19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að till. annarsstaðar frá, og er þá fyrst brtt. hv. fjvn. við 17. gr., sem tekin er upp á ný, um að niður falli aths. viðvíkjandi Elínu Sigurðard. Ég tók það svo, að hv. frsm. segði, að þessi sjúkl. hefði ekki verið á sjúkrahúsi. Þetta er misskilningur. Frá því fyrsta að ég hafði kynni af þessum sjúkling, eða um 16 ár, veit ég ekki betur en að hún hafi alltaf verið á sjúkrahúsi, nema þau árin, sem hún hafði þennan sérstaka styrk til þess að geta dvalið utan sjúkrahúss. Ég held því, að þetta sé ekki neinn útgjaldaauki fyrir ríkissj. Hitt er rétt, að það er vafasamt, hvort þessi sjúklingur fellur að sjálfsögðu undir berklavarnalögin, og það er kannske hægt að koma henni út af sjúkrahúsi. En ég vil benda á, að það hefir ekki verið gert í öll þessi ár, og það er gert ráð fyrir, að hún verði eftir sem áður á sjúkrahúsi. Þess vegna skilst mér, að ekki sé um aukin útgjöld að ræða, þótt styrkurinn haldist, heldur sparnað, og sjúklingurinn ánægðari að geta verið annarsstaðar.

Þá er brtt. frá hv. 5. landsk., á þskj. 342,XXIII. lið, um að binda styrkveiting til Stórstúkunnar því skilyrði, að 1/3 sé varið eftir fyrirsögn kennslumálaráðuneytisins til að efla bindindisstarfsemi í skólum. Ég er satt að segja dálítið hræddur um, að slík fyrirmæli muni verka þveröfugt við tilganginn. Þeir, sem kunnugir eru nemendum í skólum og æskumönnum yfirleitt, vita, að þeim er ekki verra gert en þegar farið er að þvinga upp á þá einhverjum kenningum eða lífsreglum. Og ef farið er að setja ákvæði inn í löggjöf landsins um sérstakar ráðstafanir til að efla bindindi í skólum, er ég ákaflega hræddur um, að það hefði öfug áhrif við tilganginn. Ég get vísað til sjálfs mín, hvernig slíkt mundi verka á mig, og væntir mig, að sama sé um fleiri hér innan veggja. En auðvitað liggur það í hlutarins eðli, að Stórstúkan mundi fúslega vilja verja talsverðu starfi í það að efla bindindi í skólum landsins. En ég er á móti þessu ákvæði út af fyrir sig, af því að það mundi verka þveröfugt við tilganginn, og mætti jafnvel gera ráð fyrir, að skólafólki þætti sér bein móðgun ger með því að setja slík ákvæði inn í fjárl. Ég vil því mjög ákveðið mælast til þess við hv. d., að hún samþ. ekki þessa athugasemd.

Um till. hæstv. forsrh. um framlög til atvinnubóta hefi ég ekki nema gott að segja. Ég álít í raun og veru rétt að fara inn á þessa braut og víkja af þeirri braut, sem hæstv. stjórn eða flokksmenn hennar eru á. Því að ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það sé fyrst og fremst skylda sveitarfélaga að sjá fyrir þessu máli, þá finnst mér, að að því leyti sem þörf er ríkishjálpar, þá komi hún frekar af almennum tekjum ríkissjóðs heldur en beinlínis að fara í sama far og sveitarfélög verða að gera, þ. e. a. s. leggja á beina skatta til þess að standast kostnað. Ef eitthvert lið á að verða að þessu, verður að afla teknanna af tekjustofnum, sem sveitarfélög hafa ekki aðgang að, eins og raunar hæstv. ráðh. kom inn á, þar sem hann talaði um toll af ónauðsynlegum vörum.

