19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jóhann Jósefsson:

Ég tók eftir því, að í einni ræðu hv. 3. þm. Reykv. lét hann á sér skiljast, að hann ætti meira undir sér nú en í byrjun þings, og það er ýmislegt, sem bendir á, að þetta sé á rökum byggt hjá hv. þm., að hann og aðrir socialistar hafi komið svo ár sinni fyrir borð við hv. stjórnarflokk, að meira tillit sé nú tekið til þeirra en að undanförnu. Það, sem m. a. hendir á, að þetta sé rétt hjá hv. þm., er frv. það, sem hér liggur fyrir, og sem hv. stjórnarflokkur hefir fleytt fram í Ed. og virðist nú ætla að knýja í gegn.

Það er upplýst við þær umr., sem hér hafa fram farið, að hv. fjhn. hefir ekki fengið tíma til að vinna neitt að málinu eða athuga brtt., sem einhverjir nm. höfðu ætlað sér að koma fram með við þetta mál. Það er mjög eftirtektarverður hlutur þetta, að n. er ekki látin hafa tíma til að athuga frv. eða breyt. við það. Og hvaða dýrmæti er svo það, sem hér er um að ræða? Jú, það er bara það, að koma einu af stefnumálum socíalista fram og hækka verð á tóbaki um 15–20%. Það er þetta bjargráð, sem stjórnarflokkurinn leggur svo mikið í sölurnar fyrir, að nái fram að ganga, að allar venjur eru brotnar. Þetta er á sama tíma og þingið skilur við mörg þjóðþrifamál óútrædd. Ég hygg, að það megi spá því, að þau mörgu hafnarmál, sem liggja fyrir, eigi ekki að ganga fram. A. m. k. sýnir nál. það, sem nú er útbýtt frá sjútvn. Ed., að það hefir ekki orðið þar samkomulag um þessi hafnarmál, svo það virðist svo sem þau eigi að stranda þar enn á ný. En stefnumálum socialista stendur svo mikill byr undir báða vængi hér í þinginu, að brotnar eru allar venjur til að koma þeim fram, svo nærri stappar broti á þingsköpum.

Það er óneitanlega eftirtektarvert þetta, sem hér er að fara fram, og ekki síður, þegar sjálfur tóbakskóngur Íslands, hv. 3. þm. Reykv., virðist sækja málið af kappi. Og í sambandi við þetta vil ég benda á það, sem skeði í hv. Ed., þar sem stjórnarliðið, að viðbættum og með hjálp hv. 2. landsk., sem er socialisti, felldi þá till., sem hv. 1. landsk. bar fram, um að forstöðumaður eða starfsmenn tóbakseinkasölunnar mættu ekki taka við umboðslaunum handa sér né fyrirtækjum, sem þeir væru nákomnir, hvorki frá framleiðendum né öðrum firmum, sem tóbakseinkasalan ætti að verzla við. Það skyldi þó ekki vera, að það væri í uppsiglingu einhver kaupskapur í stórum stíl, sala á tóbaksvörum í heildsölu. Það er a. m. k. mjög einkennilegt, að aðalhvatamaður að því að breyta Tóbaksverzlun Íslands h/f í Tóbakseinkasölu Íslands, skuli einmitt vera þessi tóbakskóngur, sem ég minntist á áðan. Og þegar svo er, greinilega eftir flokkssamþykkt, drepin till., sem kemur fram í Ed, um að forstöðumaður og starfsmenn þessa fyrirtækis megi ekki veita umboðslaunum af vörunni móttöku, þá er það bert, að það hafa einhverjir ákveðnir samningar verið gerðir, sennilega til hagsmuna fyrir báða aðila.

