20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2052)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 4. þm. Reykv. spurði, hvaða trygging væri fyrir því, að sjóðurinn fengi sitt. Ég verð að svara honum því, að ég veit ekki betur en að stj. hafi greitt öll lögboðin gjöld, enda hefir hún miklu frekar verið ásökuð til þessa fyrir það að inna af hendi greiðslur fram yfir það, sem lögboðið hefir verið. Ég hefi því enga ástæðu til að ætla annað en að svo verði það einnig hér.

Ég þakka hv. þm. V.-Ísf., og raunar hv. 4. þm. Reykv. líka, fyrir góðar undirtektir við þetta mál, þótt þeir kæmust að töluvert ólíkri niðurstöðu eins og títt er um mæta dómara.

Hv. þm. V.-Ísf. minntist á þá leið, að stj. gæti frestað framkvæmdum til erfiðu áranna, þótt fé væri veitt til þeirra áður í fjárl., en ég hygg, að slíkt yrði með öllu óframkvæmanlegt hér, því að þau héruð, sem hlut eiga að máli, ganga hart eftir sínu og sú stj., sem að völdum situr, vill halda vinfengi kjósenda. Þess vegna álít ég hitt heppilegra, að ákveða vissa hundraðstölu, sem renna skuli í þennan sjóð. En ég sé ekki annað en að hitt hlyti að vera gott, að ríkisstjórnir gerðu áætlanir til margra ára um framkvæmdir, þannig að þegar atvinnuleysi ríkti, væri hægt að snúa sér að þeim framkvæmdum, sem þegar væri búið að áætla.

Það er svo mikið ógert í landi hér, að auðvelt virðist hverri stjórn að láta gera áætlanir 6 ár fram í tímann, og slíkar ráðstafanir myndu harla þarfar, ef harðnaði í ári.