19.03.1931
Neðri deild: 28. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (857)

20. mál, búfjárrækt

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er ljóst af áliti hv. landbn., að búin hefir lagt mikla vinnu í athugun þessa frv. Frv. komst ekki í prentun fyrr en stuttu fyrir þing, og prófarkalestur eigi svo vandaður sem skyldi, og ýmislegt, er samræma þurfti, og ber að þakka n. starf hennar að þessu leyti. Ennfremur er mér ljúft og skylt að þakka henni, að hún hefir sumstaðar bent á nýjar leiðir til framfara, og mun ég fús fylgja öllu slíku. Að lokum leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. Ég er ennfremur þakklátur hv. frsm. fyrir það, hvílíka áherzlu hann lagði á, að lögfestir yrðu þeir styrkir, sem ríkið hefir veitt til þessara mála undanfarið.

Ég vil svo víkja fyrst að því, er hv. frsm. sagði, að n. líti ekki svo á, að með þessu frv. væri verið að rýra völd Búnaðarfélags Íslands. Að svo getur ekki verið, sest bezt á því, að á búnaðarþingi var samþ. áskorun til Alþingis um að samþykkja frv.

En enda þótt ég sé þakklatur n. og hv. frsm. fyrir allt þetta, dylst mér ekki, að því miður fer n. afturábak í mörgum brtt. sínum frá því, sem ákveðið er í frv. um eflingu búfjárræktarinnar í landinu. Brtt. draga mjög víða úr frv., og þeirri framfaraviðleitni, sem þar gætir, er of víða skotið á frest að mínum dómi.

Áður en ég fer út í einstakar brtt., vil ég fara nokkrum orðum um það, hve réttmætt sé að draga úr framkvæmdum þeim, er frv. gerir ráð fyrir. Það er vitað mál, að fjárframlög til landbúnaðarins hafa farið mjög vaxandi hin síðari ár, og væri vanþakklæti að neita slíku. En sú aðstoð hefir verið næstum eingöngu bundin við jarðræktina, sem er að vísu annar aðalþáttur landbúnaðarins, en heldur ekki meira. Ef tilætlunin er að veita landbúnaðinum styrk til alhliða framsóknar, er ljóst, að öðrum aðalþætti hans, búfjárræktinni, hefir ekki verið sá sómi sýndur af því opinbera, sem þörf er á. Þetta er ekki sagt í ásökunarskyni til Alþingis. Hinn þátturinn, jarðræktin, hefir verið tekin fyrst, og allt hefir ekki verið hægt að gera í einu. En mér finnst þó nokkuð undarlega við bregða, að er hliðstæðar tillögur um eflingu búfjárræktarinnar í landinu eru bornar fram, skuli hv. landbn. stinga við fæti og vilja draga svo mjög úr umbótaviðleitninni.

Ég vil fara um það nokkrum orðum, hvort rétt sé, að afstaða Alþingis og fjárveitingarvaldsins sé önnur gagnvart búfjárræktinni en jarðræktinni. Ég veit, að þeir, sem í hv. landbn. sitja, eru jafneinlægir í áhuga sínum fyrir landbúnaðinum og við allir hinir, sem sæti eigum í þessari virðulegu samkomu. Ég vil því athuga nokkuð, hvort rétt sé, að viðhorf hins opinbera sé annað gagnvart búfjárræktinni en ræktun landsins.

Þess er fyrst að gæta, og það er höfuðatriðið í máli þessu, að við björgumst ekki við jarðræktina eina. Jarðræktarafurðir okkar eru yfirleitt ekki markaðsvörur, fyrr en búpeningurinn er búinn að „umsetja“ þær í kjöt, ull, mjólk o. þ. h. Það er því skaðlegt að einblína um of á jarðræktina, en vanrækja búfjárræktina. Það má gera að engu arð góðrar jarðræktar með því að láta stritlur og lambsgotur taka við afurðunum af jarðræktinni.

Það hefir verið bent á, hvílíkt hagræði erlendum bændum hefir stafað af búfjárræktarfélögunum, sem auðvitað hafa verið studd af því opinbera. Að vísu hefir hið opinbera stutt jarðræktina líka, en ef þeirri spurningu væri var það fram, hvort hefði komið bændum á Norðurlöndum að meiri notum, efling búfjárræktar eða jarðræktar, hygg ég, að svarið myndi hiklaust vera: efling búfjárræktarinnar. Reynslan mun verða, og er raunar þegar orðin, hin sama hjá okkur.

Í því efni ætla ég að minnast á aðeins örfá dæmi, sem ég hefi gripið upp síðan í fyrrakvöld, þegar ég sá nál. frá hv. n. Þau sýna ljóslega þann mikla árangur, sem orðið hefir í búfjárræktinni á þeim stutta starfstíma, sem ennþá er hér á landi á því sviði.

