05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Vestm. var að beina til mín allhvössum orðum út af því, að ég hafði ekki verið viðlátinn til þess að hlusta á umr. manna, nú við þessa 3. umr. fjárl.

Það má gjarnan beina slíkum ásökunum til frsm. sérstaklega, en þar sem sú venja er upp tekin, að varla nokkur hlustar á, þegar menn eru að mæla fyrir brtt. sínum, þá er ekki nein ástæða til þess fyrir frsm. að sitja einan í d. til þess að hlusta á þessa hv. þm. flytja ræður sínar. Það er e. t. v. hvað minnst ástæða til þess fyrir frsm. að hlusta á þessar ræður. Þær fjalla um málefni, sem fjvn. er búin að hafa til meðferðar, og nm. vita nákvæmlega um upplýsingar þær, sem hv. þm. hafa að gefa viðvíkjandi þeim. Annars vita allir, að þessar ræður eru aðeins fluttar til þess að láta þær standa í þingtíðindunum, og réttasta fyrirkomulagið væri, að þdm. fengju heimild til þess að láta prenta þessar ræður þar, án þess að þurfa að flytja þær í d. Ég held, að d. hefði ekki tapað neinu, þótt þetta fyrirkomulag hefði verið komið á, áður en hv. þm. Vestm. hélt sína ræðu. Allt, sem hann sagði, hefir verið sagt hér svo afaroft áður. Mér finnst óþarfi af hv. þm. að setja sig upp á svo háan hest og belgja sig alveg eins mikið út og hann gerði, út af því, að menn nenni ekki að vera að hlusta á það, sem margbúið er að tyggja upp. Hér er ekki um að ræða að sannfæra frsm. n. um réttmæti þessara tillagna, því að hann er fyrir löngu búinn að kynna sér efni þeirra í fjvn., heldur hitt, að sannfæra þá þdm., sem ekki hafa heyrt röksemdirnar fyrr eða eru e. t. v. búnir að gleyma þeim.

Ég ætla ekki að fara að eyða tímanum í það að minnast á einstakar brtt., sem fyrir liggja; ég mun aðeins minnast á þann heildarsvip, sem fjárlagafrv. nú er búið að fá.

Ég hefi áður getið um, hve há tekju- og gjaldaáætlun fjárl.frv. nú er orðin. Útgjöldin hafa aldrei verið áætluð jafnhá, og tekjurnar hafa verið færðar í samræmi við þau. Það er þess vegna ekki rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., þegar hann dregur þá ályktun, að mikill tekjuafgangur hljóti að verða á árinu 1932. Með þessu er hann að blekkja hv. þm. Hann er að leiða þá inn á þá hálu braut, að nú sé óhætt að hætta að spara og hætta að fara varlega. Nú veit hv. þm. það, að útgjöldin eru áætluð 12,8 millj. kr. Útgjöldin eru samt sem áður vanreiknuð í því frv., sem nú liggur fyrir, sem nemur á ýmsum þörfum liðum l,5 millj. kr. Þetta stafar m. a. af auknum lánum, auknum vaxtagreiðslum og afborgunum, sem ríkið verður að inna af hendi. Einnig byggist þetta á lagasetningum, sem ekki var hægt að taka til greina, þegar frv. fyrir 1931 var samþ. Þessi 1,5 millj. lendir óhjákvæmilega á árið 1932 sem aukin útgjöld fram yfir það, sem í fjárlagafrv. stendur. Útgjöldin verða því alls um 15 millj. kr. Vill nú hv. 2. þm. Skagf. vera að hvetja menn til óaðgætni í þeirri von, að tekjurnar verði meiri en þetta? Ef hann gerir það, þá kalla ég það fjárglæfraspil um tekjur ríkisins.

Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. var að tala um hið handhæra fé ríkissjóðs samkv. sjóðseign um nýár og tekjuöflun síðan, þá verð ég að segja það, að ég hefi á þessum stutta tíma ekki getað aflað mér neinna þeirra upplýsinga viðvíkjandi þessu, sem hann mun telja fullnægjandi. Hinsvegar veit ég það, að oft eru framkvæmdir færðar á milli ára og taldur í sjóði um nýár. Hafa svo verið teknar upp í rekstrarreikning á síðastl. ári, svo ekki getur hér verið að ræða um faldar framkvæmdir í sjóði, og sjóðurinn því minni en reikningurinn raunverulega sýnir.

Hv. þm. Seyðf. var ekki með alllitlum gusti út af því, að ég beindi því til hv. þm. að fara varlega. Taldi hann, að þetta væri að sýna d. ósvífni. Það má vel vera, að samkv. kenningum og framkomu hv. jafnaðarmanna sé það að sýna þeim ósvífni. Því þeim er sama, hver afkoma ríkisins verður, þeim er sama, þótt tekjuhalli sé ár eftir ár. Og þótt þessir menn álíti það ósvífni að spara, þá er það engin afsökun fyrir aðra hv. þdm., sem kynnu að vilja fara eins að. Hv. þm. var að benda mér á að athuga; hver fjáreyðsla stj. hefði verið, áður en ég færi nú að brýna svo mjög fyrir hv. þdm. að spara. Þótt það væri sannanlegt, að stj. hefði gert rangt í fjármálum, þá væri það ekki nein afsökun fyrir því að fara nú inn á þá sömu braut. Við vitum það, að ríkissjóður getur ekki til lengdar borið þau gífurlegu gjöld, sem nú eru lögð á hann. Hitt er auðvitað, að þingið verður að krefjast þess, að stj. geri það sem það fyrirskipar henni. (MG: Hefir þess ekki ávallt verið krafizt af stj.?). Ég álít, að þingið eigi að heimta það (MG: Því gerir hv. frsm. það ekki sjálfur?). Stj. á ekki að víkja frá reglum þeim, sem þingið setur, allra sízt í jafn svörtu útliti og nú er.

