18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (943)

27. mál, kirkjur

Magnús Jónsson:

Við 2. umr. þessa máls var 2. gr. frv. felld niður. Þó að hún væri ekki mjög stórvægileg, finnst mér óviðkunnanlegt að fella hana niður án þess að eitthvað komi í staðinn.

Grein þessi var í tveim liðum. Annar var þess efnis, að ekki mætti geyma í kirkjum annað en þeirra eigin gripi, en hin var um það, hvað kirkjur skyldi hafa stórar, þegar þær eru byggðar upp. Um það atriði urðu nokkrar deilur, en mér fannst þær aðallega snúast um orðalag frv. Þó niðurstaðan yrði sú, að fella gr. alveg niður, fannst mér það ekki vera vegna þess, að menn yfirleitt vildu alls ekkert ákvæði um þetta efni hafa í um, enda held ég það sé nauðsynlegt.

Það er ef til vill ekki brýn nauðsyn á því að ákveðið sé í lögum, hvað stórar kirkjur skuli reistar, þar sem söfnuðirnir sjálfir eiga kirkjurnar. Þar fara vitanlega saman hagsmunir kirkjueigenda og kirkjunotenda. En aftur á móti þar sem kirkjueigandi er annar, er nauðsynlegt að tryggja það, að hann reisi ekki kirkju, sem er alltof lítil fyrir söfnuðinn. Um þetta var ekki mikill ágreiningur við 2. umr., heldur um hitt, hvaða lágmark ætti að setja og hvernig bezt væri að orða ákvæðið. Mér virtist hv. þm. finnast það þurfa að vera mjög teygjanlegt. Og var þóttist ég verða við það, að ímugustur hv. þm. á ákveðnu fyrirmæli um stærð kirkna, stafaði að einhverju leyti af því, að ríkið sjálft er kirkjueigandi hér í Reykjavík. Þessi virðulegi kirkjueigandi er jafnframt hinn aumasti kirkjueigandi á landinu. Hann hefir alveg brugðizt þeirri skyldu, að sjá söfnuðinum fyrir viðeigandi kirkjuplássi. Meðan íbúum sóknarinnar hefir fjölgað úr örfáum þúsundum upp undir 30 þús., eða söfnuðurinn hefir vaxið upp í 18 þús., ef maður telur meðlimi fríkirkjusafnaðarins ekki með, sem þó bar ekki sérstök skylda til að sjá sér fyrir kirkju, hefir ríkið ekkert gert til að bæta úr þörfinni fyrir stærri kirkju. Það hefði kannske átt að skylda alla aðra kirkjueigendur en ríkið til þess að hafa kirkjur sínar svo eða svo stórar! En mér fannst slíkt nú ekki viðeigandi. Þó að það hefðu ef til vill verið gullhamrar um mína kjósendur, að þeir þyrftu minna kirkjurúm en aðrir, og þá að sjálfsögðu af því að þeir væru svo vandaðir menn, þá fannst mér nú alls ekki eiga við að láta í þessu efni annað gilda um Reykjavík en aðra hluta landsins.

Með brtt. á þskj. 153 legg ég til, að þegar reisa á nýja kirkju, skuli málið borið undir prófast; hann geri síðan tillögu um stærð hennar og sendi biskupi, en ráðherra úrskurði síðan eftir tillögu biskups lagmark sætafjölda þannig, að séð sé fyrir þörfum safnaðarins. Þetta held ég að sé nægilega teygjanlegt ákvæði til þess, að hægt sé að taka tillit til allra ástæðna, sem til greina geta komið. Það er svo hóflegt og tryggilegt, að ég skil ekki, að neinn geti óttast það. Fyrst á prófastur héraðsins, sem alltaf mun hafa nægilegan kunnugleika við að styðjast, að gera tillögu um kirkjustærðina, og síðast er úrskurðarvaldið hjá þeim aðila, sem þingið sjálft skipar, nefnilega ráðh.