Ég talaði í mörgun við skólastjórann á Hvanneyri, til að fá hjá honum tölur yfir þann árangur, sem orðið hefir af kynbótum kúa á Hvanneyri um rúm 20 síðustu ár. Árið 1907 var meðalnyt þar 2200 kg. og meðalfita mjólkurinnar 3,7%. 1930 var meðalnyt 2900 kg. og meðalfita 4%. Ef það er nú athugað, hvað þetta er í auknum afurðum, þá sést, að árið 1907 var smjörmagn á ári á hverja kú á Hvanneyri að meðaltali 90 kg., en 1930 er það 131 kg. Þessi er þá árangurinn af kynbótastarfseminni á Hvanneyri í rúm 20 ár, svo mikill, að framförin er meira en 40 kg. af smjöri á ári á kú. Fleiri sögur, svipaðar þessari, gæti nautgriparæktarráðunauturinn, sem nú hlustar á umr. hér, sagt, ef hann hefði hér málfrelsi. Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi, annað en það, sem ég þegar hefi nefnt um kýrnar. Það er úr kjördæmi hv. þm. Barð., vestan af Rauðasandi. Árangurinn af 20 ára starfi að kynbótum kúa þar er sá, að þar hefir meðalnyt hækkað úr 2200 kg. og upp í 3000 kg. Þessi dæmi sýna, hver framfor hefir orðið í nautgriparækt par, sem réttum aðferðum hefir verið beitt til kynbóta, og svona getur hún orðið um allt land og í miklu stærri stíl, ef þessi starfsemi nær að festa rætur, og mun þá færa öllum almenningi þann hag, sem hún er nú þegar byrjuð að færa heim fáu, sem stundað hafa.

Þá vil ég taka dæmi úr sauðfjárræktinni. Það er dæmi, sem ég var sjálfur áhorfandi að. Það var hjá mjög myndarlegum bónda norður í Strandasýslu og hann hafði mjög nákvæma reikningsfærslu um búreksturinn. Bóndinn var Ingimundur Magnússon á Ósi í Steingrímsfirði, trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands. Hann sýndi mér reikning um hverja einustu á, sem hann átti. Og hann sýndi mér það svart á hvítu, að af einni kind árið áður, árið 1926, hefði hann fengið eitt hundrað króna ágóða. Segi og skrifa eitt hundrað krónur eftir eina á. Svona má benda á einstaklinga sem sýna, hvert er hægt að ná með allan þorrann með þeim aðferðum í búfjárrækt, sem aðrar þjóðir hafa nú lengi haft. Það væri einkennileg aðferð í jarðrækt að rækta nýtt tún, en láta gamla túnið fara í órækt. Jafnmikil fávizka er þá í búfjárrækt að leggja einhliða áherzlu á að fjölga gripunum. Aðalatriðið er að eiga góða gripi og fara þannig með þá, að þeir gefi fullan arð.

Í því sambandi vil ég nefna annað dæmi. Ég mætti í mörgun manni úr Ísafjarðarsýslu, Jóhanni Daníelssyni bónda í Harðardal í Dýrafirði. Hann skrifaði ritgerð í „Frey“ í fyrra. Þar sýndi hann, að af einni dilka hafði hann fengið 67% arð og af einni mjólkurá hafði hann fengið milli 60 og 70% arðs á einu ári.

Út frá því, sem nú hefir verið sagt, og mörgu öðru, sem er ósagt, skil ég ekki, hvers vegna n. vill stinga fyrir sig fótum og ekki leggja til, að ríkið styðji í svipuðum stíl aukna rækt búfjárins eins og jarðræktina.

Það er í mótsögn við reynslu og skynsemi.

Það er í mótsögn við stefnu landbn., sem hefði ekki stungið fótum við nýjum till., sem hefðu verið til álíka mikilla hagsbóta í jarðræktinni.

Það er í mótsögn við stefnu þingsins, sem hefir ríkulega veitt fé til jarðræktar, að vilja ekki eins stiga spor til umb6ta í fjárræktinni, sem eru þó í minni stíl en til jarðræktarinnar, en miða til enn meiri hagsbóta fyrir bændastéttina.

Það er í mótsögn við reynslu annara þjóða, sem hafa lagt hina mestu stund á kynbætur með stórmiklum árangri.

Það er í mótsögn við reynslu þá, sem fengin er hér á landi, því að hún hefir sýnt, að þetta hefir þegar fært mönnum mikinn hagnað.

Ég segi það því hiklaust, að það er ekki áhorfsmál að samþ. svona umbótatill., hvar og hvenær sem þær eru bornar fram, svo sterklega rökstuddar og í fullu samræmi við tillögur þeirra manna, sem bezt þekkja til á sviði landbúnaðarins, og þegar menn hafa fyrir sér dæmi deginum ljósari, bæði af reynslu annara þjóða og einnig af innlendri reynslu, sem sýna, hve afarmikla þýðingu réttar kynbætur hafa.

Ég hefi, eftir að mér var kunnugt um þessar till. hv. landbn., átt tal við flesta úr þeirri hv. n., til að heyra þær ástæður, sem þeir hefðu fyrir þessum till. sínum, og sömuleiðis hafa þær ástæður komið fram í ræðu hv. frsm. Og það, sem hv. nm. hafa sagt, er þetta: Það, sem við viljum draga úr, er það nýja. Við viljum halda okkur við þann grundvöll, sem verið hefir í þessum efnum undanfarin ár. Við viljum ekki fara aftur á bak, en una því sem er. En þessi grundvöllur, sem Búnaðarfélagið hefir starfað á, er síðan 1925, og við höfum alltaf haft takmörkuð fjárráð, eins og hv. frsm. er kunnugt um, og á fjölmörgum sviðum hofum við orðið að skera við nögl. nú vil ég spyrja hv. frsm. og aðra nm., sem bera þennan grundvöll fyrir sig: Væri hv. frsm. og hv. landbn. ánægð með að hafa jarðræktina í því ástandi, sem hún var 1925? Væri hv. frsm. ánægður með, að við yrðum nú að nota sömu verkfærin til jarðyrkju, sem almennt voru notuð 1925? Væri hann ánægður með, að bændur notuðu ekki tilbúinn áburð meira en 1925? Nei, við værum stórlega óánægðir, ef landbúnaðurinn væri á þessu sviði og ýmsum öðrum í sama ástandi og 1925.