Brtt. mínar, sem eru samtals á 3 þskj., eru margar endurteknar frá 2. umr. Ekki þó 1. till. á þskj. 342 við 3. gr., þar sem farið er fram á byggingarstyrk til sumarskýlis símamanna, 3 þús. kr., 2500 kr. til vara. Það hefir legið fyrir erindi um þetta frá fél. símamanna. Hafa þeir ráðizt í að byggja sér sumarskýli, til þess að geta dvalið þar sér til hressingar að sumrinu til. Tildrög eru þau, að Forberg sál. símastj. lagði 1000 kr. í sjóð í þessu skyni. Gert er ráð fyrir, að byggingin kosti 15 þús. kr., en ég verð að telja sómasamlegt, að ríkið styrki þetta að 1/5. Mér finnst sjálfsagt, að ríkið styrki fyrirtækið. Það vita allir, að símamenn vinna þreytandi vinnu, og því er þeim hin mesta þörf að geta lyft sér upp frá störfum og hvílt sig í kyrrð og næði úti í sveitaloftinu.

Þá er næst till. á sama þskj., við 14. gr., um það að mála í sal menntaskólans olíumynd af þjóðfundinum 1851. Sérstök þáltill. um þetta var flutt í Nd., en felld í þessari hv. d. og því haldið fram, að þetta ætti að taka í fjárlög.

Þá á ég till. á sama þskj., um að hækka kennslustyrk til Kvennaskólans í Rvík úr 21 þús. í 24 þús. kr. Hv. þdm. hafa fengið erindi frá stjórnarnefnd skólans, þar sem gerð er grein fyrir þessari þörf. Stundakennarar, sem annast að langmestu leyti kennslu við þennan skóla, hækkuðu kaup sitt, og það gekk yfir þennan skóla sem aðra. Þar með óx rekstrarkostnaður skólans um 6 þús. kr. Ég treysti mér nú ekki til að fara fram á, að þetta verði allt borgað úr ríkissjóði, en legg til, að helmingur verði greiddur. Ég veit ekki um ástæður fjvn. fyrir því að taka ekki upp þessa till., en ég skil ekki, hvernig skólinn á að standast þennan aukna kostnað nema með auknum styrk, því að hækkun á kennslugjaldi nemenda til þess að vinna þetta allt upp virðist svo tilfinnanleg, að gera má fyllilega ráð fyrir, að það mundi hnekkja aðsókn.

Þá hefi ég undir XVI. lið flutt till. um styrk til tónlistarskólans, en bætt við aths., að styrkurinn greiðist með því skilyrði, að að minnsta kosti 2 þús. kr. komi á móti úr bæjarsjóði Rvíkur. Ég drap á það áður, að líklega fengi skólinn þetta úr bæjarsjóði, en ég býst við, að hv. þm. telji aðgengilegra að fallast á styrk úr ríkissj., ef hann er beint bundinn því skilyrði, að bærinn meti þessa starfsemi svo mikils, að hann vilji eitthvað fram leggja til að halda henni uppi. Ég þarf vonandi ekki að endurtaka ummæli mín við 2. umr. um gagnsemi þessa skóla, býst við, að það sé öllum hv. þdm. ljóst.

Undir XVIII. lið á sama þskj. á ég tvær till., aðra um styrk til Péturs Jónssonar söngvara, 3 þús. kr. Ég þarf ekki að bæta neinu við það, sem ég sagði við 2. umr.; ég hefi lækkað upphæðina að svo miklum mun, að ég er ekki í vafa um, að hv. þdm. geta fallizt á hana.