Hv. þm. gat þess, að fjvn hefði tekið til greina ýmsar till. hans frá því í vetur, um hækkun á tekjum ríkisins. Við höfum hækkað tekjurnar eftir því sem okkur hefir sýnzt framast mega, enda verð ég að segja það, að meiri ástæða er til þess nú en í vetur, þegar menn höfðu ekki hugmynd um, hvernig tekjur myndu verða nokkurn hluta ársins. — Hv. jafnaðarmenn hér í d. flytja allmikið af brtt., sem nema talsverðri upphæð. Mér kom því hálfundarlega fyrir sjónir sú yfirlýsing hv. þm. Seyðf., að hvað sem yrði um afgr. þessara till., þá myndi hann og flokksmenn hans greiða atkv. gegn frv. Til hvers eru þessir góðu menn þá að bera fram þessar till.? Hvers vegna eru þeir að leika þenna skollaleik, fyrst þeim er alveg sama, hvort till. verða samþ. eða ekki? Þeir mættu líta í sinn eigin barm þegar þeir tala um ósvífni, sem dm. sé sýnd. Ef þetta er ekki ósvífni gagnvart Alþ., þá veit ég ekki, hvað ósvífni er.

Það sem ég nú hefi drepið á, er hið helzta, sem vikið hefir verið að í alm. umr. um fjárl. Það, sem dm. verða að hafa hugfast. er það, að heildarsvipur fjárl. sé góður. Það má ekki teygja og toga útgjöldin svo, að tekjurnar hrökkvi ekki til þess að standast þau. Um allar þær brtt., sem fram eru bornar, má segja meira og minna gott. Margar þeirra eru nauðsynjamál, sem æskilegt væri að geta veitt fé til. En við verðum að láta það fjármagn, sem við höfum yfir að ráða, renna til þess allra nauðsynlegasta, hitt verður að bíða. Við höfum reynt að leggja helzt fé af mörkum til verklegra framkvæmda, því þeirra mun nú helzt þörf. N. hefir samt ekki viljað fara lengra í því en svo, að hún teldi öllu sæmilega óhætt, og þó hefir hún vegna hinna sérstöku ástæðna, sem fyrir hendi eru, gengið lengra en ella myndi. N. er það ljóst, að þörf er á verklegum framkvæmdum til atvinnubóta, þar sem útlit er fyrir örðuga tíma.

Þá skal ég með örfáum orðum víkja að þeim brtt., sem fyrir liggja. Ég fer fljótt yfir sögu og ætla ekki að rökræða þær á sama grundvelli og hv. flm. þeirra.

Þá er það fyrst á þskj. 183, brtt. frá hv. þm. Vestm. og fleirum um byggingarstyrk til sumarskýlis símamanna í Rvík. Það er enginn vafi, að hér er þarfamál á ferðinni, og sennilegt, að ríkið megi til, þó að ekki verði fyrr en síðar, að styrkja þetta á einhvern hátt, en ég vil benda á, að þetta mál hefir ekki borið að öllu leyti rétt að. Ég held, að engin samvinna hafi verið á milli landssímastjóra og ríkisstj. um þessa hluti, en það álít ég þó rétt og æskilegt, að hefði verið. N. hefir óbundin atkv. um þetta atriði. Nokkur hluti n. vill styðja þessa viðleitni símafólksins, en aðrir telja, að það liggi ekki þannig fyrir nú, að ástæða sé til þess.

Þá er III. brtt. á sama þskj., frá hv. þm. N.-Ísf., um nýjar símalínur, að fyrir 70 þús. komi 82 þús. Fjvn. var búin að ganga frá þessu máli og gera sínar till., og með því að hún hefir ekki breytt afstöðu sinni til þessa máls, þá leggur hún á móti þessari brtt.

V. brtt. er um læknisvitjanastyrk. Fjvn. var búin að afgr. þetta mál í till. frá sér, og leggur til að veita jafnmikla upphæð og farið er fram á hér til Nauteyrarhrepps, en hefir sett þá aths. við, að binda það því skilyrði, að læknir fengist ekki til þessa héraðs. Það hefir verið venja í slíkum tilfellum að veita styrkinn með slíku skilyrði. N. leggur því á móti þessari brtt., en vill auðvitað, að sín brtt.samþ.