Ég veit, að hv. frsm. er mér öldungis sammála um, að á öllum þessum sviðum má ekki una við það, sem var 1925. En það á við víðar. Það er ekki frambæril. ástæða að segja: Ég vil halda mér við gamla grundvöllinn. Eins og ástatt er nú er kyrrstaðan og of hægfara framfarir í raun og veru stór afturför, og það er hin mikla hætta, ef bændur sjá það ekki nógu almennt, að kyrrstaðan er afturför. Landbúnaðurinn hefir ekki ráð á því lengur að una því gamla, að afla heyjanna að miklu leyti á þýfðu, óræktuðu landi. Nýja búskaparlagið verður að komast „inn á hvert einasta heimili“ — að sætta sig ekki við annað en slétt og ræktað land, sem gefur mikið, fljóttekið og kjarngott fóður. — Og landbúnaðurinn hefir ekki heldur ráð á að sætta sig við of hægfara framfarir í búfjárræktinni. Það er óþolandi að láta sér nægja að eiga þá gripi, sem ekki gera nema hálft gagn, eða ekki það, á móts við það, sem þeir eiga að gera og geta gert. Við eigum ekki að slá því á frest, að allur þorri bænda verði aðnjótandi arðsins af framforunum. Tilgangurinn með þessu frv. er ekki einungis sá, að lögfesta það starf, sem Búnaðarfélagið hefir unnið að undanförnu, heldur á jafnframt að leggja grundvöll að nýju og fjölbreyttara starfi á þessu sviði en hingað til hefir verið og byggja um allt á reynslu erlendra þjóða í þessum efnum og þeirri reynslu, sem við höfum fengið hér á landi.

Ég vil undirstrika það, að bæði frv. sjálft og allt, sem ég hefi sagt og mun segja í sambandi við till. frá hv. n., er í nánu samræmi við skoðun þeirra manna, sem verið hafa trúnaðarmenn þjóðfélagsins á þessu sviði undanfarin ár.

Ég leita liðs hv. deildar til þess að fá að halda þeim atriðum í frv., sem á þessu sviði miða til framfara. Ég fullyrði, að hér er um að ræða starfsemi, sem mun færa bændum landsins jafnvel enn meiri arð en jarðræktin.

Þá skal ég víkja að brtt. n. á þskj. 176. — 1. brtt., við I. kafla, er viðvíkjandi nautgriparæktinni. Brtt. n. fer fram á, að naut megi ganga laus þangað til þau eru orðin 8 mán. gömul, en í frv. er ákveðið, að þau megi ekki ganga laus eldri en 5 mánaða gömul. Hv. frsm. færði mjög lítil eða engin rök fyrir því, að rétt væri að hækka þetta úr 5 mánuðum upp í 8 mánuði. Hann sagði, að n. hefði fundizt það óþarft eða skaðlaust, að naut mættu ganga laus svo lengi. En öllum, sem hafa kunnugleika af búskap, er kunnugt, að naut eru orðin kynþroska 5 manaða gömul, nema þau hafi lifað við einhvern sérstakan sultarkost. Ef ástæða þykir til að banna, að naut gangi laus lengur en 8 mánuði, þá eru alveg sömu rökin, sem mæla með hinu, því að af 5 mánaða kálfunum getur stafað hið sama tjón.

Það getur vel verið, að þessu yrði ekki hlýtt alstaðar. En það er svo með mörg þessi ákvæði, að þeim er ekki hlýtt fullkomlega alveg undir eins. En það lærist, og að á ekki að slá af því, sem rétt er. nú, þegar farið er af stað með þessi ákvæði, þá er að spor í áttina til að fá þessu framgengt. Ég legg ekki mikla áherzlu á, að þetta atriði í frv. fái að haldast, en ég álít samt, að með brtt. n. sé stigið spor aftur á bak.

2. brtt. og 3. brtt. a. eru leiðréttingar, sem ég þarf ekki að koma að.

Þá er 3. brtt. b. Þar er undanþáguheimild, sem ég get verið sammála, þar sem hún er bundin því skilyrði, að nautgriparæktarráðunautur mæli með því. En í því sambandi vil ég spyrja hv. n.: Hvers vegna vildi hún ekki láta það sama gilda að því er snertir hrúta? Hvers vegna mátti ekki afgreiða það í því formi, sem n. vill, að hér sé gert? Það væri samræmi í því og líklegt, að það kæmi að gagni. Ég býst við, að hv. frsm. sé mér sammála í því, að frá því sjónarmiði, að lögunum sé þannig fyrir komið, að þau fullnægi sem bezt þeim kröfum, sem gera verður í þessari starfsemi, þá sé rétt að hafa þarna undanþáguheimild fyrir sauðfé alveg eins og naut.

4. brtt. a. er samskonar og ég hefi áður talað um, um aldur þeirra nauta, sem laus mega ganga, og má vísa til fyrri ummæla.

