10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

66. mál, slysatryggingalög

Halldór Stefánsson:

Brtt. sú, sem ég ber fram á þskj. 242, þarf engrar skýringar. Hún þýðir aðeins það, að 1. öðlist gildi þegar þau hafa náð staðfestingu konungs.

Ég hefi ekki verulega ástæðu til að tala mikið um brtt. jafnaðarmanna, en vildi aðeins gera þá aths., að þetta kemur nokkuð seint fram til þess að líklegt sé, að það geti náð afgreiðslu á þessu þingi. Það er farið fram á stórkostlega hækkun, tvöfaldar dánarbætur og örkumlabætur, auk þess sem gert er ráð fyrir öðrum útgjaldaaukningum. Þetta mundi, eins og hv. flm. till. tók fram, hafa það í för með sér, að hækka yrði iðgjöldin stórkostlega. En það er aftur svo mikið atriði, að ég ímynda mér, að það vefjist fyrir mönnum, hvort fært sé að gera það, ekki sízt á þessum tímum, sem nú eru. Gæti þá líka komið til athugunar, hverjir ættu að greiða þessa hækkun, hvort ætti að leggja hana á atvinnurekendur eingöngu, eða þá e. t. v. að tryggðir sjálfir greiddu viðbótina.

Það má náttúrlega viðurkenna það, að þær slysabætur, sem greiddar eru, eru ekki líkt því fullar bætur fyrir tjón það, sem menn verða fyrir, hvort heldur vinnutjón, líftjón eða örorku. Þær hafa þó verið hækkaðar stórmikið frá því, sem upphaflega var ákveðið.

Það, sem mér þykir þó athugaverðast við þessa till., er ekki peningahliðin. En hún er svo seint fram komin og um svo mikilsvert atriði, að ég býst ekki við, að deildin þykist geta tekið afstöðu til hennar, nema málið færi til nýrrar athugunar í nefnd. Og það mundi leiða af sér svo mikinn drátt á málinu, að það gæti ekki náð afgreiðslu á þessu þingi. En í frv. felast mikilsverðar umbætur á ýmsu fyrirkomulagi og ákvörðunum tryggingarinnar, svo það er auðsær ávinningur, að þær umbætur geti fengið að njóta sín og koma í gildi fyrr heldur en síðar.

Það væri sýnu nær og betri tími til athugunar, ef þessi till. væri ekki tekin til yfirvegunar fyrr en á næsta þingi, sem ekki er langt að bíða, og breyt. eru ekki þannig, að þær komi inn á skipulag trygginganna, heldur snerta einungis bæturnar, og eru því í rauninni engin röskun á lögunum, þótt þær yrðu gerðar síðar.

Það, sem ég vildi gefa í skyn með þessum örfáu orðum, er það, að ég tel nokkra tvísýnu á því, að menn séu viðbúnir því nú að taka afstöðu til þessara breyt., og tel ég því ekki rétt að samþ. þær að svo lítt rannsökuðu máli. En hinsvegar þykja mér líkur til, að það yrði til þess, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi, en það tel ég verulegt tjón, og meiri líkur til þess, að eitthvert samkomulag gæti orðið um þessar till., þegar þingið ætti kost á að taka þær til nákvæmrar rannsóknar.