21.07.1931
Efri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

19. mál, Rafveitulánasjóður Íslands

Flm. (Jón Baldvinsson):

Undanfarin ár hefir mikið verið rætt á Alþingi um nauðsyn þess að virkja þau vatnsföll landsins, sem til þess væru hentugust, og leiða rafmagnið til kaupstaða og einnig til sveita, þó að það sé ennþá lítt undirbúið. Menn vita það, að kaupstaðir og kauptún geta staðið undir rafmagnsvirkjun, vegna þess að þar er mikið rafmagn notað á tiltölulega litlu svæði og því hægt að fá þar mikið afgjald. Þess vegna geta rafveitur fyrir kaupstaði borið sig. Nú hafa flestir kaupstaðir komið sér upp rafveitu, sumstaðar með vélum, en það er ákaflega óhentugt og hefir farið illa. Það er dýrt að koma þeim upp og dýr rekstur, og væri því mikils um vert, ef hægt væri að taka vatnsafl í staðinn til þess að framleiða ljós og hita. En til þess að koma þessu í framkvæmd í kaupstöðum og kauptúnum, og að svo miklu leyti sem hægt er í sveitum, þarf fé. Ríkissjóður þarf því að styðja þetta. Kaupstaðir munu geta staðið undir þessu sjálfir, en geta ekki hafið verkið, þó að þeir geti svo framvegis staðið undir því. Þess vegna verður að leita lags að finna möguleika til þess að leggja fram fé í þessu skyni. Þetta frv. um rafveitulánasjóð Íslands er tengt við frv. um tóbakseinkasöluna, og er ætlazt til, að 250–300 þús. af tekjum tóbakseinkasölunnar verði lagðar í þennan sjóð.

Í grg. frv. er gert ráð fyrir, hvernig þetta mundi verða í framkvæmdinni. Á bls. 4 eru taldir upp nokkrir kaupstaðir, sem hægt væri að styrkja úr sjóðnum. Auðvitað yrðu þessir kaupstaðir að leggja fram fé líka, en þeim mundi verða það kleift, svo framarlega sem ríkissjóður legði til stærsta hlutann, þó að það væri að láni.

Frv. lá fyrir Nd. í vetur. Ég man ekki, hvort það var komið þar úr nefnd, þegar þinginu lauk. En það er ákvæði a. m. k. í 2. gr., sem vafi er, hvort getur staðizt nú, en frv. er nú eins og það lá fyrir á síðasta þingi. Þar er sem sé gert ráð fyrir, að lögð verði fram árið 1931 ákveðin fjárhæð úr ríkissjóði sem stofnfé. Það er spursmál, hvort ekki þarf að laga þetta og flytja það yfir á árið 1932, en það væri hægt að laga í þeirri nefnd, sem ég legg til, að frv. verði vísað til, sem eftir eðli frv. ætti að vera fjhn.