24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (1676)

21. mál, sala viðtækja

Magnús Jónsson:

Mér skildist á hv. þm. Dal., að hann væri að sækja um leyfi til mín til þess að mega taka til máls. Það var satt, að ég setti nokkuð ofan í við hann í gær, af því að mér fannst hann vera með óþarfa belging, en hitt er misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi viljað banna honum að tala yfirleitt, enda skal ég nú gefa honum leyfi til að taka til máls, þegar hann langar til, í eitt skipti fyrir öll.

En annars stóð ég einkum upp til þess að spyrja hv. flm., hvað þetta breytta sölufyrirkomulag muni kosta ríkissjóð. Það er áreiðanlegt, að þetta eykur stórum kostnað ríkissjóðs við viðtækjaverzlunina. Ég hefi nú borið fram frv., sem bendir á leið til að losa ríkissjóð við þennan bagga. Og ég sé satt að segja ekki ástæðu til að vera að leggja mikinn kostnað og mikla áhættu á ríkið alveg að óþörfu vegna þessa fyrirtækis. Hv. flm. sagði, að áskoranir um breytt sölufyrirkomulag drifi hvaðanæva að þingi og stjórn. Þetta sýnir, hve óánægðir menn eru með þessa ríkisverzlun.