21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Út af því, sem hæstv. forsrh. svaraði mér áðan, að efni frv. um sérstakan tekju- og eignarskatt til atvinnubóta væri nú tekið upp í fjárl., þá verð ég að segja, að mig furðar stórkostlega á því, að hæstv. forsrh. skuli taka sér önnur eins orð í munn, sem hann og aðrir vita, að eru bláber vitleysa.

Ég held, að ég verði að rifja upp dálítið af sögu þessa máls hér í d. vegna hans og hans flokks, sem ætti þó ekki að þurfa.

Upphaflega var málið flutt þannig, að leggja skyldi á sérstakan tekju- og eignarskatt, 360 þús. kr., þegar á þessu hausti. Flm. og n. féllust þó á, að þessi upphæð væri allt of lág. Brtt. kom því frá fjhn. um að bæta við þetta 100 þús. kr., og á móti yrði lagt tvöfalt á viðkomandi héruð. Þetta fékk góðar undirtektir hjá hv. flm. og n., sem ég talaði við. Það var vitað, að í því formi mundi meiri hl. dm. vera því fylgjandi. En einmitt þegar það er séð, flýtir einhver á flokksfundi Framsóknarflokksins sér að fá samþykkt fyrir því, að málið skuli ekki vera látið ganga fram.

Hæstv. forsrh. segir, að sama efni og er í þessu umrædda frv. komi nú í 22. gr. fjárl. En brtt. hans fer fram á að heimila stj. að taka fé að láni til þess að verja til atvinnubóta. Það er allt og sumt, sem þar stendur, og það er gert að skilyrði, að héruðin skuli leggja á móti tvöfalt framlag, án þess að nokkuð sé gert til þess að létta þeim að leggja fram þetta fé.

Ég verð að segja, að viðskilnaður hæstv. ráðh. og flokksins yfirleitt við það frv., sem ég verð að telja, að helzt hafi verið sýnd viðleitni í til þess að ráða bót á ástandinu, sem er framundan, sé í mesta máta til hneisu fyrir hæstv. ráðh. og flokk hans.

Það er rangt mál hjá hv. frsm., að verklegar framkvæmdir í fjárl. 1928 hafi verið minni en nú. Þær voru milli 800 og 900 þús. kr., þótt einn liður, þjóðvegir, væru lægri þá en nú. Það eru skröksögur, þegar hv. frsm. flytur þetta á þinginu. Árið 1928 var hærra en nokkurt ár undanfarið annað en 1925. Fjárl. fara vaxandi ár frá ári, og ríkissjóður verður stærri og stærri vinnuveitandi í landinu. Svo veit hv. frsm. mætavel, að þótt taldar séu upp framkvæmdir í fjárl., þá er þar í ekki helmingur þeirra framkvæmda, sem ríkissjóður hefir látið vinna, t. d. í vegamálum, og ekki nema 20% af því, sem varið er til skólabygginga. (HJ: En eru engar fjárveitingar í 22. gr.?). Ég veit ekkert, hvort stj. notar heimildina í 22. gr. og hvort héruðin geta lagt fram á móti, eða hvort stj. fær þetta lán. En jafnvel þótt þetta sé jagt fram, þá nær þetta ekki framkvæmdunum 1928 og ekki 1/3 af því, sem unnið hefir verið undanfarin ár fyrir ríkisfé. Á þennan hátt eru skornar niður framkvæmdir ríkisins, einmitt á þeim tíma, þegar atvinnuþörfin er mest, og það er ósæmileg afgreiðsla á fjárlögunum.

Annað held ég, að ég sjá ekki ástæðu til þess að segja. Við munum greiða brtt. minni hl. fjvn. atkv., ekki fyrir það, að ég telji þar neinu máli skipta, en við viljum reyna, hvort ekki er með neinu móti hægt að fá breyt. á fjárl., til þess að unnt verði að taka þau aftur til nýrrar afgreiðslu.

Um form fjárl. hafa þeir leitt saman hesta sína, hinir sprenglærðu fjvn.menn, hv. frsm. og hv. 4. þm. Reykv. Ég tel hið nýja form betra en hitt, sem fylgt var áður. Það er laukrétt, sem hv. frsm. fjvn. sagði svo skýrt og greinilega, að þetta er enginn vandi, aðeins að leggja nokkrar tölur saman og draga nokkrar tölur frá, þá er það fengið.