11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (1163)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. komst áðan í mikinn vígaham og bar fram margar fyrirspurnir til mín, og ætlaðist auðsjáanlega til þess, að ég svaraði þeim öðruvísi heldur en hann gerir þegar við jafnaðarmenn erum að spyrja hann um hina væntanlegu stjórn: „Það verður tilkynnt síðar“ er þá sífellt viðkvæðið hjá hæstv. forsrh. Ég ætla nú að fylgja dæmi hæstv. ráðh. og svara fyrirspurn hans um það, hvort við Alþýðuflokksmenn tökum þátt í nefndarstörfum með því einu: Það verður tilkynnt síðar. Vona ég, að hæstv. ráðh. mislíki það ekki á neinn hátt, þar sem fordæmið mun ekki valið af verri endanum, að hans áliti.

Hæstv. forsrh. talaði ennfremur um kjördæmaskipunarmálið almennt og sagði, að Alþýðuflokkurinn mundi ekki græða á því, að breytt yrði kjördæmaskipuninni. Nú, ef við athugum kjósendatölu og þingmannatölu hvers flokks, þá hefir Framsókn 36% af kjósendum, en meiri hluta Alþingis. Alþýðuflokkurinn hefir, að mig minnir, 16 eða 17% af kjósendum, en hefir 4 þm. Hann ætti að hafa miklu fleiri þm. Þetta er ekki annað en einfalt reikningsdæmi, að þm. hans myndi fjölga, ef farið væri eftir tillögu minni, sem hér var við fyrri umr.

Ég þarf nú ekki að svara hæstv. forsrh. meiru. Hann var að ógna mér með því, að ég þyrði ekki að segja til um, hvort Alþýðuflokkurinn ætlaði að taka þátt í þessari nefndarskipun. Ég hirði nú ekki um það, en skal muna að svara hæstv. forsrh. á sömu lund næst þegar við erum að spyrja hann um stjórnarmyndunina.

Þá skal ég taka næst hv. 1. landsk., sem kom meira inn á efni þessa máls heldur en hv. 1. þm. Reykv., sem hélt sig meira í kantinum á málinu, eins og hann er vanur. Mig langar til að spyrja hv. 1. landsk., hvernig sé hægt að knýja Framsóknarflokkinn til að samþ. breyt. á kjördæmaskipuninni, aðeins með því að fá skipaða mþn. í málið. Ég sé ekki, hvaða árangur yrði af því, þó n. skilaði nú áliti. Nei, það er engin leið til þess að knýja Framsóknarflokkinn til að samþ. neitt í kjördæmamálinu. Hann gerir ekki neitt í málinu, nema andstæðingarnir heiti hann harðneskju. Og það var alvarlegt mál fyrir Framsóknarfl., ef hann fékk ekki tekjur af verðtollinum Það hefði leitt til þess, að hæstv. stj. hefði orðið að leita til þjóðarinnar, orðið að láta fara fram nýjar kosningar. Og það var alveg óhætt, því það hefðu ekki getað orðið neinar breytingar á Alþingi Framsókn í vil. Því jafnvel þó sjálfstæðismenn hefðu tapað þeim tveim þingsætum, sem tæpast stóðu hjá þeim, og Framsóknarflokkurinn fengið þau, þá gátu þeir ekki skipað Alþingi svo, að þeir gætu komið fram málum sínum, ef andstæðingarnir voru á móti þeim. Þetta veit hv. 1. landsk. vel, og þetta veit hv. 1. þm. Reykv. vel.

Hv. 1. landsk. lýsti yfir, að hann álítur, að hann hafi gert rétt í þessu máli með atkvgr. sinni á laugardaginn, þegar hann óbeinlínis varð til að fella till. mína, sem lagði grundvöllinn að starfi n. En það má geta þess til samanburðar, að flokksmenn hv. 1. landsk. greiddu allir atkv. með till. minni, og þ. á m. hv. 1. þm. Reykv., sem var að senda mér hnútur út af þessu; þeir líta því öðruvísi á það en hv. 1. landsk., hvað rétt væri í þessu máli. En hv. 1. landsk. segist hafa gert rétt, og svo kemur hv. 3. landsk. og segir líka, að hv. 1. landsk. hafi gert rétt. Ég verð að skoða það sem sönnun fyrir því, að hv. 1. landsk. hafi gert rangt. Þegar hv. 3. landsk., sem eins og kunnugt er, er þröngsýnastur allra manna í sínum flokki og mestur afturhaldsmaður, og ekki sízt í þessu máli, þegar hann kemur og segir, að hv. 1. landsk. hafi gert rétt, þá er það mér sönnun þess, að hv. 1. landsk. sé á rangri hillu í þessu máli.

Hv. 1. landsk. og hv. l. þm. Reykv. hafa verið að tala um, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði nú forustu í kjördæmaskipunarmálinu. Sú forusta er nú, eins og ég hefi lýst, þannig, að þeir hafa gert framsóknarstj. mögulegt að halda áfram stj.störfum, með því að fá henni svo ríflegar tekjur, að hún þarf engu að kvíða. Í öðru lagi hafa þessir flokkar orðið sammála um að afgr. fjárl. í Nd. á þann hátt, að skera niður mestallar verklegar framkvæmdir, því maður getur ekki séð á atkvgr. og umr. um fjárl. í Nd., að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi verið þar á öndverðum meið. (Forseti: Fer nú ekki aths. að vera langt komið?). Ég á töluvert eftir af aths. enn, og ég veit, að hæstv. forseti verður rýmilegur við mig, eins og hann er vanur að vera í þessari hv. d. (Forseti: Ég kann illa við, að aths. verði lengri en ræðan).