VII. brtt. er um styrk til sjúkraskýlis á Þórshöfn, endurveiting. Um þessa till. er það að segja, að þessi fjárveiting var í fjárl. 1928, og var þá búið að gera ráðstafanir til að hún yrði greidd, þannig, að það átti að borga skuld í Viðlagasjóði Íslands, sem stofnað hafði verið til vegna þessarar byggingar. Þeir á Þórshöfn vissu ekki annað en að þessi greiðsla hefði farið fram, enda urðu þess fyrst varir síðastl. ár, að þessi greiðsla hafði aldrei fram farið, og stafaði það af láti fjmrh., Magnúsar Kristjánssonar. Hann var búinn að lofa að ganga gegnum þetta, en entist ekki aldur til. Af þessum ástæðum er það, að meiri hl. n. leggur til, að þetta fé sé greitt.

IX. brtt. er um sjúkrastyrk til frú Sigríðar Kjartansdóttur í Holti, vegna sjúkleika manns hennar, séra Jakobs Ó. Lárussonar, 5 þús. kr. N. hefir óbundin atkv. um þessa till. Það er enginn vafi, að hér er um mikla þörf hlutaðeigenda að ræða, en hinsvegar mikið vandamál að ákveða slíka hluti, þar sem það kann að skapa fordæmi, og er þá erfitt að verða við öllum slíkum beiðnum. ef aðrir koma á eftir með slík tilmæli.

1. brtt. er um 5 þús. kr. framlag til Skeggjastaðaþinghárvegar. N. er búin að taka afstöðu um fjárveitingar til vegamála og leggur því til, að till. verði felld.

XII. brtt. er um 25 þús. kr. til Fjarðarheiðarvegar. Það er sama um þessa brtt. að segja og þá X., að n. er búin að taka afstöðu til þeirra mála og leggur því til, að till. verði felld, og sama er að segja um XIII. brtt., þar sem ræðir um framlag til vegar, 10 þús. kr. N. leggur til, að hún verði felld.

XV. brtt. er um framlag til brúargerða. Það er eins með þetta. Hér er um að ræða aukið framlag til brúargerða fram yfir það, sem n. hefir lagt til, og það er eins og annarsstaðar, að við sjáum okkur ekki fært að mæla með þessari brtt.

Sama er að segja um XVII. brtt. Þar er till. um fjárveitingu til fjallvega. N. hefir lagt til í sinni brtt., að framlag til fjallvega verði hækkað meira en farið er fram á í þessari till., en þar sem hún bindur við vissan stað það framlag, sem þar ræðir um, þá leggur n. til, að brtt. verði felld, og yfirleitt telur n. ekki rétt að binda slíkar greiðslur við ákveðna vegi.

XVIII. brtt. er einnig um framlag til þegar, 2500 kr. Af sömu ástæðum og áður leggur n. til, að till. verði felld.

XIX. brtt. er um 500 kr. til ábúandans á Víðidal á Möðrudalsfjöllum. Í fjárlögum hefir verið veitt upphæð til að halda uppi byggingu á eyðibýlum. Mér er ekki kunnugt, hvort nokkuð af þeirri fjárveitingu hefir farið til þess staðar, en n. hefir lítið svo á, að ekki gæti komið til mála að veita svo mikinn styrk til þessa býlis, þar sem umferð þarna er stöðugt að minnka, og annað býli er þar nærri í eyði og er starfrækt enn.

11. brtt. fer fram á að auka framlag til flóabátaferða um 2 þús. kr. Er ætlazt til þess, að þetta aukna framlag fari til Eyjafjarðarbátsins og Stykkishólmsbátsins, 1000 kr. til hvors. Meiri hl. n. lítur svo á, að ekki sé hægt að ganga á móti till. samgmn. um styrk til flóabáta, og þar sem hér er bætt við till. hennar, þá vilja nm. ekki gera breyt. þar á, en hafa þó óbundin atkv. um till.

Þá er XXI. brtt., sem fer fram á styrk til að kaupa bát á Ísafjarðardjúp gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar að. N. sér sér ekki fært að mæla með því, þó að þörf kunni að vera á þessum bát.

XXIII. brtt. er um kaup á vitavarðarbústaðnum á Rifi á Melrakkasléttu, 2 þús. kr. Eins og hv. d. er kunnugt, þá er þessi húsbygging algerlega án samkomulags við vitamálastjóra, og því hefir n. ekki getað fallizt á, að slíkar framkvæmdir séu látnar lenda á ríkissjóði, sem gerðar hafa verið alveg án þess að ráðfæra sig við hlutaðeigandi forstjóra þeirra ríkisstofnana, sem um er að ræða. Meiri hl. n. getur ekki mælt með þessu, en einstakir nm. hafa óbundin atkv. um till.

XXIV. till. er um styrk til viðgerða á öldubrjótnum í Bolungarvík. Hér er um endurveitingu að ræða. N. hefir óbundin atkv. í þessu máli. Sumir telja sjálfsagt að veita þetta fé, þar sem um endurveitingu er að ræða. Aðrir líta svo á, að þessar framkvæmdir í Bolungarvík hafi verið með nokkuð öðru sniði en æskilegt hefði verið og því þörf á að kippa þar að sér hendinni, og leggja því á móti, að brtt. verði samþ. Það hefir verið nokkrum sinnum veitt til þessa mannvirkis áður, en framkvæmdirnar farið meira og minna í handaskolum.

