20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég á brtt. við frv. eins og ég boðaði við 2. umr., og er hún á þskj. 340. Tilgangurinn með brtt. er sá, að Rvík, sem í frv. er skyldug til að taka við Skildinganesi eftir mati, geti hafnað því, ef bæjarstj. álítur það of dýrt. Mér finnst það ósanngjarnt að setja lagaboð um það, að bærinn sé skyldugur að kaupa Skildinganes. hvað svo sem það kostar.

Hv. 2. landsk. ber fram till. um skipun matsnefndar. Ég sé ekki, að réttur Rvíkur sé betur tryggður þar en áður. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja mikið um þetta. Hv. þdm. geta gert sér grein fyrir, hvað í brtt. liggur, sem sé, að Rvík sé frjáls að kjósa eða hafna.

Það er upplýst, að Kjósarsýsla er mótfallin sameiningunni og Seltjarnarneshreppur einnig. Um afstöðu Rvíkur er ekkert upplýst annað en það, að hún er samþykk því, að allur Seltjarnarneshreppur verði lagður undir Rvík, en hefir ekki tekið neina afstöðu til Skildinganess. Það er því hæpin lagasetning að skylda þessa 3 aðila til að hlíta þessu án vilja nokkurs þeirra. Brtt. er borin fram í þeim tilgangi að gera Reykjavík þetta hagkvæmara, og ég sé ekkert til fyrirstöðu því, að þetta ákvæði verði sett inn í l. Sameiningin er jafntryggð eftir sem áður. Þetta ákvæði er aðeins hemill á það, að ekki verði farið fram á meira verð en sanngjarnt er og Rvík megi við una. Það er alger misskilningur, að þessi brtt. sé borin fram til þess að koma málinu fyrir kattarnef, því frv. þarf að fara til Nd. hvort sem er. Það er fjarri því, að þetta þurfi að tefja málið.

Till. við 2. gr. er aðeins orðabreyt., eins og ég lýsti við 2. umr., og ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. geti fallizt á hana. En annars legg ég ekki sérlega mikið upp úr henni. Mér þætti aðeins betur á því fara, úr því að frv. verður hvort sem er að fara aftur til Nd.