03.03.1931
Efri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (614)

59. mál, ábyrgð ríkissjóðs fyrir viðskiptum við Rússland

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Þó að ég vænti þess, að hv. d. vilji sýna þessari till. þá vinsemd að leyfa henni að fara til síðari umr. og sennilega til nefndar, þá vil ég samt láta nokkur orð fylgja henni nú um leið og hún er lögð fyrir hv. deild. Að sönnu er tekið fram í grg. þeirri sem till. fylgir, nokkuð af því, sem taka þarf fram í sambandi við þetta mál, og sýnir það að nokkru leyti þá nauðsyn, sem telja má að sé til þess, að ríkið styðji viðskipti við Rússland með því að ganga í ábyrgð fyrir viðskiptunum að nokkru leyti.

Eins og kunnugt er, eru viðskipti við Rússa að ýmsu leyti öðruvísi en við aðrar þjóðir. Munurinn liggur aðallega í því, að þeir, sem verzla við Rússa, hverjir sem þeir eru, verða að gefa þeim alllangan gjaldfrest, talsvert lengri en heimtaður er í viðskiptum við aðrar þjóðir. Vegna þess sterka skipulags, sem er á ríkisverzlun Rússa, njóta þeir meira lánstrausts og lengri gjaldfrests en aðrar þjóðir, með þeim dreifðu kröftum, sem þar eru í verzluninni.

Framboð þeirra þjóða, sem við Rússa skipta, veldur því einnig, að þeir geta sett langan gjaldfrest sem skilyrði fyrir því, að þeir verzli við þær.

Þau viðskipti Rússa við aðrar þjóðir, sem við þekkjum bezt, eru við Norðmenn. Þeir hafa haft verzlunarviðskipti við Rússa undanfarin ár, og einna mest nú síðastliðið ár. Viðskipti þeirra á síðasta ári í þeirri verzlunargrein, sem hér ræðir um, nefnilega sölu á síld, hefir verið tæplega 600 þús. tunnur af saltsíld, 341141 tunnur af vorsíld og 251789 tunnur af stórsíld. Verðmæti þessarar síldar var rúmlega 9½ millj. kr.

Af þessu má sjá, að það skiptir ekki litlu máli fyrir okkur Íslendinga, hvort okkur opnast á Rússlandi sá markaður, sem Norðmenn hafa þar fyrir síld sína nú, þar sem síldarmarkaður sá, sem við höfum nú, er þröngur og getur minnkað. En það eru sterkar líkur fyrir því, að við gætum komizt með okkar síld inn á rússneska markaðinn, ef þessi þröngu og erfiðu skilyrði, sem sé hinn langi gjaldfrestur, sem Rússar heimta, væri ekki til fyrirstöðu.

Þörfin á því, að við getum komið síld okkar á rússneska markaðinn, virðist vera meiri nú en nokkru sinni áður, vegna þess að útlit er fyrir, að bræðslusíldin verði lægri þetta ár en hún hefir verið nú um langan tíma.

Svo lagt lítur út fyrir, að verðið verði, að vafasamt er, hvort útgerðarmenn treysta sér til að gera út skip sín, ef þeir fá ekki meira fyrir síldina en þeir fá, þegar hún er seld til bræðslu, þar sem útgerðin er líka svo mikil, að það er aðeins lítill hluti aflans, sem má salta, en mestur hlutinn verður að fara í bræðslu.

Þá er annað atriði, sem minna má á í sambandi við þetta. Það eru sterkar líkur fyrir því, að tvær síldarbræðslustöðvar norðanlands verði ekki starfræktar næsta ár, Krossanesverksmiðjan og Goos-verksmiðjan á Siglufirði. Þó hefir þörfin fyrir bræðsluverksmiðjur verið svo mikil, að jafnvel þó að ríkisverksmiðjan tæki á móti miklu, þá þurftu ýms skip að bíða talsvert lengi eftir afgreiðslu; og sum jafnvel um vikutíma. Framboðið til verksmiðjanna er þannig miklu meira en þær gátu tekið á móti.

