24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (684)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Það eru aðeins tvær till., sem ég ætla að víkja orðum að. sú fyrri er till. á þskj. 205, um að það megi draga frá aukaútsvar, tekjuskatt og eignarskatt. Ég get að mestu vísað til þess, sem ég sagði um þessa till. við fyrri umr. Það er nokkurnveginn augljóst ranglæti að ætlast til þess, að menn greiði skatt af aukaútsvari og tekjuskatti, og mér finnst það vera blettur á skattalöggjöfinni, ef það verður samþ. Þar sem hv. frsm. meiri hl. talaði um, að svo framarlega sem þessi till. mín yrði samþ., gæti það leitt til þess, að skattarnir yrðu hækkaðir, geri ég ekki ráð fyrir, að þetta sé annað en ógnun af hálfu hv. þm., því að nefnd sú, sem sett var til þess að endurskoða skattalögin, mun sjálfsagt hafa gert ráð fyrir því, að þau gæfu svipaðar tekjur og áður.

Nú er á ferð nýr skattur, bifreiðaskattur, sem gefa mun ríkissjóði nokkur hundruð þúsund krónur, svo að þó að brtt. mín verði samþ. og frv. þau, sem á ferð eru, þá mundi niðurstaðan verða sú, að þingið sneri þannig við skattalöggjöfinni, að skattarnir yrðu hækkaðir á þjóðinni.

Ég held því, að menn geti með góðri samvizku samþ. þessa till. og látið vera að hækka skattstigann frá því, sem nú er.

Hv. þm. Ísaf. hefir komið með brtt., sem gengur í líka átt, en í brtt. hans er tekið fram berum orðum, að því aðeins megi draga frá, að borgað sé á réttum gjalddögum. Mismunurinn er því þessi, að eftir till. hv. þm. Ísaf. er það útilokað, að draga megi frá, ef ekki er borgað á réttum dögum, enda þótt borgað sé seinna. Það, sem hann ætlast til, með þessu, mun vera það, að þá sé ýtt undir menn að borga á réttum tíma: En ég held, að þetta sé miklu betur leyst með því að setja ákvæði um það, að draga megi frá strax og borgað er. Vanalegasta ástæðan til þess, að menn borga ekki, er sú að þeir geta það ekki. Þess vegna finnst mér ekki rétt, að þeir geti ekki heimtað, að þetta sé dregið frá.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, því að heilbrigð skynsemi hlýtur að standa með þessari till., en ekki hinni, því að hún byggist ekki á neinni hugsun.

En hér er önnur till., á þskj. 220, sem ég furða mig mikið á. Hún er komin frá meiri hl. fjhn. Minni hl. n. vissi ekki um, þegar þessi till. var samþ. par. Ég furða mig á því, af þeim ástæðum, að nýlega hefir verið felldur úrskurður af hæstv. forseta um það atriði, hvort ákveða mætti í þessum lögum, að fjárl. væru ákveðnar vissar breyt. á skattalögunum. Þessi úrskurður fellur á þá leið, að greinarnar skuli felldar burtu. En þegar það er í ósamræmi við stjskr. landsins, þá hljóta menn að sjá, að það stríðir enn meir gegn henni að fela stj. að gera þetta. En úrskurður forseta sýnir, að þetta var stjórnarskrárbrot, og þá held ég, að menn geti verið mér sammála um það, að þetta sé engu að síður stjskrbrot.

Mönnum hlýtur að vera það ljóst, að það er ákaflega hættuleg braut, sem þingið er komið inn á, ef það ætlar sér að fara að útbúa skattalögin þannig, að leggja það á vald stj., hvort hækka skuli skatta eða lækka. Hvar er þá verndin og tryggingin, sem stjskr. vill veita borgurunum, ef löggjafarvaldið getur falið stj. að gera þetta? Mér finnst þá vera lagt nokkuð mikið vald í hendur stj. í viðbót við það, sem hún hefir nú, ef það á að fela henni að gera þetta.

Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig meiri hl. fjhn. hefir getað komið sér saman um að koma fram brtt., sem stríðir gegn stjskr. samkv. nýuppkveðnum úrskurði forseta, og þar að auki gengur í bága við heilbrigða skynsemi.

Það, sem gerzt hefir á síðastl. árum, bendir á það, að Alþ. þurfi að standa á verði og láta stj. ekki hafa of mikið vald. Ef Alþ. ætlar að svara því, hvernig stj. hefir hundsað þingið, með því að segja: „Þú skalt ráða því, hvernig skattarnir eru lagðir á,“ — þá fer skörin að færast upp í bekkinn. Mér þætti gaman að sjá framan í þá, sem greiða atkv. með þessu.

Annars finnst mér, að úrskurður hæstv. forseta, sem nýlega hefir verið upp kveðinn, hljóti að útiloka það, að þessi till. komi til greina.