Hin till. er um styrk til listamannsefnis, sem brotizt hefir áfram í mikilli fátækt til þess að læra að mála. Eggert Guðmundsson hefir stundað nám í 2–3 ár styrklaus af hálfu þess opinbera, og má segja, að furðu gegni, að hann hafi haldizt við við námið. Hann er af þeim, sem til þekkja, talinn mjög efnilegur maður í þessari grein, svo að það væri mjög illa farið, ef hann yrði að hætta. Ég hefi hér í höndum meðmæli frá kennurum hans, þýzkum prófessorum við skóla, er hann hefir sótt; og þau verða ekki betri kosin. Þeir kveða hann stórkostlegum gáfum gæddan, fullkomlega þess verðan að njóta styrks góðra manna eða þess opinbera, svo að hann þurfi ekki að láta bugast af búksorgum. Hann þyrfti að stunda nám í 2 ár enn, til þess að verða fullnuma. Ég hefi vottorð um það frá 2 próf. við þennan skóla, sem vitanlega hafa enga ástæðu til að mæla með honum með svo sterkum orðum, ef ekki eru efni til, að honum hafi farið mjög vel fram í skólanum og stundað námið af miklu kappi. Þegar maður spyr menn, sem honum eru kunnugir, hvernig hann hafi farið að kljúfa kostnaðinn og halda í sér lífinu, fær maður helzt það svar, að hann muni hafa lifað á viljaþrekinu. Mér finnst vel til fallið, að þetta viljaþrek sé viðurkennt með því að veita honum þennan litla styrk, sem farið er fram á.

Þá er XX. brtt., um að hækka fjárframlagið til fréttastofu blaðamanna úr 2000 í 3500 kr. Um þetta er það að segja, að fréttastofan hafði áður 3500 kr. styrk, en hann hafði verið lækkaður um 1500 kr., vegna þess að útvarpið hefir gengið í félag við blaðamenn um fréttastofuna og geldur til hennar 1500 kr. Var þá litið svo á, að ríkissjóðsframlagið til þessarar stofnunar mætti lækka sem næmi þeirri upphæð. Þetta tel ég vera alveg rangt. Fyrst og fremst er þess að geta, að útvarpið, sem hefir í félagi við dagblöðin not af fréttastofunni, og jafnvel meiri not af henni en nokkurntíma blöðin sjálf, er látið greiða um helmingi minna til fréttastofunnar en blöðin verða að gera. Útvarpið ætti vitanlega að greiða eins mikið og þeir, sem mest gagn hafa af starfrækslu þessarar stofnunar. Því meir sem fréttastofan er notuð, því meira verk á að leggja í starfrækslu hennar, og því meiri og fjölbreyttari frétta ætti hún að afla. Ég álít, að það sé gersamlega rangt að lækka styrkinn í hlutfalli við það, sem notkunin vex. Það er síður en svo, að fréttastofan eigi ekki að afla sem fjölbreyttastra frétta og starfa af fullum krafti og áhuga, þar sem notkunin hefir vaxið við það, að útvarpið kom til sögunnar. Því meiri ástæða er til þess að fullkomna starf hennar sem framast er unnt. Það er að öllu leyti óverjandi að lækka styrkinn, þrátt fyrir það, að útvarpið greiði þessa litlu upphæð. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að ef útvarpið ætti af eigin rammleik að sjá sér að öllu leyti fyrir fréttum, myndi það kosta margfalt á við það, sem útvarpið greiðir fréttastofunni, og sennilega margfalt á við allan ríkissjóðsstyrkinn til hennar. Fréttastofan er því eins og nú er komið beinlínis til sparnaðar, en ekki til útgjaldaauka fyrir ríkið.

Þá er XXVI. brtt. á þessu sama þskj., um hækkun á eftirlaunum Cathinku Sigfússon úr 400 upp í 600 kr. Hv. þdm. vita, að þessi kona er ekkja Jóhannesar heitins Sigfússonar kennara. Kona þessi er öldruð og mun ekki hafa annað fyrir sig að leggja en hinn litla ekkjustyrk, sem hún hefir fengið. Þessi mæti maður, Jóh. Sigfússon, var um margra áratuga skeið kennari. Við menntaskólann hér í Rvík var hann kennari frá árinu 1904. Áður hafði hann verið kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði um fjölmörg ár. Hann var maður vinsæll, enda mjög hjálpsamur og góðgjarn. Varð þetta m. a. til þess, að þau hjón efnuðust lítt á lífsleiðinni. Eitt var það, sem gerði það að verkum, að þessi mætu hjón áttu fremur örðuga fjárhagsafkomu, en það var það, að af sínum litlu efnum lögðu þau talsvert fé til styrktar fátækum skólanem. og höfðu að jafnaði fleiri og færri námsmenn á vegum sínum og styrktu þá á ýmsan hátt.