Það liggur því í augum uppi, að ef sæmilega veiðist næsta sumar, þá hlýtur framboðið á síldinni að verða svo mikið, að það mun draga mikið úr veiðinni, hve erfiðlega bræðslustöðvunum gengur að taka á móti síldinni.

Það er rétt að geta þess í sambandi við þetta mál, að þótt Norðmenn hafi notið markaðs á Rússlandi fyrir síld sína, þá nota þeir hann fyrir fleiri voru en síld. Þetta síðasta ár seldu Norðmenn vörur til Rússlands fyrir rúmlega 20 millj. kr. Eins og farið er fram á í þáltill., að ríkið ábyrgist allt að 75% af viðskiptunum við Rússland, þá er það eftir reglunni, sem Norðmenn hafa sett í sínum viðskiptum við Rússa, að ríkið þar ábyrgist allt að 75%.

Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar haft lítilsháttar viðskipti við Rússa með síld. Það var árið 1927. Þá var síldarframleiðslan afarmikil. Þá voru verkaðar 240 þús. tunnur af saltsíld og sérverkaðri síld. Þessi gríðarmikla offramleiðsla varð til þess, að sumt varð að láta í bræðslu sumarið eftir, 1928, sumt af síldinni lá úti og varð mjög lítils virði eða alveg ónýtt. Þeir, sem seldu síldina til Rússlands 1927, fengu hana greidda með 9 mánaða víxlum og fengu því verðið áður en þeir þurftu að leggja fé í útgerðina 1928.

Nú á síðasta ári voru seldar til Rússlands 30 þús. tunnur af síld, og nam verð þeirra nálægt 600 þús. kr. Síldin var seld með 12 mánaða gjaldfresti, og fæst verðið því ekki fyrr en næsta haust, eftir að þeir, sem gera út á síldveiðar, hafa lokið síldveiðum það ár, því að þær veiðar eru úti í september eða jafnvel í ágúst. Það er því mjög erfitt að verða að bíða eftir síldarverðinu frá Rússum svo lengi, að það fáist ekki áður en farið er að gera út næsta ár, og því meiri nauðsyn er til þess, að ríkið hlaupi hér undir bagga og gangi í ábyrgð til þess að hægt verði að fá féð fyrr, því að áreiðanlega mundi vera hægt að selja víxlana, ef ríkið tæki ábyrgðina á sig. Ef það ráð yrði tekið, sem hér er farið fram á, að selja til Rússlands á næsta ári 200 þús. tunnur af síld, þá yrði að eiga það fé fast í síldinni í 12 mánuði, en slíkt væri algerlega ófært.

Það er því útilokað, að hægt verði að halda áfram viðskiptum við Rússa að verulegu gagni, nema hægt sé að selja þá víxla, sem rússneska stjórnin lætur gegn síldinni og yfir höfuð gegn því, sem henni er selt. En reynslan hefir sýnt, bæði hjá okkur og öðrum þjóðum, að það er ómögulegt, nema ríkið gangi í ábyrgð fyrir víxlunum.

Það fé, sem nú stendur fast í síldinni, sem seld var til Rússlands síðastliðið ár, er nálega 30% af öllu hrásíldarverði frá síðasta ári. Sést bezt á því, hve örðugleikar þeirra sjómanna og útgerðarmanna eru miklir, sem eiga þarna fé sitt fast og geta ekki fengið það laust.

Einhver kynni ef til vill að segja, að óþarfi hafi verið að selja síldina til Rússlands síðastliðið ár, því að hægt hafi verið að selja hana til Svíþjóðar á okkar venjulega markað. Slíku hefir verið haldið fram í sumum blöðum landsins, en það er byggt á ókunnleika blaðanna. Ef einhver kynni enn að hugsa svo, þá er óhætt að fullyrða, að þess var ekki kostur. Það hefði ekki verið hægt að selja 30 þús. tunnur til Svíþjóðar í viðbót við það, sem þangað var selt, nema verðið hefði lækkað afarmikið frá því, sem það þá var á sænska markaðinum.

