19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1932

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég á aðeins eina brtt. við fjárlagafrv. Það er XXVIII brtt. á þskj. 342. Ég flutti þessa brtt. einnig við 2. umr., en þegar til atkvgr. kom. tók ég hana aftur til 3. umr., vegna þess að mér virtist þá vera allmikill slátrunarhugur í hv. þd., en ég vildi halda voninni um líf í till. í lengstu lög. Þetta er heimild handa stj. að ábyrgjast kaup á fiskiskipum fyrir samvinnufélag Eskfirðinga, allt að 50 þús. kr., með þeim tryggingum, sem fram eru teknar í till. Ég mælti nokkur orð um þessa brtt. við 2. umr. og benti þá hv. d. á aðalástæðurnar fyrir þeirri till., sem hér ræðir um. Aðalástæðan er sem sé sú, að þetta kauptún hefir orðið fyrir nokkrum hnekki á yfirstandandi ári, þar sem fóru burt úr kauptúninu tvö stærstu fiskiskipin, sem til voru. Annað var gufuskip, en hitt vélbátur milli 20 og 30 tonn að stærð. Þetta er ekki í neinu sambandi við það, sem hv. frsm. fjvn. minntist á um Austfirði, að honum virtist þar minni fiskisæld en annarsstaðar hér við land. Ég ber ekki á móti því, að þetta sé rétt hjá hv. frsm., en hinu mótmæli ég, sem kom fram í ræðu hans, þegar hann minntist á ábyrgðarheimildina fyrir Seyðisfjörð, sem nú er í fjárlagafrv., að þar mundi vera minni atorka en annarsstaðar. Þessum orðum vil ég algerlega mótmæla, og þarf ekki einu sinni að færa rök fyrir því hér. Austfirzkir sjómenn eru þekktir víðar en á Austfjörðum, og ég hygg, að þeir standi alls ekki öðrum sjómönnum að baki. Hitt er satt, að fyrir Austurlandi er minni fiskimergð en víða annarsstaðar, en mér virðist það engin sérstök ástæða til að mæla á móti því, að hlaupið sé undir bagga með þessum mönnum og þeim hjálpað til að endurnýja sinn fiskiveiðaflota, þegar hann rýrnar af sérstökum ástæðum Ég tel einmitt, að helzt eigi að hjálpa þeim mönnum, sem illa eru stæðir, því að heilbrigðir þurfa ekki læknis við. Það þarf ekki að rétta sjávarútveginum hjálparhönd, þar sem hann gengur vel. Spurningin er bara þessi: Er þessi lánsheimild tryggð þannig, að ríkinu stafi ekki hætta af? Ég lít svo á, að það sé fyllilega gert, þar sem það er tryggt með ábyrgð félagsmanna, ábyrgð Eskifjarðarhrepps og l. veðrétti í skipunum. Ég verð því að segja, að hagur ríkissjóðs hljóti að vera tryggður í þessu efni.

Ég vil að endingu bæta því við, að þar sem Nd. hefir álitið réttmætt, að stj. væri heimiluð ábyrgð fyrir Seyðisfjörð, þá sé það ekki rétt að fella þessa till., því að hér er gert ráð fyrir öllum þeim sömu tryggingum og í ábyrgðarheimildinni fyrir Seyðisfjörð. Ég vil því vænta þess, að hv. þd. samþ. þessa till., og ekki síður fyrir það, þó að hv. þm. áliti, að hagur þessara fiskimanna sé lakari en annarsstaðar á landinu.