Þá er 4. brtt. b. Þar dregur n. úr ákvæði laganna um það, að menn megi kröftuglega verjast því, að verða fyrir skaða af graðpeningi. N. álítur ekki rétt, að taka megi naut í landi eigandans sjálfs. Það er skemmtilegt, að það skuli vera með lögum verndað að láta hættuna vofa yfir. Ef kálfurinn aðeins er á landi eigandans, þá má geyma hann þar í næði, svo hann sé alltaf tilbúinn að gera nágrannanum tjón. (JS og BÁ: Það má kæra hann, þegar nautið hefir gert óskunda). Af hverju má ekki hefjast handa til varnar áður en tjón er orðið, er hættan sýnilega vofir yfir? Þetta er að lögleiða þá reglu, að byrgja brunninn ekki fyrr en barnið er dottið í hann. Ég held, að betra væri að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið í hann, með því að heimila mönnum að verjast hættu, sem bersýnilega vofir yfir.

Við 5. brtt., sem er um þóknun til kynbótanefndar, hefi ég ekki mikið að athuga, nema þar er eftir till. n. ósamræmi, borið saman við þóknun til hrossaræktar, eins og sest, ef 26. gr. er athuguð. Þar segir svo, að öllum árlegum kostnaði við kynbæturnar, svo sem þóknun til kynbótanefndar, er ákveðin sé á hreppsskilaþingi, leigu eftir kynbótahest, hagagöngu, umsjón með hestinum, fóðri og leigu eftir girðingu o. s. frv., sé jafnað niður á folöldin. Þegar þessi ákvæði eiga að gilda um hrossaræktina, þá yrði ósamræmi milli þess og hliðstæðra ákvæða um nautgriparæktina, ef þessi brtt. n. við 7. gr. verður samþ.

Í b-lið þessarar brtt. er fellt niður ákvæði úr núgildandi lögum, og þar sem nautgriparæktarráðunauturinn hefir sagt mér, að reynslan hafi sýnt, að ekki hafi þurft að taka til þessa ákvæðis, þá mun ég fallast á, að þetta sé fellt niður.

6. brtt. leiðir af því, sem áður er komið, og sömuleiðis 7. brtt.

Þá er 8. brtt., þar sem n. vill, að skilyrði fyrir því, að nautgriparæktarfélög, sem stofnuð eru, fái þau réttindi, sem þeim er tryggður í þessum lögum, sé það, að meiri hl. bænda í hreppnum hafi samþ. að Stofna félagið. En eins og hv. frsm. hefir sjálfur bent á, þá er hér um að ræða ósamræmi gagnvart hrossaræktarfélögunum, því að það á ekki að þurfa nema 5 menn til að stofna hrossaræktarfélag, til þess að fá allan þann rétt, sem heim er áskilinn. En nú á ekki að vera nægilegur fjöldi, þó að 10 menn stofni nautgriparæktarfélag. Þetta nær engri átt. Hv. frsm. sagði, að félögunum væri veitt of mikið vald, ef svona fáir menn mættu stofna félag í hreppnum. En hann vill ekki svipta hrossaræktarfélögin þessum rétti, að mega fá full réttindi, þó að í þeim séu ekki nema 5 menn. mér finnst rétt að leyfa mönnum að stofna félög, þótt fáir séu, en veita þeim þá kannske ekki alveg eins mikil hlunnindi eins og þeim félögum, sem taka yfir heila sveit. (JS: Hv. frsm. nefndi það). Ekki viðvíkjandi nautgriparæktarfélögum.

Þá er 9. brtt. n., við 11. gr. Hér er um að ræða margar brtt., sem allar veikja aðstöðu félaganna. 1 frv. stendur: Styrkurinn „skal vera“. Í brtt.: styrkurinn „getur fengizt“. Þá er svigrúmið þrengt um styrkveitingu. Loks er hámarkið lækkað úr kr. 2,50 í 2 kr. á hverja kú. Allt eru þetta spor aftur á bak. Í sambandi við lækkun hámarksins vil ég benda á það, að nautgriparæktarráðunautnum þótti þurfa að setja hér nýtt hámark, þar sem fitumælingar væru fleiri. Hann benti á, að sumstaðar, þar sem þessi starfsemi er fullkomin, t. d. þar, sem hún er rekin í sambandi við rjómabúin, svo sem norður í Eyjafirði, þar væru 6 fitumælingar á ári. Og í samræmi við það gagn, sem af slíkri starfsemi hefir hlotizt, þá þótti honum rétt að færa styrkinn upp í það hámark, sem nefnt er í frv., nefnilega 2,50 kr. Má það takast til nýrrar athugunar við 3. umr.

Þá kemur 10. brtt., við 12. gr. Efnislega hefi ég ekkert við hana að athuga, því að hún getur verið til bíta, en orðalagið í upphafi brtt. er rangt. Þetta „auk þess“ er komið fyrir áður í gr., og ætti brtt. að orðast svo: „Styrkurinn skal vera“ o. s. frv.

Þá kemur 11. brtt., þar sem n. leggur til, að heimildin um, að greiða megi úr ríkissjóði verðlaun til þeirra nauta, sem fá 1. og 2. verðlaun, falli burt. Ég vil benda á það, að hér vill n. ekki færa þetta á þann grundvöll, sem verið hefir hjá Búnaðarfélaginu, heldur vill n. fella niður það, sem gert hefir verið í þessu efni að undanförnu, því að þessi verðlaun hafa ekki hingað til verið veitt af sameiginlegu sýningarfé, sem lagt er fram að hálfu frá hreppnum og að hálfu frá Búnaðarfélaginu, heldur hefir það verið veitt allt frá Búnaðarfélaginu, og það er auðvitað það sama og það hafi verið veitt úr ríkissjóði. Með þessu á að draga verulega úr þeim verðlaunum, sem veitt eru.

