20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Frsm. (Einar Árnason):

N. hefir nokkuð athugað þetta mál. Hefir hún fengið um það skriflega umsögn hins setta landlæknis og fengið Hannes lækni Guðmundsson, sem er sérfræðingur í þessum sjúkdómum, til viðtals.

N. er sannfærð um, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða og að óhjákvæmilegt muni að gera frekari ráðstafanir í þessum efnum en núgildandi löggjöf ákveður. En n. var það ljóst, að ef gera ætti verulegar umbætur á þessu sviði, þá myndi það hafa allmikil aukin útgjöld í för með sér. Það var sú hlið málsins, sem n. treysti sér ekki til að gera till. um, nefnil. hvernig ódýrast verði að útvega þeim sjúklingum spítalavist, sem á henni þurfa að halda. Þess vegna leggur n. til, að d. afgreiði málið nú til hæstv. stj. með rökstuddri dagskrá, og að stj. rannsaki það, í samráði við hina hæfustu menn, hvernig þessum málum verði bezt fyrir komið, og leggi þær niðurstöður síðan fyrir næsta þing. Með þessu telur n., að málið komist á beztan grundvöll, bæði hvað aðbúnaði sjúklinga og kostnaði viðvíkur.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en vil aðeins leggja til, að rökst. dagskráin á þskj. 341 verði samþ.