11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

38. mál, vegalög

Pétur Magnússon:

Ég hefi leyft mér að flytja nokkrar brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Þær eru á þskj. 72 og 248. Um brtt. mínar á þskj. 72 þarf ég ekki mikið að segja. Hv. samgmn. hefir orðið sammála um að leggja til, að þær yrðu samþ., og jafnvel gengið heldur lengra, með því að bæta veginn frá Kljáfossbrú. Ég kann hv. n. beztu þakkir fyrir þessar undirtektir. Það var í raun og veru vangá, að ég orðaði brtt. um veg frá Kljáfossbrú eins og ég gerði. Ég er ekki svo kunnugur þarna, að ég hélt, satt að segja, að fjallvegurinn um Kaldadal næði að Húsafelli. En ég ætla aftur á móti að fara nokkrum orðum um brtt. mína á þskj. 248, af því að hv. frsm. minntist ekki á hana í framsöguræðu sinni.

Gnúpverjahreppur er sem kunnugt er einn norðaustasti hreppurinn í Árnessýslu, og er þar mjög erfitt með samgöngur. Þar eru varla aðrir vegir en troðnar moldargötur. Þær eru ekki bílfærar nema um hásumarið, og undir eins ófærar, ef blotnar. Það gefur að skilja, að það er algerlega ófullnægjandi fyrir hreppinn að hafa aðeins akveg um hásumarið; þarna munu vera um 30 býli, og ræktun hefir farið þar mjög í vöxt, og eru hreppsbúar mjög illa settir, að geta ekki komið vörum sínum á markað nema lítinn hluta árs. — Líka má líta á það, að nú hefir verið byggt gistihús í Þjórsárdal, og er vegaviðhald allt erfiðara vegna þeirrar miklu umferðar, sem þar er nú á hverju sumri. Þetta virðist því fullkomin sanngirniskrafa. Þess má geta, að á árinu 1930 var vegurinn upp Hrunamannahrepp, alla leið upp að Brúarhlöðum, tekinn í þjóðvegatölu. En ekki verður séð, að neitt réttlæti sé í því að setja þennan hrepp hjá, sem á þó enn örðugra um samgöngur, og enginn þjóðvegur er í námunda við hann.

Ég vona, að hv. þdm. sjái af því, sem ég hefi sagt, að það er ekki ófyrirsynju, að þessi vegur sé tekinn í þjóðvegatölu.

Þetta er um þörfina; en ég vil líka minnast nokkuð á vegarstæðið. Þarna er um tvær leiðir að ræða. Önnur er syðri leiðin, eins og sýsluvegurinn liggur, af Skeiðavegi um Þrándarholt, hjá Þjórsárholti og áfram, — en hin leiðin, sem hér er lagt til að farin verði, er frá Laxárholti, norðan við Skarðsfjall, um Geldingaholt og að fyrirhuguðu brúarstæði á Þjórsá hjá Þjórsárholti. Ég hefi náttúrlega ekki nægilegan kunnugleika til þess að geta dæmt um, hvor leiðin sé heppilegri. Fyrir hreppsbúa er þó miklu heppilegra að fá nyrðri leiðina, því að þá yrðu það fleiri bæir, sem kæmu til að liggja að veginum. Ég byggi till. mína á áliti vegamálastjóra og vil geta þess, að hann hefir í bréfi til sýslumannsins í Árnessýslu, dags. 6. maí 1930, lagt eindregið til, að þessi leið yrði valin.

Ég skal ekki fara út í kostnaðarhliðina, en vil þó geta þess, að leiðin frá Laxárbrú að Kálfá er talin um 7 km., og á meginhluta leiðarinnar þarf að gera upphleyptan veg. Vegamálastjóri áætlar, að þessi vegagerð myndi kosta um 60 þús. kr., og vegarstæði á nyrðri leiðinni telur hann bæði betra og heppilegra að öllu samanlögðu. Þess er einnig að gæta, að hinn sameiginlegi þjóðvegur verður með þessum hætti miklu lengri, eða alla leið upp að Laxárbrú, en annars, ef syðri leiðin væri valin, yrði að fara út af núverandi þjóðvegi miklu sunnar.

Ég hefi þá gert grein fyrir þessari till. Ég vil geta þess, að ég flutti þessa till. svo seint m. a. af því, að ég bjóst við, að hv. 2. þm. Árn. myndi flytja hana, og ég vildi ekki taka fram fyrir hendur hans sem þm. kjördæmisins, en taldi þó ekki rétt að bíða lengur en til 2. umr., þegar hún kom ekki fram.

Ég vænti þess, að hv. þdm. taki vel undir þetta mál, sem vissulega er mikið nauðsynjamál fyrir þá sveit, sem hér á hlut að máli.