Ég vil aðeins geta um það þessu til viðbótar, að ég hefi fengið upplýsingar um það frá ráðunaut nautgriparæktarinnar, að árið 1927 var fé til þessara verðlauna 250 kr., 1928 var það 50 kr., 1929 var það 100 kr. og 1930 800 kr. Upphæðirnar eru misháar eftir því, hver landshlutinn er. Mest er upphæðin 1930, en það fé fór til Suðurlands, en þar eru kýrnar flestar. Ég skal geta þess, að ráðunauturinn hefir áætlað þetta um 2700 kr. á næstu 5 árum, svo að hér er ekki um mikið fé að ræða, en aftur á móti er það talsvert spor í framfaraáttina. En ef brtt. n. væri samþ., þá væri það tilfinnanlegur afturkippur frá því, sem verið hefir síðan 1925, því að þá var byrjað á þessu og enginn ætlast til að leggja það niður fyrr en nú. (JS: En fóðurstyrkurinn?) Þar er um nýmæli að ræða. Og það á ekki að vera regla, að þó að bætt sé um á einu sviði, þá þurfi að kippa að sér hendinni á öðru sviði.

Þá er það næsta brtt. n., við 14. gr., og þar vill hún lækka styrkinn til girðinga, sem nautgriparæktarfélög þurfa að koma sér upp fyrir naut sín. N. vill lækka þennan styrk úr 1/3 og niður í 1/4 kostnaðar, og er þá komið á þann grundvöll, sem lagður var 1925. Ég vil benda á í því sambandi, að samkv. jarðræktarlögunum var gengið út frá því í upphafi, að styrkur sá, er veitast skyldi á safnþrær, væri 1/3, en til túnræktar 1/4 kostnaðar. En vitanlega er það almenn regla, að félagsstarfsemi á að fá ríflegri viðurkenningu en starfsemi einstakra manna, því að þar er um að ræða almennara gagn venjulega. Þó að þarflegt sé að styrkja jarðræktina að sjálfsögðu, er þó ekki síður þarflegt að veita styrk til þessara girðinga. Og þar eð um er að ræða félagsstarfsemi, þá er alveg sjálfsagt að fylgja hinni almennu reglu. Því segi ég það, að þessar brtt. n. eru ekki í samræmi við það, hvernig ríkið á öðrum sviðum styrkir landbúnaðinn. Og þess vegna legg ég til, að brtt. n. verði felld.

Þá hefi ég lokið máli mínu um 1. kafla frv., sem felur í sér tillögur um nautgriparækt.

Kem ég þá að 2. kafla frv., kaflanum um hrossarækt. Vil ég í sambandi við 19. gr. benda á það aftur, að þar er gert ráð fyrir, að 5 menn geti myndað hrossaræktarfélag og njóta til þess verndar laganna, ef þeir eiga 30 hryssur. Þetta er í ósamræmi við 10. gr. frv. um nautgriparæktarfélög, þar sem gert er ráð fyrir, að 10 menn geti ekki gert hið sama. Annars hefir hv. frsm. viðurkennt þetta ósamræmi, og mér skyldist á honum, að n. væri fús til að lagfæra það.

20. brtt. er að sumu leyti nauðsynleg leiðrétting, en mætti auðvitað alveg eins koma fram við 3, umr. Í þessari brtt. n. er b-liður 2. tölul. 33. gr. felldur niður. Er tilgangur með þessu sá, að takmarka framlagið upp í fóðurkostnað verðlaunahesta. Vill n. aðeins láta ákvæði 33. gr. ná til hesta, sem hlotið hafa 1. verðlaun, en ég álit, að ástæðulaust sé að draga nokkuð úr styrknum til þessara gripa. Og yfirleitt er sú stefna uppi í öllum löndum, að ríkið þurfi að láta sér farast vel við slíkt metfé sem t. d. goða kynbótahesta.

Kostnaðurinn við það, að styrkja 2. verðlauna hesta, hefði heldur ekki orðið svo gífurlegur, að nokkrum hefði þurft að blæða það í augum. Eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið frá ráðunautnum, hefði það kostað ríkið aðeins 350 kr. að taka að sér fóðurkostnað 2. verðl. hesta árið 1930. Og um hraðan vöxt verður vart að ræða.

21. brtt. er við 35. gr., og er hún alveg hliðstæð 12. brtt n., við 14. gr. frv., sem ég gat um aðan, um girðingar. Vill n. færa hlutfallið úr 1/3 ofan í 1/4. Í þessu er sama ósamræmi eins og áður. Þá viðbótarástæðu benti ráðunautur og á, að fyrir hrossaræktarfélög hlýtur það ávallt að verða mjög dýrt að koma sér upp girðingum, því að hryssurnar frjóvgast ekki nema þær hafi mjög rúmt um sig. þessar girðingar hljóta því, ef vel er, að verða tiltölulega dýrar fyrir lengdar sakir.

B-liður brtt. er auðvitað í samræmi við þetta. Þar er gert ráð fyrir, að síðasti málsl. 35. gr. falli niður. Það er ákvæðið, að styrkja megi félag til girðinga aftur eftir visst árabil. Auðvitað mæla sömu rök með því, að styrkja megi aftur eins og að styrkja beri í upphafi. Í Búnaðarfélaginu er fylgt þeirri reglu að styrkja ekki aðeins í eitt skipti, heldur aftur og aftur, þegar svo stendur á. Þetta ákvæði í 35. gr. um 15 ár var miðað við það, að eftir 15 ár myndi þurfa að gera girðinguna upp að nýju.