Það er sannað í þessu máli, að tóbakseinkasalan, meðan hún stóð, gerði það að verkum, að tekjur ríkissjóðs minnkuðu, en varan varð bæði verri og dýrari fyrir landsmenn. Þessu vill nú stjórnarflokkurinn stefna í sama horf. Þegar tóbakseinkasalan var afnumin af Sjálfstæðisflokknum, þá hækkaði hann tóbakstollinn til þess að skerða ekki tekjur ríkissjóðs, en samt sem áður lækkaði tóbakið í útsölu, þegar verzlunin með það varð frjáls. Allt önnur leið er farin hjá núv. þingmeirihl. Þegar þessi þingmeirihl. vill ennþá velta einkasölufarginu ofan á þjóðina, þá á ekki að lækka tóbakstollinn aftur, sem vitanlega ætti þó að vera. Nei, það á að láta tóbakstollinn vera óbreyttan, og taka svo að auki 300 þús. króna tekjur, sem hv. flm. hefir gert ráð fyrir, og bæta þeim við sem aukaálagningu á þjóðina, því það liggur í augum uppi, að svo verður, ef ekki á að lækka tollana. Það getur vel verið, að þessi „transaction“ sé góð fyrir Tóbaksverzlun Íslands h/f, að geta velt öllu yfir á ríkissjóðinn, en fyrir þjóðina er hún áreiðanlega ekki búhnykkur.

Annars verð ég að segja, að mig furðar á, að framsóknarmenn skuli vinna ennþá með svo miklu kappi að stefnumálum socialista. Því að undanfarandi árabil, sem þeir hafa unnið sameiginlega að stefnumálum socialista, framsóknarmenn og socialistar, hafa þau að mörgu leyti orðið til ills eins fyrir þjóðina. Og í stærsta málinu, sem snertir atvinnu og framleiðslu landsmanna svo mjög, hefir þessi samvinna orðið til mestrar bölvunar. Ég á við síldareinkasöluna. Hún hefir orðið til þess að eyðileggja síldarútveginn sem atvinnugrein fyrir landsmenn, og það er ekki útlit fyrir annað en að hún muni verða sjálfdauð. Eftir nýjustu fregnum að norðan er útlit fyrir, að sjómenn muni bera úr býtum 350–400 kr. fyrir 2 mánaða starf. (ÓTh: En sjómenn á skipum, sem óháð eru síldarsölu til síldareinkasölunnar, munu hafa um 800 kr. fyrir sama tíma). Þetta er svolítið sýnishorn af því, hver árangurinn verður, þegar Framsókn lætur socialista kaupa sig til fylgis við stefnu þeirra í atvinnumálum.

Það liggur ekki fyrir nú að reyna að bæta úr þessu, og frv. um það hefir enn ekki komið til 2. umr., enda þótt það sé fyrir löngu flutt af sjálfstæðismönnum, og er þar farið fram á að gera breyt. á fyrirkomulagi síldareinkasölunnar. En það hefir verið tafið svo í n., að ég sé ekki fram á, að það komi hér til umr.

Hér er Framsókn að vinna eitt skemmdarverkið enn, fyrir tilverknað, atbeina og áeggjan socialista. Þetta mál er náttúrlega ekki eins þýðingarmikið eins og það, að Framsókn hefir látið draga sig til að eyðileggja atvinnu landsmanna. En það er alveg jafnskaðlegt sem stefnumál, þar sem það er að sínu leyti litlu óskaðlegra fyrir þessa atvinnugrein en síldareinkasalan fyrir síldveiðarnar. En svo er það nú aðferðin, sem höfð er við að koma þessu fram. Það er svo sem ekki verið að fara í neinar grafgötur með aðferðina, þegar svona vinnubrögð eru við höfð. Ekki einu sinni er hugsað um að láta þetta líta almennilega út. Í hv. fjhn. láta framsóknarmenn líklega um að taka málið til athugunar, og nm. ganga jafnvel inn á að breyta þurfi frv. Svo næsta dag er það komið á dagskrá, og þá á að reka það í gegn, án þess að n. hafi gefizt tækifæri til að gera athuganir sínar eða koma fram með brtt., nema þá skriflegar. Þetta er alveg óafsakanleg meðferð á máli, nema svo sé, að það megi ekki dragast. En hver ætli yrði fyrir þeim skaða, þó að þetta mál dragist, nema þá e. t. v. Tóbaksverzlun Íslands h/f. En ég skil nú samt ekki, að henni sé sú lífsnauðsyn að fá ríkiseinkasölu á tóbaki, að það þurfi að flýta því svona. Eldspýtur voru nú teknar með í þessu frv., þegar það kom til þingsins, en þær slitnuðu aftan úr í hv. Ed. (VJ: Stór sigur fyrir íhaldsmenn). Annars er það tilgangur socialista að hafa allar vörur í einkasölu.