XXV. brtt. fer fram á 5500 kr. framlag til brimbrjótsins á Skálum á Langanesi. Ég er vel kunnugur ástæðunum fyrir þessari till., og þar sem allar framkvæmdir hafa verið á þann hátt, sem raun ber vitni, þá sér n. ekki ástæðu til að hylla slíka ráðstöfun. Það er ekki fyrir annað en ódugnað, að þeir erfiðleikar komu þar, sem gerðu verkið dýrara en ráðgert var. Ef þeir hefðu tekið þar sand upp, sem þeim var ætlað að taka hann, meðan hann var til, þá hefði ekki þurft að kosta flutning á sandi frá Seyðisfirði til Skála, sem olli auðvitað geysimiklum kostnaðarauka.

Næsta till. er um sama efni, aðeins minni upphæð, 4 þús. kr. N. hefir óbundin atkv. um hana.

XXVIII. brtt. er um 10 þús. kr. til bryggjugerðar á Sauðárkróki. N. hefir tekið afstöðu í fjárlögunum til þessara framkvæmda og getur því ekki mælt með þessari till., þar sem líka er mjög vafasamt um allar tekjur ríkissjóðs eins og er.

Þá er XXX brtt., 1500 kr. til aukakennara í þýzku við háskólann. N. hefir ekki getað skilið eða sannfærzt um, að brýn nauðsyn sé á þessu, og leggur því til, að till. verði felld.

XXXI. till. er um 1500 kr. styrkveitingu til Önnu Bjarnardóttur frá Sauðafelli til að kynna sér barnafræðslu og uppeldismál. Þessi till. er sjálfsagt þess eðlis, að væri gott að geta samþ. hana eins og margar aðrar fjárbeiðnir í svipaða átt, en þar sem n. hefir tekið þá afstöðu að vera á móti slíkum framlögum, þá líta sumir nm. svo á, að þessi fjárbeiðni verði að lúta sömu lögum, en aðrir telja hér meiri þörf en annarsstaðar og vilja því veita fé til þessa. N. hefir því óbundin atkv. um þessa till.

XXXII. brtt. er um það að veita Jóni Á. gizurasyni 1000 kr. til framhaldsnáms í Þýzkalandi. Það er sama að segja um þessa till. og svo margar aðrar till. hér á undan, að n. getur vel búizt við, að þessi maður sé vel þess verður að verða þessa styrks aðnjótandi, en þar sem hún hefir nú lagt á móti slíkum styrkveitingum, þá leggur hún til, að till. verði felld.

Næst er XXXIII brtt. um að hækka styrk til stundakennslu á Akureyri úr 15 þús. kr. upp í 18 þús. kr. Eins og hv. flm. gat um, þá er þessi hækkunartill. flutt í því augnamiði að fá góðan söngkennara að skólanum, mjög merkilegan mann að mörgu leyti. Sumir líta svo á, að það þurfi kannske ekki að seilast svo langt eftir slíkum mönnum, og vilja því ekki leggja til, að þetta verði samþ., en að öðru leyti hefir n. óbundin atkv. um till. (JónasÞ: Hann er ráðinn). Hv. flm. skýtur því inn í, að maðurinn sé ráðinn. Mér er ekki kunnugt, af hverjum hann er ráðinn. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi verið ráðinn í samráði við ríkisstj. Ég hefi engar gildar sannanir fyrir því, og meðan það er ekki, get ég ekki lagt til, að þessi styrkur verði veittur. Þeir, sem taka slíkt vald í sínar hendur, verða þá að bera ábyrgð á því, ef Alþingi fellst ekki á það.

XXXIV. brtt. er um 1000 kr. til Jóns Sigurðssonar. Þetta er að vísu ekki nein aukin fjárveiting, aðeins ráðstöfun á fé, sem varið hefir verið til iðnfræðslu, og mætti því vel frá því sjónarmiði séð samþ. till. En það er alltaf ábyrgð að binda þessar fjárveitingar við einstaka menn. N. getur því ekki lagt til, að þessi till verði samþ.

Um XXXV. brtt. um útgáfu kennslu. bókar í spönsku vil ég segja það, að þótt hv. þm. Vestm. talaði skörulega fyrir henni, þá hefi ég ekki getað sannfærzt um nauðsyn þessarar bókar að neinu leyti. Hv. þm. benti á, að margt gott hefði leitt af erindrekum okkar á Spáni. Það er alveg rétt, en það hefir orðið án þess að nokkur slík kennslubók væri til hér á landi. Ég býst við, að þeir, sem annars vilja nema spönsku, geti það án þess að hafa íslenzka kennslubók. N. leggur því til, að till. verði felld.

Þá er XXXVII. till., 1200 kr. styrkur til Einar Kristjánssonar. Við höfum alltaf við og við verið að styrkja söngmenn til utanfarar og hefir það gefizt misjafnlega. Það væri ánægjulegt að geta komið þessum mönnum áleiðis, ef það yrði til að þroska þá, en slíkir styrkir hafa stundum orðið þeim til lítils gagns, aðeins til að eyða fé án árangurs. N. hefir óbundin atkv. um þetta atriði. Ég fyrir mitt leyti hefi ekki mikla tilhneigingu til að mæla með henni, en ætla þó að láta ógert að mæla frekar á móti henni en ég hefi nú þegar gert.