Þá kem ég að 22. og síðustu brtt. n., viðvíkjandi hrossaræktinni. Hún fer fram á það, að 36. gr. frv. falli niður. Ef þetta yrði samþ., væri þar með fallin þessi heimild, sem 35. gr. vill veita ríkisstjórninni til þess að kaupa kynbótahesta.

Þegar ég kom að máli við ráðunautinn í hrossarækt, var þetta atriði það fyrsta, sem hann sagði að þyrfti að fá að standa í frv.

Hjá öllum menntuðum þjóðum er einmitt starfað á þessum grundvelli. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að norska Stórþingið veitti þegar árið 1857 200 ríkisdali til kaupa á kynbótahestum. Það má því öllum vera ljóst, að mikið er gefandi fyrir það, að hægt sé að verjast því, að einstakir menn okri á sérstaklega goðum gripum. Norska ríkið hefir einnig eignazt stór lönd til þess að geyma þar gripina. T. d. 1881 veitti norska Stórþingið 22 þús. kr. til þess að kaupa slíkar lendur. Mér þykir þetta þess vert að bent sé á það í sambandi við þá skerðingu, sem n. vill gera á ákvæðum frv. um þetta efni.

Í Danmörku mun vera einna bezt hrossarækt á Norðurlöndum, og þar á ríkið sjálft kynbótahrossin. Og í sumum löndum Þýzkalands er meira að segja föst regla, að ríkið hafi hrossaræktina algerlega í sínum höndum. Sem dæmi vil ég nefna ríkið Honnover. Þar er það ríkinu mjög stór tekjugrein að flytja út og selja kynbótahesta.

Vil ég þessu til viðbótar reyna að gera grein fyrir kostnaðinum, sem af því myndi leiða, ef þessi heimild yrði samþ. Við gerðum áætlun um kostnaðinn, ég og annar úr stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem einnig á sæti í landbn., og ráðunauturinn í hrossarækt. Við möttum kaupverð hestsins 1000 kr. Rentur og afborganir mottum við árlega 100 kr. og kostnað af fóðri og girðingu 250 kr. Tekjur af hestinum möttum við 250 kr. Kostnaður af 1 hesti á ári myndi því verða 100 kr. Hámark heimildarinnar var, að kaupa mætti 4 hesta. Það er því ekki um meiri kostnað að ræða fyrir ríkið en 400 kr. á ári. Og getur það ómögulega kallazt mikið, miðað við það gagn, sem þessi ráðstöfun hlýtur að gera hestastofni landsmanna.

Þetta atriði virðist vera þyrnir í augum hv. ræðumanna, en ég fæ ekki seð annað en að þetta ákvæði sé algerlega hættulaust, því að vitanlega gerir atvmrh. ekkert í þessu efni nema samþykki Búnaðarfélagsins komi til.

Þá kem ég að 3. kafla frv., um sauðfjárræktina. Og þykir mér hv. n. hafa orðið næsta stórtæk um það að draga úr þessum lið frv.

1. till. við þennan kafla er 23. brtt. n. við 41. gr. Þar vill n. ekki ganga sömu braut og gengin hefir verið að því er snertir naut og fola, að þau gangi ekki laus. Og vill hv. n. ómögulega ganga inn á, að þessi eða þessu lík fyrirmæli gildi einnig um hrúta. 41. gr. frv. mælir svo fyrir, að hrútar megi ekki ganga lausir á tímabilinu frá 1. nóv. til 1. maí ár hvert, nema þeir séu í öruggri vörzlu.

Þarna vill hv. n. greinilega slaka til, eins og ég áður sagði, því að hún orðar brtt. sína svo: „Heimilt er sveitarfélögum, með samþykki meiri hluta bænda, að banna, að hrútar gangi lausir í sveitinni allt tímabilið frá 1. nóv. til 1. maí ár hvert, eða nokkurn hluta þess“. Virðist þetta geta orðið einskonar undanþága fyrir einstaka menn og héruð. Ég held mér við mitt fyrra álit í þessu efni og sé ekki neitt hættulegt við það, að hér sé fylgt sömu reglunni og gildir um naut og graðhesta.

Um 24. brtt. þarf ég ekki að tala sérstaklega, því að hún er beint áframhald af 23. brtt.

Þá eru næst margar brtt. viðvíkjandi sauðfjárræktarbúunum. Þar hefir hv. n. orðið harðhentust. Frv. gerir ráð fyrir sauðfjárræktarbúum, einhverri sýslu, styrktum af ríkissjóði, en n. leggur til, að þau séu aðeins 4, eitt í hverjum landsfjórðungi, og vill ennfremur heimila atvmrh. að styrkja einstaka menn, ef þeir fullnægi settum skilyrðum samkv. brtt. nefndarinnar. —

Nú skal ég í stuttu máli segja skoðun mína á þessu, og hún er sú, að mér finnst vitanlega ekki koma til mála að stíga það spor nú þegar að stofna sauðfjárræktarbú í hverri sýslu. Og ég gæti sömuleiðis fallizt á, að heimildin yrði þrengd nokkuð. En að fara svo langt aftur á bak, sem n. gerir, það álit ég hið mesta óvit og afturhald og mun aldrei fallast á slíka afturhaldssemi. Annars fyndist mér bezt fara á því að láta þessar mörgu brtt. bíða 3. umr., ef ske kynni, að fundizt gæti millistig milli skoðana hv. nm. og frv.

