19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hefi ekki í hyggju að gera hér að umtalsefni einstakar brtt., sem fram eru bornar af hv. dm. Ég á ekki sæti í deildinni né atkvæðisrétt, svo það er ekki ástæða fyrir mig til þess að blanda mér inn í þær umr. Ég álít hér eins og í hv. Nd., að till. fjvn. eigi mestan réttinn á sér. En ég hefi borið fram eina brtt. á þskj. 346, XI. Það hafa nú komið fram allmargar till. út af því kreppuástandi, sem nú er, og því atvinnuleysi, sem menn óttast að verði á komandi ári. Margar till. hafa komið fram af hálfu jafnaðarmanna, bæði við þessa umr. og 2. umr. fjárl. Hv. 2. landsk. þm. hefir borið fram róttækar till., þar sem landinu er ýmist einu ætlað að leggja til fé til framkvæmda, eða standa við hlið bæjarfélaganna í slíkum aðgerðum. Sjálfstæðismenn í Nd. báru fram till. um ½ millj. kr. framlag úr ríkissjóði í þessu skyni, án framlags á móti annarsstaðar að. Hv. þm. Hafnf. flytur till. um veg milli Hafnarfj. og Rvíkur gegn hálfu framlagi frá bæjunum. Af framsóknarmönnum var borið fram frv. í Nd., eins og kunnugt er. Ég lít svo á, að sú hugsun, sem þar kom fram, að taka þurfi til sérstakra ráða, þegar kreppir að, og að þeir, sem breiðara hafi bakið, þurfi þá eitthvað sérstakt á sig að leggja, sé rétt hugsun. Hinsvegar er vitanlegt, að frv. olli miklum ágreiningi, svo að ef gera hefði átt það frv. að lögum, hefði orðið að lengja þingið um 10–12 daga fram yfir það, sem ég vona að verði. Ég álít ekki rétt að stofna til þess. Hinsvegar álit ég ekki rétt, að ekki sé skýrt afmörkuð heimild í þessu efni. Ég hefi því borið fram þessa till. á þeim grundvelli, að skyldan til að sjá fyrir fólkinu hvíli fyrst og fremst á sveitar- og bæjarfélögunum, en að ríkið komi til aðstoðar þar, sem þess er brýnust þörf. Ég legg áherzlu á það, þegar ríkið stígur þetta spor, að þá sé ekki brotin meginreglan um, að framfærsluskyldan hvíli fyrst og fremst á héruðunum. Það er lögð áherzla á það, eins og hv. dm. geta séð, með því að hér eru sett skilyrði, sem eru borin fram að tilhlutun meiri hl. fjhn. Nd. Hér er í fyrsta lagi verið að stofna til náinnar samvinnu milli ríkisins og bæjarfélaganna, og í öðru lagi er gert ráð fyrir nefnd, sem aðstoðar í framkvæmdinni fulltrúa beggja þessara aðilja.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessa till. Ég tel ekki rétt að fara að lengja þingið til þess að afla tekna í þessu skyni, en áliti rétt að ná þessu fé inn með hækkun á tolli á áfengi og óþarfavarningi. Þessi atriði koma að sjálfsögðu fyrir næsta þing. Hinsvegar vildi ég vænta þess, að samkomulag yrði um að fara þessa leið: Að hafa heimild til taks og rannsaka starfið, en bíða að öðru leyti vetrarþingsins.