XXVIII. brtt. er um 600 kr. styrk til Ásgeirs Bjarnþórssonar til að fullkomna sig í málaralist. Þessir listamannastyrkir liggja fremur til úthlutunar undir menntamálaráðið en Alþingi, og er því ekki um annað að ræða en annaðhvort að taka það veitingavald alveg af menntamálaráðinu, eða að Alþingi sleppi því alveg fram af sér að veita fé til manna, sem menntamálaráðið hefir ekki séð sér fært að taka upp. N. getur ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ., og er þetta þó sjálfsagt mjög álitlegur málari.

XXXIX. brtt. fer fram á 1500 kr. styrk til Sigurðar Skúlasonar til rannsókna á fornbókmenntum. N. hefir óbundin atkv. um þessa till. Það er að sjálfsögðu margháttaður fróðleikur, sem hér væri um að ræða, en þessi fjárbeiðni hefir komið fram nokkrum sinnum áður, ég held tvisvar sinnum. Ég sé ekki ástæðu til að sinna henni frekar nú, en verða þá fremur við henni þegar betur lætur í ári og fremur verður hægt að snúa sér að þeim málum, sem eru ekki aðkallandi.

XL. brtt. er um styrk til Ólafs Marteinssonar til orðtöku og vísnasöfnunar, 1000 kr., og til vara 800 kr. Ég býst við, að þessi beiðni sé fram komin með það fyrir augum, að styrkja þenna mann, sem er mjög illa kominn hvað heilsu snertir, og sé það gert með þeirri trú, að þessi styrkur komi að nokkru leyti aftur fyrir þau störf, sem þessi efnilegi maður gæti innt af hendi. Sumir í n. telja allar slíkar styrkveitingar varhugaverðar, en aðrir, eins og ég hefi tekið fram, telja, að fullt gjald komi fyrir. Því hefir n. óbundin atkv. um afgr. þessarar till.

Um XLI. brtt., að veita Oddi Oddssyni 1000 kr. til ritstarfa og til vara 800 kr., vil ég segja það, að það starf, sem þessum manni er ætlað að inna af hendi, er ekki svo nauðsynlegt, eða honum svo nauðsynlegt til lífsviðurværis, að ástæða sé til að taka hann sérstaklega upp nú, þar sem marga styrki verður að fella niður, sem nauðsynlegir mættu kallast, og leggur n. því til, að till. verði felld.

XLII. brtt. er aths. um það, að af sandgræðslustyrknum skuli veita 5000 kr. til áveitu og sandgræðslu í Meðallandi og 1500 kr. til Páls Guðmundssonar til varnar gegn sjávargangi og sandfoki. N. álítur ekki rétt á þessum lið að binda fjárveitingarnar við einstaka staði. Hér yrðu að koma til greina till. þeirra manna, sem með þessi mál fara. N. getur því ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ.

Þá er það XLIII. brtt., sem fer fram á styrk til búfjáreigenda í Norður-Ísafjarðarsýslu til fóðurbætiskaupa. Er farið fram á 20 þús. kr., og til vara 15 þús. kr. Um þetta er það að segja, að það er engum vafa bundið, að það er víða þörf á þessum styrk. En það má ekki taka einstök héruð út úr, án þess að hafa önnur í huga og veita þeim einnig styrk eftir ástæðum. Nú er mér kunnugt um, að ríkisstj. ætlar að láta gera athuganir um það, hvernig háttað muni vera hér á landi í þessum efnum og athuga, hvernig hjálpa skuli. En af þessari ástæðu, að hér er eitt hérað tekið út úr, getur n. ekki fallizt á þessa fjárveitingu, en leggur til, að hún verði felld. Hinu held ég fram, að nauðsynlegt sé að athuga sem fyrst, hvernig ástandið muni vera, og hvernig hægt sé að hjálpa.

Þá er það XLIV. brtt. um styrk til Hákonar Á. Bjarnasonar, til lokanáms í skógrækt og sandgræðslu, að upphæð 1500 kr.; en til vara 1200 kr.

N. getur ekki mælt með því, að þessi styrkur verði samþ. Þessi maður hefir notið styrks frá 1927, 1200 kr. á ári. Hér er því farið fram á hærri fjárveitingu en áður hefir verið. Þessi maður hefir gert ráð fyrir því að verða starfsmaður ríkisins, og þess vegna fengið þenna styrk. Fyrir því vill meiri hl. n. ganga inn á varatill., en einstakir nm. hafa óbundið atkv.

XLV. brtt. fer fram á 900 kr. til Eggerts Magnússonar, til dýralækninga, og til vara 700 kr. Um þenna lið hafa nm. óbundin atkv. Á þessu þskj. er önnur till. um fjárveitingu til dýralækninga, en báðir þessir menn eru svo nærri dýralæknum, að ekki þykir ástæða til að styrkja þá, af þeirri ástæðu. Helzt væri að styrkja menn til dýralækninga á þeim stöðum, þar sem erfiðast er að ná til dýralæknis. N. leggur því ekki til, að þessi brtt. verði samþ., en einstakir nm. hafa óbundin atkv. um tillöguna.

