11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

Afgreiðsla þingmála

Halldór Stefánsson:

Af því að sum af þeim málum, sem verið er að spyrja eftir, eru fyrir fjhn. Nd., þykir mér rétt að minnast á, hvernig þar er komið störfum.

N. hefir afgr. frá sér 13 mál, en hjá henni liggja 7 mál óafgr. N. hefir haft þá starfshætti, að afgr. málin nokkurnveginn eftir því, sem þau hafa komið til hennar, þó þannig, að þau mál hafa verið látin sitja fyrir til afgreiðslu, sem n. öll eða hl. hennar hefir viljað mæla með. Þau mál, sem enginn nm. hefir viljað taka að sér að mæla með, hafa þá vitanlega dregizt aftur úr um afgreiðslu, enda ekki verið tími til að afgr. fleiri mál en afgr. eru á þeim tíma, sem enn er liðinn.

Ég býst við, að þegar hv. þm. Seyðf. talaði hér áðan um einn nefndarformann, þá hafi hann átt við mig. En hann hefir ekki skilið rétt það, sem ég sagði, að n. öll eða meiri hl. hennar þyrfti að vilja flytja mál, eða fylgja þeim, til þess að þau gætu fengið afgreiðslu. Ég sagði aðeins hitt, að þau mál hefðu orðið á eftir um afgreiðslu, sem enginn nm. hefði viljað mæla með. Það er engin hagsýni að afgr. mál úr n., sem hafa ekki það mikla samúð í d., að þau geti náð afgreiðslu í þinginu. Og það eru engar líkur til, að þau mál nái afgreiðslu þingsins, sem enginn nm. vill mæla með. Það skapar aðeins óvirkar umr., sem hafa enga aðra þýðingu en að tefja fyrir öðrum málum, að vera að afgr. slík mál frá nefnd.

Það er vitanlega hægt að gera flm. það til geðs að afgr. mál á svipaðan hátt og gert hefir verið af einni n., með þeirri yfirlýsingu einni saman, að n. sé sammála um að mæla á móti frv.