12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Guðrún Lárusdóttir:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., enda er nú búið að tala svo mikið um þetta mál, að ég álít óþarft að bæta þar miklu við.

Ég geri ekki ráð fyrir að greiða atkv. í þessu tóbaksmáli, nema um till. hv. l. landsk. og hv. 2. þm. N.-M. Ég lít svo á, að þjóð vorri væri að því enginn skaði, þótt neyzla tóbaks í landinu væri minnkuð til muna, enda þótt minni tekjur rynnu við það í ríkissjóðinn. Ég lít svo á, að það, sem í þessu tilfelli sé gróði fyrir ríkissjóðinn, sé tap fyrir einstaklingana, og þá ekki sízt fyrir þær sakir, að unglingarnir gera mikið af því að sjúga í sig þetta eitur, spilla heilsu sinni og eyðileggja líkama sinn. Sú orka, sem fer forgörðum við tóbaksneyzlu, og það heilsutjón, sem tóbakið veldur, verður ekki metið til fjár, en sárast er þó til þess að vita, að börnin venja sig þegar á unga aldri á þessa skaðlegu nautn, sem spillir bæði líkamlegu atgervi þeirra og andlegum hæfileikum, og munu kennarar ekki hvað sízt geta borið um, hvaða áhrif tóbaksnautn hefir á námsgáfur barna og unglinga. Af þessum ástæðum meðal annars get ég ekki greitt atkv. um frv. þetta, en ef það hefði miðað að því að draga úr þessari óhollu nautn, þá hefði ég goldið því jákvæði mitt, af því að ég álít, að full ástæða sé til fyrir löggjafarþing þjóðarinnar að reyna með löggjöf að stemma stigu fyrir þeim illu afleiðingum, sem tóbakið hefir, sérstaklega á ungu kynslóðina.