09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (791)

5. mál, verðtollur

Pétur Ottesen:

Við hv. 2. þm. Skagf. flytjum brtt. við frv. þetta á þskj. 302. Ég þarf ekki að hafa um þær mörg orð, því talsverðar umr. urðu við 2. umr. um þá stefnu, sem fram kemur í þeim.

Fyrri brtt. hljóðar um að flytja nokkrar fæðutegundir, sem sé fisk og fiskmeti, kjöt og kjötmeti, úr B-lið 9. gr. í A-lið hennar; m. ö. o. að færa þær úr 20% verðtollsflokknum í 30% flokkinn. Þessar matvörutegundir, fiskur og kjöt, eru aðalframleiðsluvörur okkar, og framleiðum við margfalt meira af þeim heldur en hægt er að nota í landinu sjálfu. Þess vegna er bæði óþarft og óhagstætt fyrir fjárhag þjóðarinnar að flytja þær inn frá útlöndum. Með þessum brtt. viljum við gera tilraun til að stuðla að því, að fólk eyði ekki fé til að kaupa inn í landið vörutegundir, sem við höfum meira en nóg af fyrir.

Seinni brtt. er um að færa mjólkurafurðir á sama hátt úr C-lið í B-lið, úr 10% flokknum í 20% flokkinn. Um þessar vörutegundir er það sama að segja og hinar, að öðru leyti en því, að eins og nú standa sakir, hefir eina mjólkurniðursuðuverksmiðjan í landinu ekki starfað um nokkurt skeið, svo að ekki mun vera kostur á nægri niðursoðinni mjólk innanlands sem stendur. Af þeirri ástæðu sáum við okkur ekki fært að leggja til, að mjólkurafurðirnar væru færðar undir Aliðinn, í hæsta flokkinn. Þó er nú í ráði, að niðursuðuverksmiðjan taki til starfa aftur, og getur hún þá soðið niður næga mjólk handa landsmönnum. Hefði því sama átt að ganga yfir þetta og það, sem talið er í 1. lið. — Skal ég svo ekki segja fleira um þetta, en ég vænti þess, að hv. deild geti fallizt á brtt. okkar.