08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2020)

9. mál, brúargerðir

Einar Árnason:

Þegar þetta frv. kom til 2. umr., leit ég svo á, að rétt mundi að halda frv. óbreyttu eins og það var samið af vegamálastjóra og flutt af stj. Ég gerði ráð fyrir því, að ef farið væri að bæta nýjum fyrirhuguðum brúm inn í frv., mundi það verða til þess, að fram kæmi fjöldi slíkra till., því að allir þm. munu hafa meira eða minna af óbrúuðum ám á samvizkunni. Ég greiddi því atkv. á móti till. samgmn., sem hnigu að því að bæta nokkrum brúm inn í frv. Till. n. voru nú engu að síður samþ., og úr því að svo fór, þóttist ég skilja, að opnuð væri leið til að bæta enn nokkrum brúm inn í frv., og hefi ég því ekki séð ástæðu til að hliðra mér hjá að flytja brtt. við frv. nú. Flyt ég þó aðeins eina brtt. við frv., á þskj. 155, þar sem ég fer fram á, að tekin verði upp í brúarlögin væntanleg brú á Smjörhálsá í Öxarfirði. Vil ég taka það fram, að ég flyt þessa till. samkv. tilmælum hv. þm. N.-Þ. Á þessari á er að vísu gömul timburbrú, en hún er komin að falli, og er því nauðsynlegt að byggja þarna nýja brú. Áin er hinn versti farartálmi: liggja að henni háir bakkar beggja vegna frá og er hún því oft ill yfirferðar. Hinsvegar er þarna mikil umferð, t. d. þarf að reka afréttarfé yfir ána haust og vor. Eftir því, sem kunnugir segja mér, er gott um brúarstæði á þessari á og brúin mun ekki þurfa að vera nema 6 m. löng, svo að hún ætti ekki að þurfa að verða neitt sérstaklega dýr, þegar að því kemur að byggja hana. Að því leyti virðist ekki mikið í ráðizt, þó að þessari brú verði bætt inn í frv., úr því að á annað borð var farið að auka brúm inn í frv. — Hefi ég svo ekki meira um þetta að segja, en vænti þess, að þessi brú verði látin sæta sömu örlögum sem brýrnar, er teknar voru inn í frv. við 2. umr., og að þessi brtt. mín nái fram að ganga.