22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

Afgreiðsla þingmála

Jón Baldvinsson:

Það er undarlegt með hv. 1. landsk., að hann er að vonzkast út af því, að ég hefi ekki verið í sambandi við hans flokk á þessu þingi. Hvaða rétt hefir hann til þess að heimta, að við Alþýðuflokksmenn séum í sambandi við hann um öll þingmál? Hann heimtar, að ég hefði átt að kjósa með hans flokki í allar n., og ásakar mig nú fyrir, að ég hafi ráðið því, hvert hlutfall varð í n. í Ed. Hv. þm. getur engar kröfur gert til mín í þessu efni, og ég svara þar engu góðu til um.

Það er nú þannig um okkar flokka, að þeir eru andstæðir í flestum málum, og það er fátt eitt, sem við getum samþ. saman, þótt við séum í kjördæmaskipunarmálinu sammála um þann grundvöll, sem báðir flokkarnir hafa gert till. um í Ed. Um önnur mál er það svo, að mikil andstaða er hjá hv. 1. landsk. gegn flestum okkar málum, og að ég hefði átt að fara að styrkja hann til valds hér í d., til þess að koma fyrir kattarnef okkar áhugamálum, það er auðvitað hlægilegt.

Það er skiljanlegt, að hann sé argur í skapi yfir því, að flett sé ofan af óheilindum hans í Sogsvirkjunarmálinu. Hann þykist flytja málið af miklum dugnaði og krafti, lætur visa því til n., sem hann á sjálfur sæti í, og liggur svo á því frá 24. júlí til 18. ág. Ég hefi flett í gegnum fundargerðir fjhn., og ekki á einum einasta fundi hefir hann hreyft þessu máli. Ég get ekkert fullyrt um, hvort utan bókunar hefir verið á þetta minnzt. Mér þætti vænt um að fá að vita, hvort hv. form. fjhn. gæti upplýst, hvort hv. 1. landsk. hefir gert kröfu um, að málið yrði tekið fyrir í n., en engu fengið ráðið um það. En ef það upplýsist ekki, skoða ég svo sem hv. 1. landsk. hafi aldrei hreyft málinu allan þennan tíma. Þetta sýnir dæmalaust tómlæti um svo mikilsvert mál.

Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að hann gat sjálfur ekki ráðið, hvaða ályktanir n. tæki, en hann gat ráðið því, að málið yrði tekið fyrir fyrr eins og það var tekið fyrir 18. ág., og hann gat sjálfur komið með nál. um það. Hefði hann gert þetta, t. d. nokkrum dögum eftir að málið kom til n., sem ekki var svo ákaflega störfum hlaðin, þá hefði hann þvegið hendur sínar og sýnt, að af hans hálfu væri gert allt, sem hægt væri, til þess að málið gengi fram.

Ég hefi sagt þetta til þess að sýna tómlæti n., en í henni eiga sæti bæði hv. 1. landsk., sem er flm. þessa frv., og hv. 2. þm. Árn., sem hefir hér fullra hagsmuna að gæta fyrir sitt kjördæmi og er því skyldugur til þess að fylgja þessu máli.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um stjórnarandstöðu mína, þá veit hann, að í þingbyrjun var því lýst yfir í þýðingarmesta máli þingsins af hálfu Alþýðuflokksins, að hann myndi greiða atkv. gegn því. Þetta hefði orðið stj. að falli og hún orðið að leita til kjósendanna, ef flokkur hv. 1. landsk. hefði þorað að ganga með.