Þá kemur XLVII. brtt. um laun til Halldóru Bjarnadóttur, að upphæð 3000 kr. Halldóra Bjarnadóttir hefir haft allmikinn styrk undanfarið, og enn er henni ætluð í fjárlögunum allrífleg upphæð. 1800 kr. N. hefir ekki sýnzt ástæða til að hækka þá upphæð. Við viljum þó segja starf þessarar konu lofsvert, og hún hefir sýnt mikinn áhuga á verkefni því, sem hún hefir valið. Það er ekkert annað en gott eitt um það að segja. En þar sem ríkissjóður verður að þrengja kosti allra, þá sjáum við ekki ástæðu til annars en að leggja til, að þessi brtt. verði felld. b-, c-. og d-liðir brtt. eru í frv. sjálfu og því ekkert um þá að segja.

XLVIII. brtt. fer fram á 10 þús. kr. fjárveitingu til mælinga og rannsókna á vatnasæði Þverár og Markarfljóts. Um þessa brtt. hafa nm. óbundin atkv., og ætla ég ekki að fjölyrða um hana. Ég veit, að þörfin er mikil, en veit ekki, hvort hún er svo brýn, að nauðsyn beri til fjárveitinga á þessu ári.

Með XLIX. brtt. er farið fram úr 4000 kr. fjárveitingu til dýpkunar á innsigling leiðarinnar á Stokkseyrarsundi. En samkv. þeirri afstöðu, sem n. hefir tekið til allra lendingarbóta, getur hún ekki fallizt á, að brtt. þessi verði samþ.

Um L. brtt., um 1200 kr. styrk til Valgarðs Thoroddsens til þess að ljúka námi í rafmagnsfræði í Þýzkalandi, og 1000 kr. styrk til Ingveldar Sigurðardóttur til að ljúka námi í verzlunarfræði í Þýzkalandi, er hið sama að segja og um aðra námsstyrki. N. leggur á móti þeim, þótt báðir umsækjendur hafi óefað margt gott og gagnlegt til að bera.

Þá kemur LI. brtt. og er með henni farið fram á 10 þús. kr. styrk til Gerðahrepps í Gullbringusýslu, til þess að standast kostnað af fátækraframfærslu árið 1931. Þetta hefir n. ekki getað fallizt á, að samþ. yrði. Henni er það ljóst, að Gerðahreppur á erfitt uppdráttar, en svo er einnig um ýmsa aðra hreppi. En þeir eiga fyrst og fremst að snúa sér til sýslufélaganna, en ekki til ríkisins. Mér er kunnugt um einn hrepp, sem svona var ástatt um, að hann gat ekki risið undir nauðsynlegum útgjöldum, og hann fór þannig að. N. getur því ekki fallizt á að samþ. þessa brtt.

Um LIII. brtt., um 550 kr. fjárveitingu til Ólafs Stephensens, hafa nm. óbundin atkv. Ég held, að ekki sé rétt, að búið sé að ákveða eftirlaun þessa manns 450 kr. En þegar það lægi fyrir, þá sæi ég ekkert á móti því, að þessi viðbótarfjárveiting væri veitt, samkv. þeirri venju, sem upp hefir verið tekin um presta, sem sagt hafa af sér.

Þá kemur LIV. brtt., um hækkun á eftirlaunum Ögmundar Sigurðssonar fyrrverandi skólastjóra. Um hana er ekki hægt að fjölyrða. Meiri hl. n. leggur á móti henni, ekki fyrir það, að hann viðurkenni ekki, að þessi hækkun væri makleg, heldur af því, að hún sér ekki ástæðu til að bæta við hann frekar en aðra, sem erfitt eiga með að framfleyta sér.

Sama er að segja um LV. brtt. um að eftirlaun Cathincu Sigfússon verði hækkuð úr 400 kr. upp í 1000 kr. og til vara 750 kr. N. sér ekki ástæðu til að mæla með þessu, þar sem svo margar ekkjur hafa minna.

Með LVII. brtt. er farið fram á 200 kr. fjárveitingu til Guðríðar Guðmundsdóttur ljósmóður. Slíkar fjárbeiðnir sem hér um ræðir eru algengar, og n. sér ekki ástæðu til að gera neina sérstaka till. í þessu efni, og um LVIII. brtt. er hið sama að segja.

LIX. brtt. er um hækkun á eftirlaunum Valgerðar Steinsen. N. sér ekki ástæðu til að taka þessa konu út úr. Þessi eftirlaun eru líka nokkuð sérstaks eðlis, og því enn síður ástæða til að hækka þau, þótt ég vilji ekki á nokkurn hátt rýra starf þessarar konu.

Með LXI. brtt. er farið fram á það, að Vigfúsi Guðmundssyni að Flögu í Skaftártungu verði veittar 10 þús. kr. sem skaðabætur vegna bruna af eldingu aðfaranótt hins 1. des. 1930. Um þetta er það að segja, að því hefir verið haldið fram, að landssíminn eða ríkissjóður væri skyldugur til að greiða bætur fyrir þennan skaða, sem af brunanum hlauzt. Landssíminn hefir mótmælt þessari kröfu, og n. getur ekki fallizt á, að hér sé um að ræða neina réttmæta kröfu á hendur landssímanum eða ríkissjóði. Þar sem svo margir hafa beðið hnekki af völdum eldinga, þá er ekki ástæða til að fara að bæta þessum eina manni skaðann, þótt sími lægi inn til hans.