B-liður brtt. er aðeins orðabreyting, sem stafar af því, að nýjum málslið er bætt inn í gr.

Hin brtt. er um minniháttar atriði. Mér fannst illa viðeigandi að fella niður fyrir fullt og allt ákvæðið um, að ekki megi nota kirkjur til geymslu. Úr því á brtt. að bæta, og getur það a. m. k. engum skaða valdið að samþykkja hana. Ég er viss um, að hinn sanngjarni hugsunarháttur landsmanna mundi aldrei amast við því, þó að undir sérstökum kringumstæðum væri skotið inn í kirkju t. d. einhverju, sem bjarga þyrfti undan veðri, án þess að fengið væri til þess leyfi. En það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að kirkjueigendur, sem enga umhyggju bera fyrir kirkjum sínum, geti misnotað þær á þann hátt, að geyma í þeim allskonar skran. Því eru í brtt. ákveðnar sektir við slíkum brotum, og tekið fram, að þær skuli ganga til kirkjunefndar. Það er vel til fallið, að þeir, sem misnota kirkju sína og skemma útlit hennar, séu dæmdir til að greiða nokkurt fé, sem gengur til þess að prýða þá sömu kirkju. Með því að láta sektirnar renna til starfsemi kirkjunefndanna, er líka sett einskonar framkvæmdarvald í þessu efni. Maður getur hugsað sér, að nefndunum yrði annt um að fá ofurlítið fé til umraða, og að þær mundu því líta eftir því, hvort ákvæði laganna væri hlýtt. Aftur mundi lítið verða úr eftirliti, ef sektirnar ættu að renna til ríkissjóðs.

Um aðrar brtt. skal ég ekki vera langorður. Þó vildi ég minnast ofurlítið á brtt. á þskj. 171 frá hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. V.-Ísf. Með þeim er stungið upp á að fella kirkjunefndirnar niður úr frv. Ég skil ekki, hvaða ástæðu hv. þm. sjá til þess. Aldrei geta þessar nefndir orðið til neins skaða. Í versta tilfelli verða þær meinlausar og gagnslausar, til ills geta þær tæplega orðið.

Hér er um talsvert ólík hlutverk að ræða, sem ætluð eru sóknarnefndum og kirkjunefndum. Í sóknarnefndirnar veljast oftast reyndir og ráðsettir menn, því að þeim er ætlað að sjá um fjármál safnaðarins og aðra hagsmuni. Aðalhlutverk kirkjunefndanna yrði aftur að hlúa að kirkjunum, prýða þær og gera þær sem mest aðlaðandi. Ég get hugsað mér, að ýmsum, sem ágætir eru til að standa fyrir malefnum safnaðanna, sé alls ekki sýnt um að skreyta kirkjurnar, sjá út hvaða gripi þær helzt vantar, efna til smásamskota til að útvega þá o. s. frv. sóknarnefndunum eru venjulega einhverjir mektarmenn, en í kirkjunefndina munu yfirleitt verða valdar konur, sem sökum natni sinnar eru miklu hæfari til að hlúa að kirkjunum og gera þær smekklegar.

Slíkt fyrirkomulag er alls ekki óþekkt áður. Í Vesturheimi t. d. eru það aðallega konurnar, sem kirkjurnar annast. hér í Reykjavík hefir nýlega verið kosin kirkjunefnd fyrir dómkirkjuna. Hún er byrjuð að safna fé til kirkjubyggingar, og þó að byrjunin sé smá, mun kirkjan hér áreiðanlega einhverntíma bera vott um starf þessarar nefndar.

Ég er viss um, að kirkjunefndir yrðu víða á landinu, þar sem þær væru skipaðar eins vel og tök eru á, og gera sofnuðum og kirkjulífi mikið gagn, og þær mundu á ýmsan hátt létta undir með sóknarnefndunum og kirkjueigendum. Vil ég því mælast til, að hv. d. felli brtt. á þskj. 171.