Mér finnst rétt að viðurkenna nú starf þessara mætu hjóna á þann hátt að sjá ekkju hins látna starfsmanns þjóðarinnar sæmilega farborða í ellinni, og vænti ég þess, að hv. dm. geti fallizt á að hækka eftirlaun ekkju hans eins og hér er farið fram á, þótt ég á hinn bóginn viðurkenni, að þau verði þá í hærra lagi en venja er til í hliðstæðum tilfellum.

Þá er enn brtt. á þskj. 346, III. Þar er tekinn upp á ný námsstyrkur til Valgarðs Thoroddsens, aðeins lækkaður um 200 kr.

Þá er ennfremur VI. brtt. á þessu sama þskj., um 500 kr. styrk til Vísindafélags Íslands. Erindi frá þessu félagi hefir legið fyrir fjvn., og er mér ekki kunnugt um, hvaða ástæður hún færir gegn því að veita þennan styrk, þar sem farið er fram á, að féð verði veitt í þeim tilgangi að standast kostnað við starfsemi félagsins.

Vísindafél. Íslands skiptist á ritum við erlend vísindafél. og kemur þannig á framfæri ísl. vísindaritum út um heim. Það fær sendar erlendar bækur, og dregur að landinu margvíslegan bókakost, sem landsmenn geta svo haft aðgang að. Það er allt útlit á því, að starf þessa fél. geti komið þjóðinni að töluverðu gagni. Fél. er skipað mörgum ágætum mönnum, sem vænlegir eru til mikilla afreka. Tel ég því ekki vera freklega í farið, þótt þess sé vænzt, að fél. verði veittur þessi 500 kr. styrkur. Vona ég, að hv. þdm. geti fallizt á að samþ. till.

Þá á ég tvær till. á þskj. 369. Hin fyrri er undir fyrsta lið, styrkur til Jakobs Lárussonar til hljómlistarnáms erlendis. Þessi maður hefir stundað hljómlistarnám hér á landi, og nú síðast hjá Haraldi Sigurðssyni í Kaupmannahöfn. Þessi ungi og efnilegi maður er fátækur og því styrkþurfi, ef hann á að geta lokið námi.

Inga Lára Lárusdóttir fékk styrk í fjárl. yfirstandandi árs og er nú erlendis til þess að vinna að söfnun á fyrirmyndum forns listiðnaðar. Hún gerði ráð fyrir, að sá styrkur, sem hún þegar hefir fengið, mundi nægja til þess að gera rannsóknir í þessu efni, en þegar til kom, sá hún, að úr svo miklu var að velja, að hún sér sér alls ekki fært að ljúka þessu ætlunarverki sínu á þeim tíma, sem ætlazt var til. Mun því styrkurinn, sem hún þegar hefir fengið, ekki nægja, svo að hún verður að hlaupa frá hálfunnu verki, ef henni verður ekki veittur frekari styrkur. Af þessum sökum er hér farið fram á 1200 kr. styrk, eða 1000 kr. til vara, til þess að hún megi halda þessu starfi sínu áfram og þurfi ekki að koma heim, en fara svo e. t. v. aftur. Það er bersýnilegt, að ólíkt örðugra er að þurfa þá að taka verkið upp af nýju heldur en að geta haldið óslitið áfram, auk þess sem kostnaðurinn hlýtur að verða meiri. Þótt ekki sé nema kostnaðurinn við ferðir á milli landa, þá getur hann einn aldrei numið minna en 500 kr. Úr því að Alþ. hefir nú einu sinni farið að veita styrk til þessa, álít ég, að sjálfsagt sé að veita þessa viðbót til þess að starf þessarar konu komi að fullum notum.