21.08.1931
Efri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

27. mál, einkasala á síld

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég stend aðallega upp til þess að lýsa yfir því, að ég tel ekki ástæðu til, að þessu frv. verði vísað til n. Það mundi eiga að ganga til sjútvn., og í henni á ég sæti, og nú er það svo, að hún er ekki skipuð nema 2 mönnum, og tel ég því rétt, að ég lýsi strax afstöðu minni til þessa frv., ef svo væri, að hv. meðnm. minn teldi ekki ástæðu til að fá frv. til meðferðar í n. Ég tek það fram strax, að frv. um svipað efni var hér á þingi í fyrra og þá komu fram brtt., sem gengu nálega allar í sömu átt og frv. er nú í þessum búningi. Ég hefi af sérstökum ástæðum, sem ekki er þörf á að greina hér frekar, fylgzt með gangi þessa máls í Nd., og get þess vegna strax lýst yfir því, að ef ég ætti að fjalla um málið í n., þá mundi ég mæla með því, að það yrði samþ. Ég geri ráð fyrir, að svo sé einnig um fleiri dm., að þeir hafi fylgzt með þessu máli, því að mér virðist svo sem allir flokkar standi að þessu frv., eins og það er nú. Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að fara að bera frv. saman við gildandi lög um þetta efni, en vil aðeins mæla með því, að frv. nái nú fram að ganga.