Þær láta kynlega í eyrum, raddir socialista hér í hv. d. um samvinnu milli sjálfstæðis- og framsóknarmanna, þegar litið er á gang þessara mála, einmitt á meðan verkin tala um það, að samvinnan milli Framsóknar og socialista er í fullum blóma. Enda sagði hv. 3. þm. Reykv., að hann ætti nú meira undir sér gagnvart stjórnarflokknum en áður. (HV: Hvenær?). Hv. þm. sagði, að ekki myndi verða amazt við því, þó að hann talaði nokkuð lengi í þetta sinn, þó svo hefði verið gert áður. — Verkin tala hér um það, að Framsókn lætur enn socialista ráða stefnu sinni í atvinnumálum þjóðarinnar eins og undanfarið. Framsókn hefir selt sjómenn og útgerðarmenn við síldarútveginn undir ánauð socialista og jafnvel kommúnista. Saga þeirra afreksverka, sem liggja eftir fyrrv. forstjóra síldareinkasölunnar, Einar Olgeirsson, er ekki falleg. Einstakir stórútgerðarmenn hafa verið „favoriseraðir“ af síldareinkasölunni, allt á kostnað sjómanna og smábátaeigenda, og allt þetta hafa socialistar og Framsókn verndað. Hvílir þung ábyrgð á meiri hl. þingsins viðvíkjandi afkomu síldarútvegsins. (HV: Er það að samþ. tóbakseinkasöluna?). Tóbakseinkasalan var samþ. til þess að þóknast þeim socialistunum. En hitt er þó meira, hvað stj. hefir gert smábátaútveginum til miska með síldareinkasölunni. Með aðgerð meiri hl. þingsins í því máli hefir brauðið verið tekið frá börnunum og því kastað fyrir hundana. Er nú svo komið málum norður þar, að við eigum ekki aðeins við Norðmenn að keppa, heldur líka Dani, Svía og Finna. Þetta hefir síldareinkasalan gert að verkum. Íslendingar eru orðnir að hornrekum með vörur sínar, og bátaútvegurinn er rekinn með stórtapi ár eftir ár. Kunnugir segja, að nú sé sama, hvort Framsókn og jafnaðarmenn vilji halda áfram síldareinkasölunni; hún sé sjálfdauð, hvort sem er. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að það er tóbakseinkasalan, sem á dagskrá er). Það er ekki hægt að tala um þetta mál án þess að minnast á stærstu skemmdarverk þessara bandamanna, socialista og framsóknarmanna, grípa á stærstu kýlunum, og ég er einmitt að gera það. Ég er að sýna þeim þm., sem vilja geðjast jafnaðarmönnum með því að láta landsmenn borga 15–20% meira fyrir tóbakið, hvernig einkasölubrask hefir yfirleitt gefizt. Þetta snertir stórmikið mál það, sem á dagskrá er. Þar sem þingmeirihluti framfylgir málum þessara manna, getur hann ekki búizt við öðru en að við andstæðingarnir bendum á ýms önnur mál í þessu sambandi til stuðnings okkar málsstað. Ég vil aðeins benda Framsókn á það, hvert hún er að fara, ef hún veit það ekki sjálf. Það er hlægilegt, þegar hv. 3. þm. Reykv. og flokksblað hans er alltaf að flagga með því, að sjálfstæðismenn hafi gert samninga við Framsókn, þegar sýnt er, að hann sjálfur og hans nótar eru einmitt að þessum samningagerðum. Við sjálfstæðismenn höfum hvert þingið á fætur öðru farið fram á það, að þingið útvegaði okkur lánsstofnun fyrir bátaútveginn. En Framsókn hefir haft lag á því þing eftir þing að koma málinu fyrir