20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2131)

31. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Þetta frv. var flutt á þinginu í vetur af fulltrúum Alþýðuflokksins eins og nú. Það var rætt hér við eina umr., en n. hafði ekki skilað áliti, þegar þingið var rofið.

Ástæðan til þess að frv. þetta er fram komið er sú, að það eru sífellt að verða háværari umkvartanir um það, einkum frá foreldrum og kennurum, að ólag sé á útgáfu skólabóka og þeim sé í ýmsu áfátt, bæði að efni og frágangi; þær séu t. d. illa prentaðar, ósamræmi í stafsetningu, pappírinn slæmur, band ósmekklegt og endingarlaust o. fl., o. fl. svo að ekki sé minnzt sérstaklega á innihaldið. Margar bækur eru til um sama efni, algerlega að óþörfu, en aftur skortir fjölda nauðsynlegra bóka, og er það t. d. ekki með öllu vansalaust, að engin kortabók með íslenzkum nöfnum skuli vera til, sem hægt sé að nota í íslenzkum skólum.

Í þessu efni er af engum neins að krefjast, því að þó að eitthvað sé að, er ekki að neinum að ganga. Það kemur líka hart niður á fátæklingum, hversu þessar bækur eru dýrar. Úr mörgum þessum göllum mætti ef til vill bæta með því að fela einu forlagi bókaútgáfuna, og ég hygg, að með því móti væri séð fyrir því, að bækur þyrfti ekki að skorta og að meira samræmis væri gætt í bókagerðinni. En hinsvegar myndu bækurnar ekki lækka í verði fyrir slíka ráðstöfun, því að öll einkafyrirtæki myndu að sjálfsögðu fyrst og fremst reyna að græða sem mest á útgáfunni. Hygg ég, að ekki geti orðið ágreiningur um, að ríkisforlagi einu væri bezt treystandi til að gæta alls þess, sem krefjast ber af slíkri starfsemi: Góðra bóka, vandaðs frágangs, nægra birgða, hæfilegrar fjölbreytni, en ekki óþarflegrar, og sanngjarns verðs. Ég hefi lesið yfir umr., sem fór hér fram í vetur, og ég hefi eiginlega engu við það að bæta, sem hv. þáv. flm. sagði um þetta mál. Og þær mótbárur, sem fram komu þá, virðast mér svo léttvægar, að ég sé ekki ástæðu til að minnast á þær nema nýtt tilefni gefist til.

Ég skal aðeins geta þess, að við höfum gert lítilsháttar breyt. á frv. frá því, sem það var, og er aðalbreytingin við 1. gr. Í frv. eins og það var lagt fyrir þingið í fyrra var gert ráð fyrir því, að ríkið gæfi út allar löggiltar skólabækur. Ég hygg, að þetta ákvæði sé óframkvæmanlegt, því að menn verða að viðurkenna eignarrétt höfundanna, sem hafa samið bækur, eða þeirra manna, sem útgáfuréttinn hafa fengið löglega í hendur, og að ríkisútgáfan geti ekki gefið bækur út, jafnvel þótt þær séu löggiltar, nema samningar takist við eigendurna um útgáfuna. Þótt við flm. berum ekki nema takmarkaða virðingu fyrir eignarréttinum, þá hyggjum við líka, að það væri í skakkan stað borið niður að ráðast á bláfátæka barnakennara, sem aðallega semja skólabækurnar, til þess að þröngva þeirra kosti með því að hafa að engu eignarrétt þeirra yfir handritum þeirra og bókum. Ég óska þess, að þetta mál fái að ganga til 2. umr., og ég tel ekki ástæðu til þess að mæla á móti, að því sé vísað til nefndar, og þá til menntmn., sízt ef hún vildi vera svo frjálslynd að leyfa okkur flm. að tala við sig um málið áður en hún afgreiðir það.