03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Þorláksson:

Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í þetta mál út af ummælum hv. flm. En eins og frv. er nú orðað, þá felur það ekki í sér neina tryggingu um, að meira fé verði varið til vega en nú er gert. Það léttir að vísu af ríkissjóði nokkrum hluta af fé því, sem veitt hefir verið til vega. Og það er auðvitað, að fé losnar til umráða, annaðhvort fyrir Alþ. eða stjórnina. En þessa annmarka á frv. má auðvitað laga í n. og gera það t. d. í samræmi við það, sem ég hefi sagt um þörfina á að gera fullkomnari vegi. Ef það verður gert, þá kemur þar raunverulegur sparnaður, en viðhaldskostnaður hefir verið lítt viðunanlegur. En það er hægt að losna við hann að mestu leyti með því að koma vegunum í nútímahorf.

Það er ekki nægilegt, að vegamálastjóri ráðstafi þessu fé, því meðferð þess fer þá alveg eftir því, hvað ríkisstjórnin lætur hann fá mikið af öðru fé.

Ég skal geta þess í sambandi við ummæli hv. 1. þm. Reykv., að í Rvík eru vegarkaflar, sem eru mun lakari en þjóðvegir í nágrenni Rvíkur. Og þetta er af þeirri ástæðu, að Rvík hefir ekki haft efni á að koma sínum vegum í nútímahorf, svo að umferðin slíti þeim ekki árlega. Það mun því ekki vera nema réttmætt, að kaupstaðir og kauptún fái sinn hluta af skattinum, ef á að framkvæma nauðsynlegar umbætur á vegakerfinu.