Vil ég þá geta þess, er hv. frsm. n. sagði, að n. vildi leita uppi einstaka menn, sem skara fram úr, til þess að veita þessum opinberu fjárbúum forstöðu. Vitanlega er þetta meint í frv.

Þá er 31. brtt., sem er við 50. gr. Vil ég leggja áherzlu á það, að þessi brtt. nái fram að ganga. Í frv. er gert ráð fyrir sýningum 3. hvert ár, en n. vill aðeins hafa sýningar 5. hvert ár.

N. segir, að erfitt sé fyrir einn mann að veita þessum sýningum forstöðu. —Hver segir, að það eigi aðeins að vera einn maður? Hvers vegna má ekki ala upp með honum mann, sem síðan geti tekið við af honum? því má ekki láta gilda regluna, að betur sjá augu en auga? Ég álít, að rétt sé að láta bændur sjá framan í eitthvað af nýjum andlitum og eitthvað af nýjum skoðunum. Enda hafa áskoranir oftlega borizt stj. Búnaðarfélagsins um það, að hún sendi nýja menn út um sveitir landsins, til þess að leiðbeina mönnum um sauðfjárrækt.

Þá vill n. með 32. brtt. sinni fella niður ákvæði þau, sem voru í 51. gr. frv. N. vill sem sé, að greinin falli burt. Er þar um að ræða samkeppnina milli sauðfjárræktarbúanna. Hún segist ekki hafa trú á, að hægt sé að finna réttlátan samanburð á sauðfjárbúum, þar sem um mjög ólíka staðháttu sé að ræða. Ég vil nú aðeins segja það, að vitanlega hefir það aldrei verið meiningin hjá ráðunautnum. Hann ætlar auðvitað að taka hliðstæð bú, sem hafa sem svipaðasta aðstöðu. Og það er víst, að þessi samkeppni er tíðkuð víða um lönd og þykir hafa mikil áhrif á viðleitni manna í því efni að bæta búfjárstofna sína.

Það er alkunnugt, hve illa gengur að fá menn til þess að taka upp nýja starfsháttu og hve mikið þarf til þess, að bændur taki upp þær breyt. í búskap, sem nauðsynlegar eru. Til dæmis má nefna tilbúna áburðinn. Allir muna, hvernig gekk í fyrstu að fá menn til þess að skilja, hversu gagnlegur hann var. —Það var ekki fyrr en ríkið á alveg sérstakan hátt auglýsti þetta, að menn almennt fóru að veita þessu eftirtekt og fóru að nota tilbúinn áburð. Sama máli gegnir um þetta sauðfjárræktaratriði og tilbúna áburðinn. Það þarf að auglýsa það með samkeppni, eins og ráðunauturinn vill og gerir ráð fyrir. Þó ef til vill mætti þrengja eitthvað till. ráðunautsins, þá sé ég ekkert vit í því að taka þetta frá ráðunautnum, sem hann svo mjög hefir fyrir brjósti borið um langan aldur. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ég talaði nýlega um þetta efni við kollega minn Einar fjmrh. Árnason, og nefndi hann mér þá 2 dæmi, af tveim búum í sinni sveit. Hjá öðrum bóndanum, sem ég get nefnt Árna, var önnur hver ær tvílembd, og þar höfðu lömbin að meðaltali 30 punda skrokk. En hjá hinum, sem ég get nefnt Bjarna, var ekkert tvílembt, en þar höfðu lömbin aðeins 25 pd. skrokk. Og þó var þetta hvorttveggja í sömu sveit og að öllu leyti lík hin ytri aðstaða.

Þá kem ég að 4. kafla frv., og þar hefi ég ekki mikið að athuga við brtt. Skal ég fyrst geta þess, að 1. brtt. við þennan kafla, 35. brtt., við 55. gr. frv., er glögglega framfaratillaga, og vil ég þakka hv. landbn. fyrir hana, jafnframt því, sem ég vil lýsa yfir því, að ég er n. alveg sammala um þetta atriði. Og ég vildi óska þess, að ég gæti oftar í þessari ræðu minni haft tækifæri til þess að vera n. þakklátur fyrir slíkar framfaratillögur. Sömuleiðis get ég fallizt á 36. brtt. Vil ég um leið geta 37. brtt., sem gerir ráð fyrir því, að ef almennur hreppsfundur vill ekki stofna föðurbirgðafélag, þá geti 10 menn innan þess sama hrepps gert það. Sé ég ekkert athugavert við það.

38. brtt. gengur út á það að lækka tekjur tryggingarfélaga. Get ég fallizt á þá lækkun að sumu leyti. Vil ég ekki beinlínis óska að þessi brtt. sé felld, en vildi áminna hv. n. um að athuga vel málið fyrir næstu umr. og sjá, hvað hægt er að gera til þess að bæta hag fóðurbirgðafélaga.

Þá á ég aðeins eftir að minnast á síðustu brtt. hv. n., sem er við hin almennu ákvæði frv. hún er ein af þeim till., sem að mínu áliti miðar að því að færa þessa löggjöf um stórt skref aftur á bak. Er hún um að fella úr frv. ákvæðið um sýslubúfjársýningar 10. hvert ár. Hv. frsm. gat um, að ráðunautur Búnaðarfélags Íslands hefði látið í ljós, að hann óskaði ekki eftir að hafa þetta ákvæði í frv. Ég get vel getið mér til um, hver ráðunautanna það hefir verið. Hrossaræktarráðunauturinn hefir sem sé enga ástæðu til að óska eftir sýslusýningum 10. hvert ár, því í hans grein búfjárræktarinnar er öll sýningarstarfsemin sýslusýningar.

