20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2420)

38. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það út af orðum hv. 2. þm. Rang., að ef nokkuð er broslegt í þessu máli, þá er það áhugi sá, sem kemur fram hjá honum. Mér virðist þessi áhugi vera mjög í samræmi við þá litlu þekkingu, sem ég hefi af honum haft þessa stund, sem hann hefir verið á þingi, þessi brennandi áhugi hans að þvælast fyrir og reyna að hefta framgang þeirra mála, sem ekki snerta hann persónulega eða hans kjördæmi.

Þetta, hvort málið verður tekið fyrir í dag eða ekki, á því veltur, hvort nokkrar líkur eru fyrir því, að málið nái að komast fram á þessu þingi. Takist hv. 2. þm. Rang., sem nú hefir hlaupið fram fyrir skjöldu hjá n., að fresta 2. umr. í dag, þá er það útilokað, að frv. komist fram á þessu þingi, þar sem nú er komið að þingslitum. Hv. 1. þm. S.-M., sem orðinn er frægur að endemum fyrir að vilja sporna á móti öllum framförum, hefir nú fengið góðan liðsmann, þar sent hv. 2. þm. Rang. er, og hann sparar sig ekki heldur þegar um það er að ræða. Það eru framsóknarmenn í lagi þetta!

Það, sem hv. þdm. verða að taka til athugunar við atkvgr. um það, hvort málið skuli tekið út af dagskrá, er það að sú atkvgr. sker úr því, hvort málið kemst í gegn á þessu þingi eða ekki. Þó að nál. sé ekki komið enn, þá er það ekkert nema yfirskinsástæða, úr því þeir á annað borð viðurkenna, að þeir séu búnir að taka sína endanlegu ákvörðun um málið. Það getur ekki gert neinn mun, hvorki til né frá, hvort þeir skýra frá áliti sínu í ræðuformi eða nál., svo að það þarf hér ekki eftir neinu að bíða. En samgmn. álítur, að það sé sér hreint og beint sáluhjálparatriði að fá vilja sínum framgengt í þessu efni. Það er því ekki nema eðlilegt, að þessi sálusorgari, hv. 2. þm. Rang., vilji hér vaka yfir heill og velferð sinna kæru samnm.

Ég vil því enn á ný benda hv. þd. á það, að atkvgr. um það, hvort taka eigi málið af dagskrá í dag, er aðeins atkvgr. um það, hvort málið nái fram að ganga á þessu þingi eða eigi að steypa því í þann drekkingarhyl, sem það er að vísa málum til nefndarinnar, svo hv. 2. þm. Rang. geti kastað þar á það rekunum.

Hv. 2. þm. Rang. var eitthvað að fleipra með það, að ef menn fengju ekki að sjá framan í þetta nál., þá muni málið verða afgr. í flaustri og hugsunarlaust. Þessi hv. þm. virðist líta svo á, að öll sú hugsun, sem hreyfist í heilum þessara 28 hv. þdm., sé innifalin í hans eigin heila og meðnm. hans í samgmn.: ef þeim standi ekki opin leið til þess að koma sínu áliti á framfæri, þá verði málið afgr. hugsunarlaust. Það er nú ekki smáræðis sjálfsálit, að ég ekki segi hreint og beint mont, sem stjórnar orðum þessa hv. þm.