LXII. brtt. fer fram á, að Alþ. fari að ráðstafa því fé, sem Menningarsjóði er ætlað að hafa yfir að ráða, þannig, að binda það við nafn Guðbrandar Jónssonar rithöfundar. N. getur ekki fallizt á það og leggur til, að brtt. verði felld.

Um LXIV. brtt., sem ræðir um kaup á lóðum milli menntaskólans og stjórnarráðsins, neðan Skólastrætis, en ofan lækjar, er það að segja, að n. hefir ekki getað fallizt á, að þessi kaup væru svo aðkallandi, að ástæða væri til að taka í þessi fjárlög heimild fyrir ríkisstjórnina til þeirra kaupa.

Þá er með LXV. brtt., frá hv. þm. Seyðf., hv. þm. Ísaf. og hv. 3. þm. Reykv., farið fram á, að ríkisstj. gangi enn í nýjar ábyrgðir fyrir hönd ríkissjóðs. Um a-lið er n. óbundin um atkv. Þar er farið fram á 600 þús. kr. ábyrgð fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp, til rafvirkjunar. Það hefir áður verið veitt slík heimild, en til lægri upphæðar. — En margir líta svo á, að betra væri að koma ábyrgðinni fyrir á annan hátt, með sérstakri samábyrgð kaupstaðanna gagnvart lánsstofnunum, án ábyrgðar ríkissjóðs. Það er mjög óheppilegt fyrir landið, að ýmsir fjármálamenn séu að bjóða út ábyrgð ríkissjóðs um öll lönd.

b-liður þessarar brtt. er um ábyrgð fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði fyrir lánum til kaupa á fiskiskipum. N. hefir haft tækifæri til að ræða þessa till. við flm. og segja þeir, að til mála hafi komið kaup á innlendum skipum. Álítur n. því ábyrgð ríkissjóðs óþarfa, þar sem bankinn gæti yfirfært skuldina til samvinnufélaganna. N. leggur því til, að þessi liður brtt. verði felldur.

Gagnvart c-lið hefir n. lagt til, að ríkið ábyrgist fyrir Síldareinkasölu Íslands ½ millj. kr. til rekstrar. Álítur hún það sæmilega nóg og vill því fella brtt.

Um LXVI. brtt., um að kaupa hús sýslumannsins í Borgarnesi, hefir n. óbundin atkv., en sér ekki ástæðu til að leggja með því, að það sé keypt. Það getur ekki gengið, að ríkið sé skrúfað til að kaupa þau hús, sem embættismenn byggja eftir eigin höfði, dýr og ópraktisk, fyrir embættin. Það verður að lenda á þeim, sem leggja í þann kostnað, sem fyrirsjáanlega getur ekki borgað sig.

Um LXVII. brtt., um heimild handa ríkisstj. til að ábyrgjast allt að 170 þús. kr. lán fyrir Hólshrepp til rafvirkjunar, er hið sama að segja og um LXV. brtt. N. getur ekki fallizt á, að þessi heimild sé veitt, og vildi, að farin væri önnur heppilegri leið með þessar ábyrgðir, en annars hafa einstakir nm. óbundin atkv. b-liður er um 60 þús. kr. ábyrgð fyrir h/f Djúpbátinn til bátskaupa. N. leggur til, að sú brtt. verði felld.

LXVIII. brtt. er um 2500 kr. lán til J. Frímanns Jónssonar til að koma upp verkstæði til aðgerða á jarðyrkjuverkfærum, jarðyrkjuvélum, heyvinnuvélum og rafstöðvum og til að koma upp rafstöðvum á Fljótsdalshéraði. Þetta er sjálfsagt nauðsynjamál. en ekki sjáanlegt, að ástæða sé til að verja til þess fé ríkissjóðs.

LXIX. brtt. fer fram á 25 þús. kr. lán til Hjaltastaðahrepps í N.-M., til 20 ára. Um þetta hefir n. óbundin atkv., en eins og ég gat um áðan, þá er erfitt að taka einstaka hreppa út úr. Þó skal það tekið fram, að hér er um endurveitingu að ræða, og því hastarlegt að veita það ekki nú.

Síðasta brtt. (LXX) fer fram á 20 þús. króna bjargræðislán til Suðurfjarðarhrepps í Barðastrandarsýslu. Um þetta er hið sama að segja og till. um lán til annara hreppa. N. sér ekki fært að leggja með henni.

Þá koma hér nokkrar brtt. á þskj. 194, og þá fyrst liður I. um 13 þús. króna fjárveitingu til Breiðadalsheiðarvegar. N. getur ekki mælt með þeirri till., og sama er að segja um brtt. II., þar sem farið er fram á 2 þús. kr. hækkun til samgöngumálanna. N. telur ekki rétt að taka þær upp, en einstakir nm. hafa annars óbundin atkv.

Þá er með III. brtt. farið fram á 1200 kr. fjárveitingu til Stúdentaráðs Háskóla Íslands, til þess að starfrækja upplýsingaskrifstofu. N. hefir óbundin atkv., en meiri hl. telur ekki fært að verða við þessari beiðni.

