20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (1094)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Það mun öllum vera í fersku minni, að stjórn sú, sem nú situr að völdum, gaf sjálf þær skýringar á ástæðum fyrir þingrofinu 14. apríl síðastl., að það hafi verið framkvæmt til þess að tefja fyrir breytingum á kjördæmaskipuninni eða breytingum á tilhögun alþingiskosninga. Það er öllum kunnugt, að þetta er sú skýring, sem hæstv. stj. gaf sjálf um þetta tiltæki sitt. Nú var það í sjálfu sér, sem betur fer, alveg óvenjulegt í þingfrjálsu ríki, að stj. skyldi grípa til þess að fótum troða þingræðið, brjóta stjórnarskrána og gera beina byltingu, til þess að tefja fyrir máli, sem ekki var komið á dagskrá, hvorki hjá þinginu eða þjóðinni, en aðeins komin fram á þingi nokkur merki þess, að málið myndi verða tekið á dagskrá. Það hefir aldrei, heyrzt, að harðvítugri mótstaða hafi nokkru máli verið sýnd en sú, sem hæstv. stj. sjálf tjáði sig hafa sýnt þessu máli með þingrofinu 14. apríl síðastl.

Það liggur í augum uppi, að tilhögun alþingiskosninga er nú orðin svo óhentug hér á landi, að við það er ekki lengur unandi, þar sem það er bert, að meiri hluta þjóðarinnar er aldrei tryggt það, að þingið sé skipað eftir vilja hans. Þá er burt numin sú grundvallarhugsun, sem skipun Alþingis byggist á, að þingið verði eins og nokkurskonar smækkuð útgáfa af þjóðinni sjálfri og að vilji kjósendanna komi rétt fram í vilja þingsins. Eins og kunnugt er, var í brtt. hér í deildinni við stjfrv það, sem hæstv. stjórn bar fram á síðasta þingi, aðeins brotið upp á að útvega heimild til þess að taka þetta mál upp, að rýmka þann grundvöll, sem núv. stjskr. markar fyrir tilhögun alþingiskosninga, áður en málið sjálft yrði tekið upp, til þess að hafa frjálsar hendur um það, hvaða leiðir yrðu valdar til þess að fullnægja sjálfum kröfunum um þetta, að þingið verði réttur spegill af þjóðinni sjálfri. Á móti þessari — ég vil ekki segja réttlætiskröfu, því hún var aldrei borin fram —, en móti þessari viðleitni til þess að undirbúa grundvöll fyrir því, að unnt verði að hafa nokkurnveginn tillögufrelsi og ákvörðunarfrelsi um það, hvernig réttlæti í þessu efni yrði fullnægt, reis hæstv. stjórn. Á móti þessu reisti hæstv. stj. harðvítuga mótstöðu, svo harðvítuga, að gripið var til ráða, sem ég veit ekki til, að gripið hafi verið til nokkursstaðar í heiminum, nema á byltingatímum. Ég hefi ekki heyrt dæmi þess, að valdhafi hafi staðið upp og vísað þm. heim, nema þegar verið var að framkvæma byltingu Nú mætti þykja mikil býsn, ef manni væri sagt það, að sama stj., sem þóttist þurfa að grípa til svona harðvítugra og óvenjulegra ráða til að tefja fyrir umbótamáli, að hún hafi síðan á 3 mánuðum sannfærzt svo um nauðsyn þessa máls, að hún ber nú sjálf fram till. um að taka málið upp. En þessi undur hafa nú gerzt, og ég get ekki varizt þeirri hugsun, að það hafi verið lítil þörf á því, jafnvel frá sjónarmiði stj., að grípa til stjórnarskrárbrota til þess að tefja fyrir máli, sem hún finnur sig skylda til að bera fram 3 mán. síðar. Með þessari till., sem liggur fyrir, blæs stj. til undanhalds í baráttu sinni móti réttlætiskröfunni. Í sjálfu sér er ekki nema gott um það að segja að blása til undanhalds í þessari ranglátu baráttu, ef þetta merki er þá nokkuð annað en herbragð. Því það þekkist líka, að að blása til undanhalds er notað sem herbragð, og þess eru dæmi úr veraldarsögunni, að sigur hefir fengizt með því að nota þetta herbragð. En nú gaf hæstv. ráðh. ekki mikið tilefni til þess í framsöguræðu sinni, að dómur yrði lagður á, hvort hér væri um alvarlega iðrun og yfirbót að ræða eða herbragð til þess að útvega sér stundarfrið í þeirri vopnahríð, sem nú stendur á stjórnina. Hæstv. ráðh. sagði þó eitt, sem því miður gefur bendingu um það, að hér sé ekki full einlægni á bak við. Hann sagðist ekki búast við samkomulagi um málið sjálft. Menn ættu að geta komið sér saman um að afla sér upplýsinga í nefndinni, bæði um athugun inn á við, auðvitað um það, hversu ófullkomin sú tilhögun er orðin, sem við eigum nú við að búa, og svo með að útvega upplýsingar út í frá, hvernig aðrir hefðu ráðið fram úr svipuðum vandamálum. Um þetta bjóst hæstv. ráðh. við, að yrði gott samkomulag, en svo sagði hann, að leiðir mundu skiljast, þegar til ákvarðana kæmi um það, hvað gera ætti. Nú hefir af hálfu Sjálfstæðisflokksins ekki verið borið neitt fram í þessu máli eða annars krafizt en þess réttlætis, að þingið yrði rétt mynd af vilja þjóðarinnar. Þegar hæstv. ráðh. þess vegna lýsir því yfir, að leiðir muni skiljast, þegar til ákvörðunar kemur, þá getur það ekki skilizt öðruvísi en svo, eða það liggur nærri að skilja það svo, að hann og hans flokkur með þessum ummælum taki afstöðu móti þeim kröfum um réttláta skipun þingsins, sem Sjálfstæðisflokkurinn ber fram. Ég veit ekki, hvað annað gæti fyrirfram réttlætt fullyrðingar um það, að leiðir hljóti að skiljast, þegar til ákvörðunar kemur. Þó að það liggi mjög nærri að skoða þessi ummæli sem vitnisburð um óheilindi í þessu máli frá sjónarmiði þeirra, sem vilja halda fast við hina sjálfsögðu réttlætiskröfu, þá er ekki ástæða til á þessu stigi málsins að taka þáltill. neitt illa, því eins og það hefir sýnt sig, að hæstv. stj. óskar þó a. m. k. stundarfriðar í baráttu sinni gegn réttlætinu, þá gæti þó hæglega svo farið, að jafnvel þó að hún sé ekki ennþá við því búin að leggja niður vopnin í þeirri baráttu, þá getur það unnizt á ennþá, þó að hæstv. forsrh. gefi frekar ástæðu til þess að ætla, að hann sé ekki ennþá tilbúinn til þess að leggja niður vopnin í þeirri baráttu.

