23.03.1931
Efri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (991)

17. mál, brúargerðir

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég tel sjálfsagt, að n. athugi þau atriði, sem hv. 1. landsk. minntist á.

Hvað viðvíkur brú á Andakílsá, þá er ekki von til, að hún verði talin með öðrum en brúm á sýsluvegum. Og þar sem ekki hefir verið ennþá fastákveðið, hvar skuli leggja veginn, og brúin getur ekki orðið mjög dýr, þá getur ekki verið ástæða til þess að taka brú á Andakílsá í A-flokk 3. lið frv.

Meiri ástæða væri til þess að taka Grjóta á Öxnadalsheiði með, en vegamálastjóri hefir ekki enn rannsakað það mál til fulls, og er sú á því ekki tekin með í frv., þótt hún sé á fjölfarinni leið.

Þá er ég kominn að Hvítá hjá Hvítárvatni. Er mér viðkvæmt mál að mæla á móti því, að hún verði brúuð, en ég held, að það sé hál leið að fara að byggja brýr uppi í óbyggðum, meðan svo mikil þörf er á brúm niðri í byggðum. Þessi brú mundi aðallega verða fyrir skemmtiferðafólk. Mætti þá alveg eins brúa aðrar ár á fjöllum uppi, t. d. Norðlingafljót, sem mætti brúa án mikils tilkostnaðar, og svo er víðar. Auðvitað geri ég ráð fyrir, að slíkar brýr yrðu byggðar í framtíðinni, en ég álít, að enn sé ekki kominn tími til að taka þær í brúalög. Síðar verða auðvitað sett ný brúalög, og má þá taka í þau slíkar brýr, og verður þess vonandi ekki langt að bíða.