22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Ég heyrði ekki fyrri hlutann af ræðu hv. frsm. Ég varð að hverfa frá. Hinsvegar finnst mér brtt. ekki eins veigamiklar eins og hann vill telja, t. d. lántakan fyrir milligöngu Landsbankans. Mér finnst ekki mikil þörf á þessu, og ekki heldur ástæða til að amast við því. En þar sem ríkisstj. er hér aðeins veitt heimild til þess að ábyrgjast lán, þá finnst mér, að meiri hl. ætti að geta treyst stj. til þess að ganga aðeins í slíka ábyrgð, að lántakan sé í lagi. — Þá virtist frsm. meiri hl. álíta, að af því kynnu að geta stafað lánstraustsspjöll,ef einhverjir færu að fá lán út á ábyrgð ríkissjóðs. En slík ákvæði eru engin trygging fyrir því, að einhverjir fari ekki að garfa í að fá lánið. (IP: Hvaðan hafa þeir umboð?).

Hvaðan höfðu þeir umboð; sem á síðasta vori voru að útvega einni ríkisstofnun lán? Ég hefi ekki trú á, að þetta spilli lánstrausti landsins. Þá væri yfirleitt auðvelt að eyðileggja lánstraustið. Ég skoða brtt. meinlausar og get fallizt á að samþ. þær í því trausti, að málið verði afgr. frá þessari hv. d. og til Nd.

Um höfnina á Dalvík telur meiri hl. nauðsyn að breyta 4. gr. þannig, að hafnarmerkin séu ekki ákveðin. En alveg samskonar ákvæði og eru í frv. um Dalvík eru í frv. um höfn á Akranesi. En í 18. gr. frv. um höfn á Dalvík er mælt svo fyrir, að ákveða skuli þetta með reglugerð, sem hreppsnefnd semur og ráðh. staðfestir. Ég sé ekki betur en að þessu mætti bjarga, þó að þessi ákvæði séu sett inn í frv. Þessu mætti breyta með reglugerð, ef það sýndist hentugra. Sé ég svo ekkert á móti því, að frv. gangi fram.