21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

113. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Magnús Torfason) [óyfirl.]:

Frv. þetta er komið frá Nd. og hefir n. athugað það á þeim stutta tíma, sem hún hafði til þess. Breytingar frá því, sem stendur í l. frá 1929, eru einkum fólgnar í því, að tillag ríkissjóðs og sveitar- og bæjarsjóða á hvern íbúa er nú sett 2 kr. í stað einnar krónu áður, og ennfremur er breytt ákvæðum um ábyrgð á lánum til verkamannabústaða. Í lögunum frá 1929 er svo ákveðið, að ríkissjóður ábyrgist lánin jöfnum höndum við bæjarsjóði eða aðra sjóði, en hér er svo ákveðið, að ríkissjóður ábyrgist lánin að öllu leyti með bakábyrgð hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóðs. Er þetta gert með tilliti til væntanlegs ríkisveðbanka.

Breyting við 2. mgr. 3. gr. gengur í þá átt, að eftir gömlu lögunum mátti lána 85% af virðingarverði húsanna út á 1. veðrétt. Nú er svo ákveðið, að eigi megi lána nema 60% út á l. veðrétt, og er það í samræmi við lögin um ríkisveðbankann. En byggingarsjóður má hinsvegar veita lán gegn 2. veðrétti, er nemi allt að 25% af kostnaðarverði.

Þá eru og breytingar við 5. gr. Samkv. gömlu lögunum máttu þeir, sem orðið gátu aðnjótandi þeirra kjara, er lögin heimila, eigi hafa yfir 4000 kr. árstekjur. Þessu hefir nú verið breytt svo, að bætt er við 300 kr. fyrir hvern ómaga, þó svo, að tekjurnar mega ekki fara yfir 5500 kr. Með þessu er þeim fjölgað, sem notið geta laganna, og má telja það til bóta. Þá er einnig brtt. um að ný grein komi á eftir 5. gr., þar sem ákveðið er, að byggingarfélagi, sem kemur upp sambyggingum, sé heimilt að eiga til frambúðar sameiginlegt þvotta- og miðstöðvarhús fyrir margar íbúðir. Má og vafalaust telja þetta atriði til bóta.

Þetta eru aðalnýmælin, og má víst fremur telja þau til bóta. Aðalbreytingin er hækkun tillagsins. Hana má að sjálfsögðu virða á tvennan veg. Þau sveitar- og bæjarfélög, sem byggja eftir lögum þessum, byggja að sjálfsögðu meira sökum hins hækkaða tillags, en hinsvegar má búast við, að færri bæjar- og hreppsfélög komi upp byggingum með þessum hætti fyrir bragðið.