11.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (1040)

91. mál, útvarp talskeyta

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefði náttúrlega heldur kosið, að útvarpsstöðin hefði útvarpað þessum skeytum, en eftir áliti verkfræðingsins getur það ekki komið til mála. Hinsvegar er svo lítill kostnaður við það að gera loftskeytastöðina svo úr garði, að hún geti útvarpað skeytunum, að ég sé ekki, að það þurfi að standa í vegi. Kostnaðurinn við að koma upp lítilli stuttbylgjustöð mundi ekki verða meiri en 1500–2000 kr., en það er afarnauðsynlegt að útvarpa þessum skeytum vegna fiskiflotans og þeirra, sem eru talsímalausir. Það virðist ekki hafa mikið fylgi í þinginu, að útvarpsstöðin annist þetta, en ég sé enga ástæðu til að hindra það, að loftskeytastöðin verði gerð svo úr garði, að hún geti framkvæmt þetta.