11.03.1931
Neðri deild: 21. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (920)

27. mál, kirkjur

Pétur Ottesen:

Ég ætla ekki að fara langt inn á þetta mál að þessu sinni.

Það er vitanlegt, að hér í Reykjavík heyrast allháar raddir um það, að brálega þurfi að stækka dómkirkjuna her, eða að byggja aðra nýja til viðbótar.

Munu þá ákvæði þessa frumvarps um stærð kirkna, ef þau verða að lögum, hafa áhrif á kirkjubyggingu í Reykjavík. Ætti kirkja hér í Reykjavík, þar sem tveir prestar þjóna, að rúma 1/6 safnaðarins, mundi hún að líkindum verða óþarflega stór.

Ég get vel fallizt á að lækka megi lágmarkstölurnar í frv. um stærð kirkna, en brtt. hv. nefndar get ég ekki fallizt a. Brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. finnst mér sanni nær, ef ástæða þykir til að setja nokkur ákvæði um þetta.

Við brtt. nefndarinnar finn ég aðallega eitt atriði athugavert, að þar er lagt til, að gengið sé að mestu leyti framhjá söfnuðunum með að úrskurða um það, hvenær þörf sé að endurbyggja kirkju, og það endanlega lagt undir úrskurð ráðherra, hvort byggja skuli kirkju eða ekki. Með slíku ákvæði er réttur tekinn af þeim, sem kostnaðinn eiga að bera. Virðist það óeðlilegt, að ekki skuli fara saman réttindi og skyldur í þessu efni. Get ég alls ekki fallizt á slíkt. Mun ég við 3. umr. bera fram brtt. um þetta atriði, þar sem ákveðið verður, að söfnuðirnir hafi þetta vald.

Það er ákvæði í 13. gr, frv. um það, að prófastur geti með samþykki biskups ákveðið, ef hann telur að endurbyggja þurfi kirkju, að hækka skuli kirkjugjöld um helming, að því er mér skilst, allt að 10 árum áður en hann álítur að þurfi að byggja kirkjuna. Féð skal svo ávaxta í hinum alm. kirkjusjóði þar til kirkja er endurbyggð.

Nefndin flytur þá brtt., að prófastur og sóknarnefndir skuli ráða þessu í sameiningu. En ef ágreiningur verður milli prófasta og sóknarnefnda, hver á þá að skera úr?

Ég vil láta það vera á valdi safnaðanna, hvernig afla skuli fjár til kirkjubyggingar, og mun ég á sínum tíma bera fram brtt. um það efni. Mér er ekki kunnugt, að nokkur ástæða sé fyrir hendi, er geri nauðsynlegt að taka þetta vald af sóknarnefndunum. Ég býst við, að segja megi, að sumar kirkjur séu ekki í bezta lagi, en það er svo um fleiri hús og híbýli.

Ég tel, að í þessu efni sé það gjaldið, sem verði að ráða á hverjum tíma, því að þó að menn eigi kost á lánum til kirkjubygginga, þá hrekkur það ekki nema að nokkru leyti, og af þeim lánum þarf svo að borga vexti og afborganir.

Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Reykv., að ég felli mig illa við þá tilhögun, að taka úrskurðarvald úr höndum biskups og fá það í hendur ráðherra. Úr því að biskup er til á annað borð, þá er eðlilegra að hann hafi íhlutun um þessi mál frekar en ráðh. Þó ekki sé rétt í þessum umræðum að miða við persónur, þá get ég vel tekið það fram, að núverandi biskup er að mínum dómi mjög gætinn fjármálamaður. Tillögur þær frá honum um málefni kirkjunnar, sem legið hafa fyrir á undanförnum árum, eru talandi vottur um gætni hans og varfærni í meðferð ríkisfjár.