05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

7. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Jónsson):

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru dregin saman í eina löggjöf ýms eldri lög, sem snerta búfjárrækt, en jafnframt er bætt við nýjum bálki um þau atriði búfjárræktar, sérstaklega sauðfjárrækt, sem engin lög voru til um áður. Lögin eru því öll endurskoðuð og að áliti n. bætt.

Með frv. þessu er stefnt að því, að hliðstæð löggjöf og stuðningur verði veittur búfjárræktinni eins og jarðræktinni var áður veittur með jarðræktarlögum. Og það er engu síður nauðsynlegt að endurbæta búfjárræktina en jarðræktina, því jarðræktin er til lítils, ef búfjárræktin er ekki í góðu lagi.

N. athugaði þetta frv. í vetur. og var það lagt fyrir þingið nú eins og hún skildi þá við það. Við nm. nú getum að mestu leyti fallizt á þetta frv., en höfum þó leyft okkur að koma fram með nokkrar brtt. á þskj. 171, sem sumar eru aðeins orðabreyt., þótt sumar séu aftur nokkrar efnisbreyt.

l. brtt. er við 11. gr. Þar er lagt til, að 2. málsgr. falli burt. Í þessari 2. málsgr. er það tekið fram, hvað skuli ákveðið í samþykktum nautgriparæktarfélaga og að þar á meðal skuli vera fyrirmæli um fitumælingar í mjólk N. álítur þetta eðlilegt, en sér ekki ástæðu til þess, að lögin hafi ákvæði um þetta, því í sömu gr. er gert ráð fyrir því, að félög geti verið til, sem fái styrk, þótt ekki séu gerðar fitumælingar. Því er lagt til, að þessi mgr. falli niður.

2. brtt. er við 20. gr. N. vill, að það komi skýrt fram. að gert er ráð fyrir, að kynbótanefndin hafi heimild til að kaupa kynbótahesta, ef þurfa þykir.

3. brtt. er við 21. gr. Þar er lagt til, að seinni málsl. falli niður. En hann hljóðar svo: „Þó má ekki kaupa kynbótahest nema hrossakynbótanefnd samþ. valið á hestunum“. Með því að hvergi í frv. er gert ráð fyrir öðru en að kynbótanefnd ein hafi leyfi til þess að kaupa kynbótahesta handa sveitinni, þykir óþarft að taka það fram hér.

4. og 5. brtt. eru aðeins orðabreyt., og þarf því ekki að fara frekar út í þær.

6. brtt. er við 44. gr. Þar er ákveðinn árlegur styrkur til sauðfjárræktarfélaga. Okkur fannst fullhátt að ákveða hann 75 kr.; fannst viðunandi, þótt hann væri ekki nema 50 kr. Aftur fannst okkur þessi styrkur helzt til lágur, þegar miðað var við ærtölu, en samkv. frv. er hann ákveðinn 20 kr. Við leggjum því til, að hann verði hækkaður í allt að 50 kr.

7. brtt. er við 45. gr. Á henni er klaufalegt orðalag, þar sem talað er um, að Bún. Ísl. hafi rétt til þess að ráðstafa kynbótafé „við ábúðendaskipti“. N. leggur til, að í stað þess komi „ef styrkþegi hættir að reka búið“. Hér er það út í hött að tala um ábúendaskipti, en ef kynbótabúreksturinn hættir af hálfu styrkþega, virðist nauðsynlegt, að kynbótastofninum sé bjargað áfram til almannagagns.

8. brtt. er ekki annað en leiðrétting. Í 55. gr. frv. er vitnað í 56. gr., en á að vera 57. gr.

9. brtt. er við 57. gr. Hér er um nokkra efnisbreyt. að ræða. Fóðurbirgðafélög eru nú alls á öllu landinu innan við 10, og höfum við rekið okkur á, að það hefir dregið úr stofnun þeirra, hver kostnaður fylgir því. En það er ekki vafi á, að þau geti verið til mikils gagns, og viljum við því greiða fyrir stofnun þeirra með því að lækka tillag hvers einstaklings frá því, sem er í frv. Aftur er ekki viðurhlutamikið, þótt sveitarsjóður greiði meira en áður, þar sem gert er ráð fyrir, að hann megi greiða það á 10 árum.

10. brtt. er við 58. gr. N. þótti þessi gr. nokkuð glannalega orðuð, því þar er gert ráð fyrir, að fóðurbirgðafélögin eigi kröfu á láni úr bjargráðasjóði, ef það kemur fram við skoðun, að sjóður þeirra þurfi viðbótartryggingar. En þetta nær ekki nokkuri átt, þar sem bjargráðasjóður er auk annars að mestu leyti bundinn í útlánum og getur því ekki orðið til ráðstöfunar í skjótri svipan nema að nokkru leyti. Því er sjálfsagt að takmarka kröfu hvers hrepps við hluta hans í bjargráðasjóðnum.

Síðasta brtt. er við 75. gr. Hún á að vera trygging fyrir því, að skepnur, sem vátryggðar eru í búfjártryggingarsjóði, standi að lögveði fyrir iðgjöldum.

Eins og hv. þdm. sjá, eru þessar brtt. flestar smávægilegar. Ég tel þó, að sumar þeirra skipti nokkru máli, og þá einkum 9., 10. og 11. brtt., og legg ég áherzlu á, að þær nái fram að ganga.

Ég hefi svo ekki fleira um þessar brtt. að segja, en óska, að þær verði samþ.