20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

354. mál, laun embættismanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ég þykist hafa ástæðu til að ætla, að stj. eða flokkur hennar ætli ekki að koma með frv. um framlengingu á þessum 1. á þessu þingi. Þess vegna tók ég upp þetta frv., með því að mér var ljóst, að ekki voru eftir nema örfáir dagar af þingtímanum, en hinsvegar tilfinnanlegt, ef öll dýrtíðaruppbót ætti niður að falla við næstu áramót. Það hefir verið um það deilt, hvort dýrtíðaruppbótin ætti að lækka um ¼ eða ekki. Ég veit ekki, hvernig þetta hefir verið afgr. úr Nd., en hvernig sem því liður, þá er það nauðsynlegt, að þetta komi til kasta þingsins, og stjórnarflokkurinn sýnir þá, hvort þessi lög eiga að falla úr gildi og engin dýrtíðaruppbót að koma til greina.

Eins og kunnugt er, áttu ákvæðin, sem snerta dýrtíðaruppbótina frá 1919, að gilda í 6 ár, til ársloka 1925. Síðan voru samþ. sum ákvæði launalaganna, sem fjalla um dýrtíðaruppbót, og framlengd til ársloka 1928. Ég veit svo ekki, hvort þau hafa einu sinni eða tvisvar verið framlengd síðan, til eins árs í senn. Það er víst, að þau falla úr gildi um næstu áramót. eins og sjá má af lögunum frá þinginu 1930. Ég vil því leyfa mér að stinga upp á því, að það komi til atkvæða þingsins, hvort þau verða framlengd eða ekki. Ég sting upp á því, að þau verði framlengd til ársloka 1933.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, ef þetta mál hefir fylgi og líkur eru til þess, að það geti gengið gegnum d., að þá haldi hann tvo fundi að þessum loknum, svo að málið verði afgr. frá d. Ég sé enga ástæðu til að setja það í n., því málið er svo einfalt. Þetta er aðeins ein lína, og í henni falin sú breyt., að fyrir orðin „til ársloka 1931“ komi: til ársloka 1933. Þetta er líka svo gamalt mál, að allir hv. þdm. vita, við hvað er átt. Það er ekki annað en að bera saman, hvort skakkt er vitnað í l. eða töluliði í frv. Ég sé því ekkert til hindrunar því, að það gangi fram nú. Það er talað um að slíta þingi um helgina, svo að það er ekki mikill tími til umsvifa. Það ætti að vera verk hæstv. stj. að sjá um slík lög og þetta, og ég ætla yfirleitt ekki að hlaupa í skörðin fyrir hana. En af því að svona var áliðið þings og það dróst, að stj. bæri þetta fram, þá sá ég ekki annað fært en að láta það koma til atkv., hvort hv. þm. vildu breyta svo til, að láta embættis- og starfsmenn ríkisins missa þá dýrtíðaruppbót, sem þeir hafa fengið á vinnu sína, eða ekki.