11.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (1038)

91. mál, útvarp talskeyta

Frsm. (Bergur Jónsson):

Samgmn. hefir orðið sammála um það, að talsverð nauðsyn sé á því að fá aftur komið á talskeytasambandi til afskekktra staða á landinu, svo og til skipa. Flm. till. á þskj. 91 tók fram í ræðu sinni við fyrri hl. þessarar umr., að sumir útvarpsnotendur í afskekktum héruðum hefðu fengið sér tæki í þeim tilgangi að fá notið skeytasambandsins. Það er víst, að yfirleitt eru það óskir manna í hinum afskekktari héruðum að fá þetta samband aftur.

Þess er getið í grg. till., að 2 hreppar séu talsímasambandslausir. Ég býst við, að þar sé átt við hreppa í Norður-Ísafjarðarsýslu, en svo er einnig ástatt víðar. Í Barðastrandarsýslu eru t. d. 3 hreppar alveg talsímasambandslausir. Einn hefir ekkert samband, annar eingöngu loftskeytasamband á einum stað í hreppnum, og sá þriðji aðeins talsíma í öðrum enda hreppsins. Með tilliti til þessarar nauðsynjar leggur n. til, að till. verði samþ. með nokkrum breyt., sem gerð er grein fyrir á þskj. 253. Aðalbreytingin, sem þar er gerð, er sú, að í stað þess að velja á milli útvarpsstöðvarinnar og loftskeytastöðvarinnar er gert ráð fyrir að nota loftskeytastöðina eingöngu. Í þessum efnum hefir n. farið að ráðum Gunnlaugs Briems verkfræðings. Hefir hann talið allmarga og mikla annmarka á því, að hægt sé að nota útvarpsstöðina. Fyrst og fremst verði rekstrarkostnaður óhæfilega mikill; telur jafnvel, að kostnaður við hvert talskeyti yrði 40 sinnum meiri hjá útvarpsstöðinni heldur en loftskeytastöðinni. Það er heldur ekki heppilegt, að talskeytin berist svo víða, sem þau mundu gera, ef þeim væri útvarpað frá útvarpsstöðinni, og gæti það haft leiðinlegar afleiðingar, óþarft umtal og gróusögur. Í öðru lagi gæti það tekið svo langan tíma frá dagskránni, að útvarpsnotendur yrðu óánægðir, og loks telur hann ekki rétt að nota það öldusvið, sem útvarpsstöðin hefir, en því er ekki unnt að breyta. Hinsvegar gæti loftskeytastöðin vel annazt það. En það þarf að auka og bæta tóngæði hennar og magn, en til þess er talið nægilegt að kaupa magnara, sem kostar um 800 kr. Það er mjög æskilegt, að í þetta verði ráðizt, því eins og sakir standa nú heyrist illa til loftskeytastöðvarinnar, sérstaklega í fjarlægum héruðum. Verkfræðingurinn hefir bent á aðra lausn, sem sé að nota stuttbylgjustöð, og telur hann það hið rétta framtíðarskipulag, en til þess þarf nauðsynlegan undirbúning og rannsókn, og þangað til verður að nota loftskeytastöðina með þessum endurbótum. Álits landssímastjórans hefir verið leitað, og er hann sammála verkfræðingnu.m um það, að gjöldin þurfi að vera hærri en fyrir almenn símskeyti, en ég álít, að það megi ekki fara of langt í því efni, þar sem fátækt fólk á í hlut. Væri sennilega réttast að hafa sama gjald og fyrir skipaskeyti.

Þá er talið nauðsynlegt að hindra misnotkun á skeytunum. Hennar varð vart á ýmsan hátt. Þau voru notuð til rukkana, en það er afaróviðkunnanlegt að innheimtukröfum sé útvarpað. Sömuleiðis voru þau notuð í auglýsingaskyni. Einnig var sent pólitískt, hlutdrægt fréttaskeyti. Það er því nauðsynlegt, að haft sé eftirlit með skeytunum, bæði til þess að hindra, að þau komi í bága við almennt velsæmi og að send séu ónauðsynleg skeyti og til staða, sem engin þörf er á að fá slík skeyti. Það er því gert ráð fyrir, að landssímastjórinn hafi heimild til að ákveða, til hvaða staða megi senda skeytin. En taka þyrfti þá tillit til símabilana og leyfa skeytasendingar til talsímasambandsstaða, þegar þannig stæði á.