03.03.1931
Efri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (615)

59. mál, ábyrgð ríkissjóðs fyrir viðskiptum við Rússland

Halldór Steinsson:

Ég get nú ekki neitað því, að mér virðist þetta vera allathugaverð braut, sem hér á að leggja út á, þar sem farið er fram á, að ríkissjóður ábyrgist allt að 5 millj. kr. til þessa áhættusama fyrirtækis, síldarútvegsins.

Mer finnst það varhugavert, vegna þess að hér er farið að mestu inn á nýja braut. Að vísu gat hv. flm. þess, að á síðasta þingi var samþ., að ríkið ábyrgðist 1 millj. kr. fyrir útgerðarmenn, en þá horfði allt öðruvísi við; það var bráðabirgðaráðstöfun, til þess að útvegurinn færi ekki í kalda kol; svo að þetta er ekki sambærilegt. Hér er ný braut, sem verið er að ryðja, og verður ekki í bili séð fyrir endann á henni. Ef byrjað er á síldinni og tekin ábyrgð á rússneskum víxlum, má eins búast við, að á eftir komi fiskurinn, ullin o. fl. Það kann vel að vera, eins og nú er ástatt á Spáni, þar sem allt logar í uppreisnum og óeirðum, að Spánverjar telji sér hag að því að kaupa ísl. fisk með löngum greiðslufresti.

Alþingi Íslendinga hefir verið fullríflegt á því að veita ábyrgðir ríkissjóðs, og oft er litið svo á, sem meinfangalaust sé að veita þær. En nú er svo komið, að á ríkissjóði hvíla tugir milljóna í ábyrgðum; en eftir því sem ábyrgðarsúpan vex, hlýtur lánstraust landsins að minnka út á við. Það er því ekki meinlaust að veita þessar ábyrgðir ríkissjóðs. Og hér er farið fram á hvorki meira né minna en 5 millj. kr.

Ég skal ekki leggjast á móti því, að málið verði athugað vendilega í nefnd, því að þetta er alvörumál fyrir síldarútveginn, sem er í kreppu með sólu afurðanna. En málið verður að íhuga rækilega, áður en hv. d. lætur sér detta í hug að samþykkja það.