26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég finn ástæðu til þess að þakka hv. menntmn. fyrir meðferð hennar á þessu frv. Nál. hennar gengur allt í velviljaða átt og líka þær brtt., sem hv. þm. Ak. stendur einn um.

En ég vildi leiðrétta lítilsháttar misskilning hjá hv. 6. landsk. viðvíkjandi nefndinni, sem hefir búið þetta mál undir. Það mátti skilja orð hennar þannig, að sumir nm. hefðu verið áhugasamir og afkastað meira en aðrir. Það getur verið, að þm. hafi ekki átt við þetta. En af því að ég fylgdist með í störfum n., er mér óhætt að fullyrða, að hún starfaði vel saman og árangurinn, sem varð, kom af því, að allir nm. lögðu eitthvað fram frá sér og sinni lífsreynslu.