Ég er ekki í minnsta vafa um, að það væri mjög þarft og gagnlegt, ef hægt væri að koma á almennum sýslusýningum. Slíkar sýningar hafa áður verið hafðar. Búnaðarfél. Ísl. byrjaði sýningarstarfsemi sína með sýslusýningum. En þegar önnur sýningarstarfsemi þess fór að aukast, hafði það ekki ráð á að halda uppi sýslusýningum jafnhliða.

Í sumum nágrannalöndum okkar eru slíkar allsherjar héraðsbúfjársýningar eins og nokkurskonar þjóðhátíð fyrir fólkið, sem landbúnað stundar. Þannig ættu þær einnig að geta orðið hér, fólkinu bæði til gagns og hressingar.

Nú mun Búnaðarfél. Ísl. ætla að fara að draga úr þeirri námsskeiðsstarfsemi, sem það hefir haldið uppi undanfarandi ár, m. a. af því útvarpið er nú fengið. En ég veit, að bændanámsskeiðnna verður saknað úti um sveitirnar. Væri því gott, ef sýslusýningarnar gætu að nokkru leyti komið í staðinn.

Ég vil óska eftir, að heimildin til að halda sýslusýningar sé ekki felld niður úr frv. Hinsvegar er ég fús til samkomulags að breyta ákvæðunum um hana, ef hv. n. þætti hún t. d. of rúm. Það er ekki nauðsynlegt að binda þessar sýningar við hverja einstaka sýslu; það mættu alveg eins vera héraðssýningar, þar sem staðhættir leyfa. T. d. væri heppilegt fyrir Múlasýslur báðar að hafa sameiginlega sýningu við Lagarfljót, Árnes- og Rangárvallasýslur gætu haft sýningu við Þjórsarbrú, o. s. frv.

Ég hefi nú farið gegnum allar brtt. Ég hefi orðið að þreyta hv. d. með nokkuð löngu máli, til þess að gera grein fyrir, að skertar séu þær tilraunir, sem með þessu frv. er verið að gera til þess að beina búfjárræktarstarfsemi landsmanna inn á sem fullkomnastar brautir. Ég vona, að hv. d. sýni það samræmi í hug sínum til landbúnaðarins, að hún stigi nú sama sporið í þágu búpeningsræktarinnar, sem hún áður hefir stigið í þarfir jarðræktarinnar.

Í lok ræðu sinnar vek hv. frsm. að ástæðum til þess, að n. snerist á móti sumum af nýmælum frv. Sagði hann m. a., að nú væru mjög erfiðir tímar. Ég játa, að það er hin almenna regla á slíkum krepputímum sem þessum, að ríkið verður að kippa að sér hendinni hvað tilkostnað snertir og framkvæmdir. En sú regla er ekki án undantekninga. Þegar þannig árar, hafa atvinnuvegirnir hvað mesta þörf fyrir hjálp hins opinbera og uppörvun, til þess að þeir séu reknir á sem hagfræðilegastan hátt. Hin almenna regla gildir því ekki um þau gjöld, sem veitt eru atvinnuvegunum til aðstoðar, til þess þeir geti staðizt kreppuna.

Frv. þessu er ætlað að styðja búfjárræktina á tvennan hátt. Annarsvegar á það að stuðla að ræktun búfjárins, en hinsvegar að verja búpeningsræktina áföllum, koma í veg fyrir fóðurskort. Ég vil enn benda á, til frekari áréttingar, hvað ákaflega þýðingarmikið og nauðsynlegt það er fyrir bændur að stunda vel ræktun búfjárins. En jafnframt verður að verjast þeirri miklu hættu, sem vofað hefir yfir kvikfjárrækt landsmanna í 1000 ár, fóðurskortinum. Þó að þau ráð, sem hér er um að ræða, séu góð, eru þau ekki annað en bráðabirgðaráðstöfun. Ræktun landsins og ræktun búfjárins verður aðalvörnin gegn fjárfelli í framtíðinni. Þegar bændur hafa stórkostlega aukið afurðir búpeningsins með kynbótum og bættu fóðri, þá munu þeir verða varkárari um það, að ekki geti komið fyrir, að þeir missi allan arð af búfénu vegna fóðurskorts, heldur en nú, meðan það gefur sárálítið af sér vegna illrar ræktar og ills fóðurs. Þá mun fellishættan hverfa af sjálfu sér. Öllu, sem miðar að því, að þetta mark náist sem fyrst, öllum ráðum í þá átt, hvaðan sem þau annars koma, mun ég sérstaklega fagna.

Þó ég hafi beitt mér á móti sumum brtt. hv. landbn. og þó ég hafi nú synt fram á skoðanamun um einstök atriði frv., vildi ég mega vænta góðrar samvinnu og samkomulags við hana við endanlega afgreiðslu þessa frv. og um önnur mál, sem n. hefir til meðferðar.

Að síðustu vil ég beina því til hv. n., að ef sú breyt. kemst á samkv. þessu frv., að Búnaðarfél. Ísl. hættir að sjá um útborgun á opinberum styrk til búfjarræktar, geng ég vitanlega út frá, að það fé, sem Búnaðarfélagið hefir áætlað til þeirrar styrkgreiðslu, komi til frádráttar á styrk félagsins. Þyrfti aths. um það að komast annaðhvort inn í fjárlögin eða þessi lög.