08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (1152)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Mér þykir rétt að taka það fram, út af ummælum hæstv. forsrh., að það er auðvitað ekki hægt á þessu þingi að taka fullnaðarákvörðun um breytingar á kjördæmaskipuninni, því að á undan slíkum ákvörðunum verður að ganga rýmkun á þeim atriðum stjórnarskrárinnar; sem um þessi mál fjalla.

Það, sem hæstv. forsrh. sagði um, að samkomulag hefði náðst, var mjög villandi. Það rétta er, að ekkert samkomulag hefir náðst um frestun þessa máls, en það er vitanlegt, að tvö þing þarf til þess að samþ. stjórnarskrárbreytingu svo hún verði að lögum. Þess vegna verður ekki tekin endanleg ákvörðun um kjördæmaskipunarmálið, en ekkert er því til fyrirstöðu, að þetta þing, sem nú situr, stígi fyrra skrefið og samþykki stjórnarskrárbreytingu, sem svo komi til endanlegrar samþykktar á næsta þingi ásamt tillögum milliþinganefndar um breytta tilhögun alþingiskosninga.