16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (665)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannes Jónsson:

Hv. þm. Dal. hélt því fram, að ákvæði frv. bryti í bága við stjskr. Þá er þess að geta, að samskonar ákvæði hafa staðið í skattalögum okkar. Þingið 1928 samþ. að heimila stj. að innheimta tekjuskattinn með 25% viðauka. Þess vegna verð ég að líta svo á, að ef tilsvarandi ákvæði þessa frv. eru of nærgöngul stjskr., þá er þingið búið að sverfa að henni æðioft. Enda þótt heimildarlögin frá 1928 væru aldrei framkvæmd, þá skiptir það ekki máli í þessu sambandi, en aðalatriðið er það, að ekkert hefir þinginu þótt athugavert við þá lagasetning, þegar hún var á döfinni, né heldur hefir því verið haldið fram síðan, að nefnd lög hafi brotið stjskr. Annars er það alveg rétt hjá hv. þm. Dal., að ákvæði frv. um að skipta til helminga skatti og útsvari og draga annan helminginn frá í tekjuframtali, getur illa staðizt, og álít ég, að annaðhvort ætti að draga allt frá eða ekkert.