14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (1181)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla að leyfa mér að minna á það, að ekki einungis Sjálfstæðis- og Alþýðuflokkurinn hefir látið í ljós vilja til þess að breyta kjördæmaskipuninni, heldur einnig Framsóknarfl. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í útvarpsumr. í vor, og ég veit, að bæði hv. þm. V.-Ísf. og hv. 1. þm. Eyf. hafa látið það sama uppi. Það lítur því svo út, sem allir flokkar séu sammála um, að breytingu þurfi að gera á þessu sviði. Enn hafa ekki komið fram till. frá öllum þessum flokkum um það, hvernig þeir hugsi sér þessa breytingu, og vildum við sjálfstæðismenn ekki setja okkur á móti því, að málinu væri frestað þar til Framsóknarfl. hefir gert sínar till., fyrst hann vill gera það fyrir næsta þing. Og það er í trausti þess, að Framsókn hafi eitthvað meint með yfirlýsingum sínum, að ég fellst á það að setja málið í milliþinganefnd.

Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um, að hægt hefði verið að taka málið upp á þessu þingi, en álít, að aðalatriðið sé ekki, hvort þessar breytingar verði samþ. nú eða eftir nokkra mánuði.

Hæstv. forsrh. hafði það eftir mér frá fundum norður í Skagafirði, að ég hefði þar sagzt geta sætt mig við hlutfallskosningar í stórum kjördæmum. Það er satt; ég get sætt mig við ýmsar lausnir í þessu máli, aðeins ef þeirri grundvallarreglu er fylgt, að flokkarnir fái þingmannatölu í réttu hlutfalli við kjósendatölu sína.

Ég vil taka undir það með hv. 4. þm. Reykv., að mér kemur það undarlega fyrir sjónir, er því nú er haldið fram, að ekki hafi verið kosið um kjördæmaskipunarmálið í vor. Hæstv. forsrh. fór nokkuð um sveitirnar fyrir kosningarnar, og minntist þá, a. m. k. í Skagafirði, alls ekki á annað mál. Aðalefni ræðna hans var oftast nær á þessa leið: Þið getið skammað stj. eins og ykkur sýnist, en þingið var rofið til þess að verjast ágangi þm. jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokksins, þar sem þeir ætluðu í einu vetfangi að hrifsa öll pólitísk völd úr höndum sveitanna. — Þar við bætti hann svo kynsjúkdómaklausu, til þess að sýna fram á spillingu bæjanna, sem nú ættu að fara að ráða öllu í íslenzku þjóðlífi.

Og nú koma þessir sömu menn og segja, að ekki hafi verið kosið um kjördæmaskipunina. Ég man eftir því, að á fundum norður í Skagafirði komu framsóknarmenn með þá frétt, að hv. 4. þm. Reykv. hefði sagt það á fundi í Rvík, að samkomulag hefði náðst um, að Rvík ætti að fá 11 þm. Þetta átti að vera alveg fastmælum bundið, en þegar ég spurði hv. 4. þm. Reykv. um þetta síðar, kom í ljós, að enginn fótur var fyrir þessu. Svo mikið þótti við þurfa, að slík lygaskeyti sem þetta hafa verið send um allt land, og samt segja framsóknarmenn nú, að ekki hafi verið kosið um þetta mál.

Ég kæri mig ekki um að deila mikið við hv. 3. þm. Reykv., aðeins benda honum á, að þegar svo er tekið til orða, að þingið vonist til, að n. skili störfum fyrir einhvern ákveðinn tíma, er ætlazt til þess, að hún geri það.

Ég vil ekki að óreyndu slá því fram, að jafnaðarmenn muni svíkja í þessu máli. Og ég vonast líka til, að Framsóknarflokkurinn sviki ekki heldur loforð sín um breytingar á kjördæmaskipuninni.