14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1179)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Héðinn Valdimarsson:

Ég skil ekkert í því, hvernig mönnum getur dottið í hug að halda því fram, að ekki hafi verið kosið um kjördæmaskipunina, þar sem hæstv. forsrh. hefir hrópað upp um það á fundum, að þingið hafi verið rofið til þess að láta fara fram tvisvar kosningar um þetta mál. Og eftir því, sem ég hefi frétt af hv. 2. þm. Rang. í kosningabaráttunni eystra, þá gekk hann berserksgang móti endurbótum á kjördæmaskipuninni.

Hæstv. forsrh. talaði um þessa kjördæmaskipun. Hvaða kjördæmaskipun? (MG: Já, hvaða?). Þá, að grundvöllurinn sé sá, að hver flokkur hafi þm. eftir atkvæðamagni. Það er auðvitað hægt að hugsa sér þetta framkvæmt á ýmsan hátt. En um þessa kjördæmaskipun er það að segja, að ég hygg, að fáir andstæðingar ríkisstj. hafi verið á móti henni.

Hæstv. forsrh. talaði um kommúnista. Ég er nú ekki málsvari þeirra, en ég hygg, að þeir fylgi yfirleitt, þar sem þeir hafa ekki völdin, jöfnum atkvæðisrétti. Í löndum, sem þeir hafa sigrað í með byltingu, er þetta auðvitað takmarkað, þannig að þeim er haldið niðri, sem eru á móti skipulaginu. Ég held, að það sé, óhætt að segja, að kommúnistar hér hafi greitt atkv. á móti ríkisstj. í kjördæmaskipunarmálinu. En þar, sem þeir eru alvaldir, hafa þeir takmarkaðan kosningarrétt eins og Framsókn, og það er víst af því, að Framsókn hefir veitzt auðvelt að fá kommúnista yfir til sín, eins og hv. 2. þm. Rang. En um nefndarskipunina er það að segja, að hún er aðeins til að tefja málið. Og það er alls ekki ákveðið, hvenær n. eigi að skila áliti sínu, þó að sagt sé í till., að þess sé vænzt, að hún skili áliti sínu fyrir næsta reglulegt þing. Síðari málsgr. er mjög hagkvæm og ekki víst, að nefndarmennirnir sjái ástæðu til að flýta málinu, þar sem kostnaðurinn er greiddur úr ríkissjóði.

En þetta er ekki meira mál en svo, að menn ættu að geta áttað sig á því á einu þingi, þar sem allir andstæðingar stj. eru ákveðnir í því, hvaða grundvallarreglu eigi að fylgja. Það er auðvitað meginatriðið, en hitt aukaatriði, hvernig það verður framkvæmt. Það hefir nú sézt, hversu Sjálfstæðisflokknum er annt um þetta mál, þar sem hv. 1. landsk. hafði tækifæri til að samþykkja grundvallarregluna, en notaði sér það, að hann greiddi síðastur atkv., og felldi till. En því ekki að láta skríða til skarar á þinginu og láta flokkana játa, hvort þeir fylgja lýðræði eða ekki, og skera úr um það, hvort þeir eru fylgjandi grundvallarreglunni eða ekki? En ég hefi litla trú á því, að n. geri nokkuð verulegt í málinu.