04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á einn eða með öðrum hv þdm. brtt., sem ég þarf að gera lítillega grein fyrir. Ég ætla þá fyrst að minnast á brtt. á þskj. 183, XXXVIII. Mitt hlutskipti verður hér að vera einn meðal þeirra manna, sem hneykslunum valda. Ég ber þar á bænarörmum fátækan og umkomulausan listamann, Ásgeir Bjarnþórsson að nafni. Hann hefir brotizt áfram gegnum erfiðleika og fjárhagsvandræði með lítilfjörlegum styrk aðstandenda sinna. En fyrir hæfileika sína og trú sína á þeim hæfileikum og skilning annara manna á þeim, hefir hann hlotið viðurkenningu þeirra, sem honum hafa kynnzt. En mér vitanlega hefir hann ekki orðið neins opinbers styrks aðnjótandi, eins og flestir aðrir, sem á undan honum hafa gengið þessa braut og samtímis. — Það liggja fyrir tvær beiðnir um styrk handa þessum manni. Önnur er frá honum sjálfum, um 2000 kr. styrk til Ítalíuferðar, til að ná þar frekari fullkomnun í list sinni, og einnig til heilsubótar. Hann varð fyrir þeirri raun að veikjast af berklum. Hann hefir að miklu yfirunnið þá, en þó ekki fullkomlega. Nú vill hann slá tvær flugur í einu höggi, fara sér til heilsubótar suður til Ítalíu og um leið að fullkomna sig í list sinni. Hin beiðnin er frá félagi íslenzkra listamanna og fer fram á 600 kr. Ég var svo hæverskur að taka lægri beiðnina. Ég veit, að einhver muni segja, að nóg sé annað við ríkissjóðinn að gera, en ég vona, að Alþ. verði ekki reiknað það til dómsáfellis, þótt það veiti þessa litlu upphæð til þessa manns, sem er einn í tölu þeirra, sem erfiðast eiga uppdráttar í þessu þjóðfélagi.

Þá á ég aðra tillögu á sama þskj., XLIV, og fer hún fram á 1500 kr. styrk til Hákonar Á. Bjarnasonar til lokanáms í skógrækt og sandgræðslu. Ég þykist ekki þurfa að fara mörgum orðum um þessa tillögu. Hákon hefir áður notið þessa sama styrks til að nema erlendis. Hann er stúdent frá 1926 og hefir síðan lagt stund á skógræki og sandgræðslu í Kaupmannahöfn og hefir nú lokið mjög góðu prófi. En nú á hann eftir að stunda verklegt nám eitt ár í Svíþjóð. Það nám er mjög dýrt. Verklegar æfingar eru langar, og til þess að geta stundað þær, þarf að kaupa aðstoð dýrum dómum. Það er óhugsandi, að hægt sé að ljúka náminu fyrir minna en 3000 kr. danskar. Á undanförnum árum hefir hann safnað miklum skuldum og myndi ekki hafa haldið áfram námi, hefði hann ekki borið það traust til Alþ., að það veiti þennan styrk eins og að undanförnu.

Ég þarf ekki að brýna það fyrir Alþ., hve mikið verkefni liggur hér fyrir þessum unga manni, þar sem sandgræðsla og skógrækt eru hér enn á byrjunarstigi. Því fé er vel varið, sem varið er til þessara mála, en engu þó betur en því, sem varið er til að fullkomna menn til að standa fyrir verkinu og sjá um, að það sé af viti gert. Ég legg því mikla áherzlu á, að Alþ. sjái sóma sinn í því að veita þennan styrk eins og það hefir áður gert, og einkum þar sem þetta er lokastyrkur.

Þá á ég einnig enn aðra brtt. með hv. þm. Borgf., en hann hefir talað svo vel fyrir henni, að ég þarf þar engu við að bæta. Vil aðeins mæla eindregið með því, að hv. þdm. taki henni vel.