IV. brtt. er um 3 þús. kr. hækkun til húsmæðraskólans á Hallormsstað og til vara 2 þús. kr. N. er á móti aðaltill., en um varatill. eru óbundin atkv. N. telur þessa fjárveitingu í ósamræmi við fjárveitingu til annara samskonar skóla.

N. getur ekki verið með 1000 kr. fjárveitingu, sem farið er fram á með næstu brtt., til Vísindafélags Íslendinga, og heldur ekki 4000 kr. fjárveitingu til tónlistarskólans í sömu brtt.

Með VI. brtt. er lagt til, að Halldóri Jónssyni á Brekku í Svarfaðardal verði veittar 600 krónur til dýralækninga. Um þetta er hið sama að segja og áður er tekið fram í sambandi við aðra samskonar beiðni. Þessi maður er svo nálægt dýralækninum á Akureyri, að það er ekki ástæða til að fara að leggja fé úr ríkissjóði til að styrkja hann til þessarar starfsemi.

Meiri hl. n. er á móti brtt. VII, 1, um 2000 kr. fjárveitingu til Kvenfélagasambands Íslands, og sömuleiðis 3000 kr. fjárveitingu til Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, en annars hafa einstakir nm. óbundin atkv.

Með brtt. VIII. er lagt til, að Kvenfélagasambandi Mýra- og Borgarfjarðarsýslu verði veittar 300 kr. Kvenfélagasamböndin hafa öll fengið einhverja fjárveitingu, svo að ekki er ósanngjarnt, að þetta samband fái sömuleiðis eitthvað. Atkv. um till. eru óbundin, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um hana.

Þá kem ég að brtt. IX., sem ræðir um 2000 kr. hækkun á styrk til Stórstúku Íslands. Um þá brtt. hefir n. óbundin atkv. Hv. þm. Vestm. flutti langa ræðu um drykkjuskap nú á tímum á landi hér og var svo að skilja, sem hann áliti, að það læknaðist með öllu, ef stúkan fengi þessa hækkun. Mér er sagt: að Stórstúkan hafi haft 10 þús. kr., og með 10 þús. kr. styrk til hennar hefir þetta ástand komizt á. Máske veita eigi styrkinn til að viðhalda ástandinu, en mér finnst nóg að veita 8 þús. kr., ef ofdrykkjan á að vera í réttu hlutfalli við styrkinn, sem stúkan hefir. Annars málaði hv. þm. Vestm. skrattann svo átakanlega á vegginn, að manni finnst, að varla geti verið mikil bót að 2 þús. kr. hækkun.

Hv. þm. Vestm. talaði mikið um aukna vínnautn í tíð núv. stj. Ég veit ekki, hvað hann hefir fyrir sér í því. Aukin sala Spánarvínanna kemur blátt áfram af því, að ekki er hægt að ná sér í vín annarsstaðar. Ég vil benda á það, að spíritussala læknanna hefir minnkað að miklum mun í tíð núv. stj., og það svo mikið, að á síðasta ári seldu þeir þrisvar sinnum minna en þeir gerðu árið 1925. Árið 1925 seldu þeir 25000 l., en síðastl. ár aðeins 8000 l.

Þá ætla ég að víkja að fyrirspurn hv. 1. þm. Rang. út af brúnni á Þverá. (JÓl: Á Rangárvöllum?). Já, ég get sagt þessum hv. þm., að okkur ber ekkert á milli um það, hvað gera skuli. Okkar ætlun var sú, að brúin yrði byggð á sama stað og búið var að áætla, og mér þykir þetta satt að segja undarleg fyrirspurn hjá hv. þm.

Hv. þm. Rang. gengust fyrir því, að samgmn. færi för þessa austur eftir, m. a. til þess að sjá nauðsynina á þessari brú. Við gerðum ráð fyrir, að þessir hv. þm. mundu sýna okkur allt, sem markvert væri að sjá þarna um slóðir, en þegar austur kom, varð annað uppi á teningnum. Annar þessara hv. þm. var upptekinn mestallan daginn við að mylgra andlega fæðu í kjósendur sína, en hinn, sem var veraldlegar sinnaður, hvarf okkur í glaumnum og sást ekki mestallan daginn.

Því var það, að við hv. þm. Borgf. og hv. 4. þm. Reykv. brutumst undan yfirráðum þessara leiðtoga og reyndum að sjá það sem þurfti upp á eigin spýtur. En við vorum allir svo ókunnugir barna, að okkur var ómögulegt að kynna okkur þetta almennilega, og vanti eitthvað á þekkingu okkar í þessu máli, þá má hv. 1. þm. Rang. sjálfum sér um kenna.

Um það atriði. hvort eyða megi svo og svo miklu fram yfir það, sem heimilað er í fjárl., áður en fé verði veitt til þessarar brúar, er óþarfi að svara. Gera má ráð fyrir, að ýmsir útgjaldaliðir séu of lágt áætlaðir, en ég geri ráð fyrir, að þær verklegu framkvæmdir, sem heimilaðar eru í fjárl., verði látnar ganga fyrir öðrum. [Frh.].