12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Páll Hermannsson:

Hv. 2. landsk. benti á, að eldspýturnar væru að allmiklu leyti ónauðsynleg vara. Ég gat þess aftur á móti í upphafi, að þær væru að miklu leyti nauðsynjavara. Það er samt ekki það, hversu sérstaklega nauðsynlegar eldspýtur eru, sem veldur því, að ég ber fram brtt. mína á þskj. 277, heldur er það hitt, að mér sýnist standa líkt á um eldspýtur og margar aðrar vörur; þær eru að sumu leyti nauðsynlegar og að sumu leyti ónauðsynlegar. Mætti nefna konfekt, tízkuvörur og ýmsan fatnað, sem líkt stendur á um, og væri að því leyti líklegt, að fyrir dyrum stæði að taka í einkasölu. En það er ekki stefna okkar framsóknarmanna að taka slíkar vörur í einkasölu, heldur vörur, sem sérstaklega stendur á um, og það, sem við tökum þá til greina, er það, að varan sé líkleg til þess að gefa tekjur í ríkissjóðinn, að hún sé hátolluð, því hátolluð vara verður að vissu leyti miklu kostnaðarsamari fyrir kaupendur í hinni frjálsu samkeppni en ef hún er lágt tolluð eða tollfrjáls. Því að kaupmennirnir verða, eins og kunnugt er, að leggja álagningu á tollinn jafnt og innkaupsverið, ellegar þá að hinu leytinu, að talið hefir verið nauðsynlegt að setja upp einkasölu til þess að vernda viðskiptamennina fyrir allskonar ásóknum með óheppilegar vörur. Eldspýtur virðist standa líkt á um og aðrar vörur, sem ekki hefir enn komið til mála að taka í einkasölu, og því er það, að ég legg til, að þær séu teknar þarna út úr. Það er til þess að færa ekki frv. út fyrir þau takmörk, sem við höfum aðallega bundið okkur við. En að öðru leyti get ég verið hv. 2. landsk. sammála um það, að þessi vöruteg. muni gefa einhverjar tekjur í ríkissjóðinn með einkasölufyrirkomulagi, en í smáum stíl býst ég við að það yrði.