22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (1453)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Hæstv. fjmrh. hafði í ræðu sinni, sem ég svaraði, lýst þeirri skoðun, að ef 1. mæla svo fyrir, að greitt skuli hærra en fjárveiting fer í fjárl., þá sé skylt að fylgja 1. og greiða meira en veitt er. En ef l. mæla svo fyrir, að lægra skuli greiða, þá skuli sömuleiðis fylgja 1. og greiða lægra. Ef þessi lagaskýring væri óyggjandi, þá hefir stj. náttúrlega ekki haft heimild til að greiða þessa auknu dýrtíðaruppbót frá síðustu áramótum, og þá gæti hún í sjálfu sér heldur ekki fengið neina slíka heimild með þáltill.

En ég bauðst til að benda hæstv. ráðh. á dæmi þess, að frá þessu er vikið ár frá ári, þannig að í fjárl. eru veittar stærri upphæðir en 1. mæla fyrir; veittar í tilteknu skyni og greiddar út athugasemdalaust samkv. fjárveitingu. Hæstv. ráðh. svaraði þessu ekki neinu, og ég held það sé líka rétt að láta þetta standa og líta svo á, að fjárveitingavaldið sé ekki bundið að hámarkinu til við þær upphæðir, sem ákveðnar kunna að vera í lögum, eða m. ö. o., að lagaákvæði bindi ekki hendur fjárveitingavaldsins um fjárveitingar.

En mér þætti réttara. ef hæstv. ráðh. ætlar að fara að framkvæma þessa lögskýringu sína og draga af fjárveitingum í fjárl. til dr. Bjarna Sæmundssonar og Einars Jónssonar, að hann gerði það þá líka að því er snertir aðra liði fjárlaga, þá sem lögákveðnir eru, en hærri upphæð veitt í fjárl.; og færi vel á því að láta þetta sérstaklega gilda um þá liði, sem varða hæstv. stjórn sjálfa.