19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þessar umr. gefa mér aðeins tilefni til þess að mæla fáein orð. Hv. 2. landsk. gerði að umtalsefni till. mínar til atvinnubóta, og skildist mér á honum, að hann teldi þær spor í rétta átt. Í sambandi við till. mínar notaði hann tækifærið til þess að leggja ríkt á við stj. að nota hverja þá heimild sem fyrst, sem samþ. væri í þessu skyni. Mér finnst þetta einkennileg áskorun og ekki í sem beztu samræmi við framkomu þessa hv. þm. við afgreiðslu fjárl. á þessu þingi. Hann hefir verið á móti hverri tekjuaukaheimild, sem fram hefir komið, en nú skorar hann á stj. að veita fé, veita mikið fé. Hann vill ekki láta stj. fá heimild til þess að innheimta nauðsynleg gjöld, en vill samt láta veita stórar fúlgur til framkvæmda, sem ekki hefir verið veitt til áður. Þessi hv. þm. greiddi atkv. bæði á móti verðtollinum og fjárl., og það virðist óneitanlega vera meira samræmi í að stuðla að því, að stj. hefði eitthvert fé með höndum, áður en komið er með slíkar áskoranir sem þessar.