En þá vil ég sýna fram á það, að það er hv. l. landsk. og forusta hans í kjördæmaskipunarmálinu, sem er ekki heil. Eitt dæmið af þeim, sem leiða má til vitnis um það, er frá árinu 1930. Þá kom fram þáltill. frá okkur jafnaðarmönnum, að mig minnir í Nd. Alþ., fremur en í Sþ., þar sem við fórum fram á að skipa nefnd til að athuga og koma fram með tillögur í kjördæmaskipunarmálinu, og aðalandstaðan gegn því kom þá einmitt frá hv. 1. landsk. Hann segir á bls. 303 (Alþt. 1930, D.), með leyfi hæstv. forseta: „En að því er snertir till. á þskj. 468, þá er hún ákaflega einstrengingslega orðuð. Það er allhörð krafa, þetta, að kjördæmaskipunin skuli tryggja kjósendum jafnan rétt, hvar sem þeir búa. Í raun og veru er ekki hægt til fulls að fullnægja þeirri kröfu, nema með fyrstu aðferðinni, sem hv. flm. nefndi, að þm. séu allir kosnir á sama hátt og landsk. þm. eru nú, með hlutfallskosningum í einu lagi fyrir land allt. Það mun vera stefnuskráratriði Alþýðuflokksins. En það er alls ekki svo, að þetta, að allir kjósendur hafi jöfn áhrif á skipun Alþingis, sé eina atriðið, sem horfa þarf á í þessu máli. Við verðum líka vissulega að horfa á hitt atriðið, að fámennum, afskekktum landshlutum er líka nauðsynlegt að eiga á þingi fulltrúa, sem er kunnugur þeirra hagsmunum og staðháttum og getur beitt sér fyrir þeirra málum.

Þetta er atriði, sem taka verður til greina, þegar kjördæmaskipunin er endurskoðuð, en þáltill. gengur alveg framhjá því“.

Ja, ég veit nú ekki, hver lagt hefir rökin upp í hendur Framsóknarflokksins á þingi, ef það er ekki hv. 1. landsk. með þessari ræðu í kjördæmaskipunarmálinu. Ég álít rétt, að það komi fram hér í hv. d., hver afstaða hans í þessu máli hefir verið, og það er ekki líklegt, að hann sé búinn að taka forustuna í þessu máli, enda sveigði hann til við Framsókn í því á laugardaginn, og hann stóð þar fyrir aftan sína flokksmenn, sem allir greiddu atkv. með till. minni.

Það er auðvitað vitleysa hjá hv. 1. þm. Reykv., að við Alþýðuflokksmenn höfum brigðað nokkuð í þessu máli. Hann nefndi það, að við hefðum ekki viljað skipa Ed. þannig, að hægt væri að samþ. með atkv. Alþýðuflokksmanna og sjálfstæðismanna stjórnarskrárbreytingu. En hv. þm. veit vel, að Alþýðuflokkurinn hafði ekki atkvæðamagn til þess að koma manni upp í Ed. Til þess þurfti hann að hafa minnst 5 atkv.

Ég þarf engu að svara hv. þm. (JakM) út af því, sem hann sagði, að Alþýðuflokkurinn væri að búa sig undir að komast í hagsmunaaðstöðu við Framsóknarflokkinn og styðja hann. Ég þarf ekki annað en benda á atkvgr. á þinginu, til að svona, hverjir standa nær því að styðja hann. Það er hv. 1. þm. Reykv. og hans flokkur í Ed. og í Nd. Ég þarf ekki annað en nefna verðtollinn. Þeir höfðu fyrirfram vitað það, að Alþýðuflokkurinn ætlaði að greiða atkv. á móti honum, og þó greiddu þeir atkv. með honum, þrátt fyrir það, að þeir voru búnir að gefa það út við hina og aðra menn úti um allan bæ, að þeir ætluðu að hrinda verðtollsfrv. Og hvernig var svo með fjárl., sem þeir voru búnir að geipa með úti um allan bæ, að þeir ætluðu að fella. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkv. með Framsóknarflokknum. Það hafði nú ekki þýðingu í Nd. En hvað gera þeir í Ed.? Við sjáum nú til. Við Alþýðuflokksmennirnir lýstum því yfir í Nd., að við myndum ekki greiða atkv. með fjárl. eins og þau voru úr garði gerð, og ég get lýst því yfir hér, að ég mun ekki greiða atkv. með þeim hér, þó þau tækju einhverjum smávegis breyt. Ég get gjarnan látið þessa hv. þm. vita þetta fyrirfram. Þeir nota það kannske sem grundvöll til samninga við Framsókn, eins og þeir gerðu með verðtollinn. Það getur vel verið. En það er þá gott, að það komi fram, svo að þeir geti þá notað þá aðstöðu. Og ég vona, að þeir noti hana þá betur til gagns og gengis fyrir kjördæmaskipunarmálið en þeir gerðu í verðtollsmálinu.