14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (1185)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Ólafsson:

Hv. samþm. minn sagði nokkur orð, sem ég vil ekki játa fara athugasemdalaus framhjá mér. Ég er ánægður með, að þetta mál er komið í þann farveg, sem það nú er í, sem sé milliþinganefnd. Sókn sú, sem var á hendur sjálfstæðismanna um síðustu kosningar, hafði áhrif af því einu, að málið var ekki nægilega upplýst og undirbúið til þess að kjósendur gætu yfirleitt áttað sig á því. Enda tók stjórnarliðið upp þann hátt, að síma lygafregnir um land allt, þess efnis, að við ætluðum að setja 11 þm. fyrir Reykjavík. Þetta óttuðust kjósendur, og missti bæði ég og fjöldi annara frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins ótal atkvæði á þessu. Það er því heimska tóm að halda því fram, að ekki hafi verið barizt um þetta mál við kosningarnar í vor. Sannleikurinn er sá, að það var barizt svo hart um það, að ég efast stórlega um, að nokkurntíma verði barizt eins hart um það hér eftir. — Menn botnuðu yfirleitt ekkert í þessu máli. Ég fann strax, þegar ég kom út í sveitirnar, hvernig hræðslan við þessa 11 þm. fyrir Reykjavík, hræðslan við Reykjavíkurvaldið greip um sig.

Það er svo víða um land, að þroski bændastéttarinnar er ekki meiri en svo, að hún hatar kaupstaðina, sér í lagi Reykjavík. Þar sem ég komst í námunda við þetta undarlega fyrirbrigði, spurði ég menn, hvaða ástæðu þeir gætu fært þessu til málsbóta. En það fór alltaf á sömu leið. Þeir gátu ekki bent á neitt, sem Reykjavík hefði gert þjóðfélaginu til skaða. Ég er þess fullviss, að t. d. í Rangárvallasýslu hefðu Sjálfstæðismenn fengið miklu fleiri atkv. en raun varð á, ef þetta mál hefði legið fyrir þaulrannsakað og almenningur verið búinn að átta sig á, hvað hér var um að ræða.

Utanflokkamaðurinn, sem bauð sig fram í Rangárvallasýslu, lýsti því oft yfir, að hann mundi fylgja réttlátri kjördæmaskipun, og ég lýsti því alstaðar hreinskilnislega yfir, að ég mundi beita mér fyrir réttlátri kjördæmaskipun. Þetta vona ég, að hv. samþm. minn geti borið með mér. En ég sagði eins og satt var, að hér lægi ekki fyrir nein fullnaðaratkvæðagreiðsla um það mál, þar sem mikið vantaði á, að það væri rannsakað til hlítar. Víðsvegar um land hefir mótspyrna við þessar sjálfsögðu breyt. verið því einu að kenna, að menn hafa ekki verið búnir að átta sig á því; einmitt þess vegna hefi ég svo góða trú á störf mþn. og áhrif þau, er af þeim kann að leiða. Þá fyrst er kominn grundvöllur, sem þjóðin getur byggt skoðanir sínar um þetta mál á. Réttlætiskrafan í þessu máli er svo mikil, að ég efast ekki um, að það sigri um síðir, en það gilda um þetta mál sömu reglur og um annað, að ofstopi og ofstæki leggur frekar stein í götu þess en það hjálpi því fram. Ég ætla að lokum að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það var barizt um kjördæmaskipunina núna við kosningarnar, barizt svo hart, að ég býst ekki við, að baráttan um það mál verði nokkurntíma harðari.