22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (1863)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Sveinn Ólafsson:

Ég verð að taka undir með hv. 1. þm. Rang. um það, að ef frv. verður samþ., verður það ekki allskostar hættulaust fyrir þau bæjarfélög, sem nota vilja þessi lög.

Ég verð að segja það, að mig furðar á, að þetta frv. skuli nú enn af nýju vera komið hér fram, eftir að hafa verið kveðið niður 4 sinnum á þingi, en jafnharðan gengið aftur. Svo magnaðir draugar eru þó fágætir.

Annars verð ég að taka það fram, og vil vekja eftirtekt á því, að ég get ekki betur séð en að sum ákvæði frv. ríði beint í bág við gildandi lög um forkaupsrétt á jörðum og öðrum landeignum. Frv. stangast beinlínis við gildandi lög um forkaupsrétt á jörðum, án þess þó að nefna þau eða fella þau úr gildi. Um jarðir er það svo, að fyrsta forkaupsrétt eiga nánustu ættingjar landeiganda, en að þeim frágengnum ábúandi eða notandi, og sveitarfélagið, ef nothafi afsalar sér réttinum. Þessi forkaupsréttur gildir að sjálfsögðu jafnt, þótt um jarðarhluta sé að ræða. Eftir forkaupsréttarlögunum er landeiganda heimilt að selja barni eða kjörbarni og systkinum eða foreldri, án þess að nokkur annar geti haft í móti sölunni. Forkaupsrétturinn er því fyrst hjá nánustu ættingjum, þá nothafa, en þar næst og loks bæjar- eða sveitarfélagi. En með ákvæðum þessa frv. eru þessi eldri ákvæði niður brotin. Ákvæði þessa frv. geta ekki staðizt að óbreyttum þeim lögum um forkaupsrétt á lóðum og löndum, sem ég hefi nefnt. Þar að auki er þetta frv. alveg óþarft, því að lögnámsheimild eftir 63. gr. stjórnarskrárinnar er vissasta leiðin til að tryggja bæjarfélagi þann rétt, sem frv. ætlar því. Og ég man ekki til, að í nauðsyn sveitarfélags eða bæjar hafi nokkurntíma verið neitað um slíka heimild af Alþingi. Ég álít með öllu óforsvaranlegt að samþ. þetta frv. eins og það liggur hér fyrir og tel slíka lagasetningu ósamboðna Alþingi.

Eins og að undanförnu mun ég greiða atkv. á móti frv., því að í sjálfu sér er þetta hégómamál og jafnvel eins líklegt til að verða bæjarfélögum að tjóni sem gagni. Eftir ákvæðum frv. mundu allar gáttir opnar verða fyrir braskara, þegar bæjarstjórn einhver vildi áskilja sér forkaupsrétt, og verðið geta margfaldazt með samtökum seljanda og fasteignaprangara. Þá mundi lögnámsleiðin reynast miklu öruggari, því þar mundu dómkvaddir menn meta lönd og mannvirki og þar yrði síður komið við hrekkjum og fjárdrætti.

Ég skal svo ljúka máli mínu og ekki tefja tímann lengur.