ef völd og peningar eru í framsýn.