kattarnef. Hún hefir, án þess að beita sér beinlínis á móti því, svæft það í nefndum o. s. frv. Við höfum líka flutt frv. um breyt. á stjórnarskránni. (Forseti: Ég vil áminna hv. þm. um að gæta betur þingskapa; hann kemur hvergi nærri því máli, sem til umr. er). Ég er bara að taka dæmi, hæstv. forseti. Þessu mannréttindamáli hefir enginn gaumur verið gefinn, en tóbakseinkasöluna verður að knýja í gegn, þó að nærri stappi því, að þingsköp séu brotin. — Þeir menn sem fylgja ríkisverzlun og atvinnurekstri ríkisins, ættu manna helzt að vilja vaka yfir því, að þeir, sem starfa við ríkisreksturinn, geti ekki auðgað sjálfa sig á honum á óleyfilegan hátt. Ættu þeir að vilja sjá um það, að ríkisreksturinn bæri sem beztan árangur. Okkur hinum er meiri vorkunn, þó að við séum ekki að kosta kapps um að benda á, hvernig þetta mætti takast. Þó hefir farið svo við afgr. málsins í Ed., að fylgjendur stj. og jafnaðarmaðurinn þar felldu till. um það að tryggja, að forstöðumenn tóbakseinkasölunnar gætu ekki tekið umboðslaun sér til ágóða. Þessi varningur er þannig lagaður, að mikil samkeppni er um það hjá erlendum verzlunarhúsum að koma honum á markaðinn, og munu þau sækja það mál bæði með því, að hvert undirbjóði annað, og eins með borgun umboðslauna. Væri sérstök þörf í svona máli að fyrirbyggja misnotkun á þessu sviði. En nú hefir það borið við, að þeir, sem vilja ríkiseinkasölu, hafa fellt till., sem koma átti í veg fyrir, að forstöðumenn þessarar verzlunar taki á móti umboðslaunum í þóknunarskyni frá erlendum verzlunarhúsum. Þeir, sem berjast fyrir ríkiseinkasölu á vörum, hafa það alltaf á oddinum, að þetta sé gert, til þess að verzlunarstéttin taki ekki of mikinn ágóða af viðskiptunum. En það lítur svo út sem einhver eigi að hafa umboðslaunin, fyrst till. um það gagnstæða er felld. Hér er því bæði verið að gera vörurnar dýrari og stilla svo til, að einstakir menn geti rakað saman fé á umboðslaunatöku. Velferðarmál landslýðs, þau er sjálfstæðismenn hafa flutt hér á þingi, hafa ekki fengið náð þingmeirihl., heldur stefnumál 3. þm. Reykv. og hans félaga. Þetta er nú í sjálfu sér ekki nema gott, því að „fátt er svo illt, að einugi dugi“. Þetta getur valdið því, að fylgjendur Framsóknar úti um sveitir, sem fögnuðu í vor, af því að þeir héldu, að sambandið milli hennar og jafnaðarmanna væri að slitna, snúi nú baki við henni. Þessir menn fá sennilega að sjá það af aðgerðum þingmeirihl. í þessu máli, að það, sem hér er um að ræða, er þetta: socialistar hlaupast frá að styðja framgang mannréttindamálsins, réttlátrar kjördæmaskipunar. Þetta er gert í þágu Framsóknar, en þeir fá í staðinn fylgi hennar í tóbakseinkasölumálinu o. fl. slíkum. Þó að okkur sjálfstæðismönnum þyki illt, að góðir sveitabændur fylki sér hér á þingi um socialista, þá þykir okkur hinsvegar gott, að svo er til stillt, að fólk í sveitum og byggðum landsins getur séð, að gömlu hrossakaupin og prangið milli socialista og framsóknarliðsins á Alþingi eru enn í fullum blóma.