06.08.1931
Efri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

62. mál, útsvör

Frsm. (Pétur Magnússon):

Útsvarslögin frá 15. júní 1926 mæla svo fyrir, að gjalddagar útsvara skuli vera tveir á ári hverju: Í sveitum 15. júlí og 15. október, en í kaupstöðum fyrsti virkur dagur næsta mánaðar eftir lok niðurjöfnunar og 1. september. Það hefir þótt koma í ljós, að ekki sé heppilegt að rígbinda gjalddagana svo við vissa mánaðardaga, og er því farið hér fram á, að hreppsnefndir, með samþykki sýslunefnda, og bæjarstjórnir, með samþykki atvmrh., megi ákveða aðra gjalddaga á útsvörunum. Um þetta er óþarft að fjölyrða. Það sýnist vera sjálfsagt að gera þessa breyt., og það er alveg áhættulaust.

Hin breytingin, sem farið er fram á í frv. að gerð verði á þessum lögum, orkar kannske frekar tvímælis, Hún er í því fólgin, að dráttarvextir af ógreiddum útsvörum séu hækkaðir úr ½% í 1%. Ég býst við, að þessi till. sé aðallega flutt með tilliti til Reykjavíkur og stærri kaupstaðanna. Sumir hafa dregið að greiða útsvör sín af því að þeir hafa fé með lægri vöxtum frá því opinbera heldur en þeir fá annarsstaðar. Þessir dráttarvextir svara til 6% p. a., en lægstu bankavextir 7%. Þessvegna er farið hér fram á að veita nokkurt aðhald í þessu efni, svo að útsvör verði frekar greidd í réttan tíma. Auðvitað kann þetta að koma hart niður á þeim, sem ekki greiða útsvör sín á réttum tíma vegna getuleysis, en við það er erfitt að ráða.

Allshn. hefir haft frv. þetta til meðferðar, og leggur hún eindregið til, að það verði samþ. óbreytt.