Ég hefi reynt að gera mér grein fyrir því, hve mikils hagnaðar mætti vænta ef hægt væri að selja til Rússlands 200 þús. tunnur síldar næsta sumar. Niðurstaðan af þeirri athugun var sú, að miðað við það bræðslusíldarverð, sem gera má ráð fyrir að verði næsta sumar, muni hagnaðurinn verða hátt á aðra milljón kr., sennilega 1700 þús. kr. Af því myndi ríkið fá miklu meira útflutningsgjald af síldinni en þegar hún er látin í bræðslu. Sennilega mundi sá munur nema nokkuð á 4. hundrað þús. kr.

Það er því hagur bæði fyrir síldarframleiðendur og ríkið, ef þessi viðskipti takast, og það allmikil hagur, og er það því sjálfsagt, að þingið taki þessari málaleitun vel, því að í því árferði, sem nú er, getur það ekki talizt rétt, að sleppa þeim möguleikum, sem eru til þess að hafa svo mikið upp úr íslenzkum afurðum sem unnt er.

Í sambandi við þetta mætti minna á Austfjarðasíldina og þá aðstöðu, sem nú er til að koma henni á markaðinn. Það hefir, eins og kunnugt er, verið örðugt að fá markað fyrir hana, en hún virðist passa mjög vel fyrir rússneska markaðinn. Það hafa komið fram raddir um það, að byggja þar á Austfjörðum bræðslustöð fyrir þá síld, sem ekki er unnt að salta, en bæði mér og fleirum er það ljóst, að sú bræðslustöð mundi alls ekki bera sig fjárhagslega. Austfirzka útgerðin hefir ekki svo mikið síldarmagn sem stöðin þyrfti að fá til þess að hún bæri sig.

Eins og eðlilegt er, hafa menn áhyggjur út af þeim fiski, sem nú er til óseldur í landinu og er meiri en nokkurn tíma hefir verið til áður hér á landi á sama tíma. Um síðustu áramót voru hér til 126819 skippund af fiski, þ. e. a. s. miðað við fullverkaðan fisk.

Nú getum við aftur vitnað til Norðmanna hvað það snertir, að þeir selja til Rússlands nokkuð af fiski, þótt það sé tiltölulega minna en af síld. Eftir því sem blöðin hafa skýrt frá, mun maður nú vera sendur af kaupsýslumönnum og bönkum hér, til þess að athuga möguleika til að selja fisk á rússneskum markaði. Og ef það tekst, er vissa fyrir því, að sömu skilyrði eru sett fyrir þeim viðskiptum og öðrum, að rússneska stj. vill ekki kaupa nema með 12 man. gjaldfresti. Þess vegna er hér í grg. gert ráð fyrir, að ábyrgðin nái einnig til þess, ef seldur yrði fiskur til Rússlands.

Ég vil í sambandi við þetta mál minna á það, að á síðasta þingi var talið nauðsynlegt, að ríkisstj. gengi í ábyrgð fyrir 1 millj. kr. í rekstrarlánum, sem veitt yrðu af Landsbankanum útgerðarmönnum sunnanlands. Það er því fordæmi fyrir því, að stj. hlaupi undir bagga með útgerðinni, þegar hún er í kröggum, og ríkið ætti ekki siður að hjálpa til, þegar um er að ræða að opna nýjan markað fyrir ísl. afurðir, því að það er sýnilegt, að sá markaður, sem við höfum, er allt of þröngur.

Ég vil endurtaka þau orð, sem ég sagði í upphafi máls míns, að ég vona, að hv. d. leyfi málinu að ganga til 2. umr. Það er og eðlilegt, að nefnd fái að fjalla um það, og legg ég því til, að till. verði vísað til hv. fjhn.