Ég verð þó, áður en ég tek endanlega afstöðu til þessarar tillögu, að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort það megi byggja á því, að til þess verði ætlazt, að mþn. sú, sem hér er stungið upp á, skili áliti sínu og tillögum í tíma fyrir næsta þing. Að til þessa sé ætlazt, tel ég óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að menn sætti sig við þá bið á málinu, sem skipun mþn. hefir í för með sér. Það virðist nægilegur tími til næsta þings að íhuga og útbúa till. um þetta mál, sem er að vísu ákaflega mikilsvarðandi, en hinsvegar ekki að sama skapi flókið. Það virðist mjög auðvelt að fá upplýsingar um þær úrlausnarleiðir, sem menn hafa fundið annarsstaðar, og enginn þarfi að láta það taka marga mánuði eða lengri tíma en til næsta þings.

Ég vonast eftir, að hæstv. ráðh. svari þessari spurningu skýrt og greinilega, og ég skal geta þess, að ef svar hans verður á þá leið, að Sjálfstæðisflokkurinn sjái sér fært að ganga að þessari till., þá mun ég leggja til, að kosin verði sérstök nefnd til að íhuga þetta mál, og mun ég svo leyfa mér að leggja til, að til þeirrar n. verði vísað frv. um breyt. á stjskr., sem hér mun bráðlega verða borið fram. Það frv. er svo náskylt þessari till. að því leyti, að stjórnarskrárfrv. fer inn á hið sama svið sem þessi þáltill., að það virðist rétt, að málin fari bæði til sömu n. Það er hvort sem er órofin regla, að kosin sé sérstök n. til þess að fjalla um frv. til stjórnskipunarlaga, þegar þau hafa komið fram, og tel ég sjálfsagt, að svo verði einnig nú.